Fréttir



Leiðin úr höftunum - fyrirlestur og útgáfa bókar í tilefni af 95 ára afmæli Jónasar Haralz

20.10.2014 Skoðun Útgáfa

Í tilefni af 95 ára afmæli Jónasar Haralz hélt Hagfræðideild HÍ ráðstefnu honum til heiðurs með yfirskriftinni „Leiðin úr höftunum“. Ásgeir Jónsson efnahagsráðgjafi GAMMA hélt erindi er bar heitið „Spurningin um lausaféð“. 

Jónas Haralz fyrrverandi bankastjóri var einn áhrifamesti hagfræðingur Íslands á tuttugustu öld og var til að mynda helsti efnahagsráðgjafi og hugmyndafræðingur Viðreisnarstjórnarinnar 1960-1972.  Í tilefni að 95 ára afmæli Jónasar þann 6. október síðastliðinn hélt Hagfræðideild HÍ ráðstefnu honum til heiðurs í hátíðarsal Háskólans með yfirskriftinni „Leiðin úr höftunum“, þar sem meðal annars Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hélt erindi. 

Ásgeir Jónsson efnahagsráðgjafi GAMMA hélt einnig erindi á ráðstefnunni er bar heitið „spurningin um lausaféð. Þar færði hann rök fyrir því að endurskipulagning bankakerfisins væri nauðsynlegur undanfari að afnámi hafta til þess að minnka líkurnar á greiðslujafnaðarvandamálum með því að draga úr skuldbindingum með stuttri tímalengd. Hugtökin þolinmótt / óþolinmótt fjármagn eða innlendur / erlendur fjárfestir hafi mjög takmarkaða þýðingu – það sé aftur á móti tegund og tímalengd skuldbindingarinnar sem skiptir máli en ekki sálarástand eða þjóðerni eigandans!

Tillögur Ásgeirs voru þríþættar:

  • Fjármögnun bankanna sé lengd og skipt til baka úr innlánafjármögnun í skuldabréfafjármögnun.
  • Að bankakerfið sé smækkað þannig að hluti eigna þess færist á efnahagsreikninga annarra aðila sem eru með langa tímalengd skuldahliðar.
  • Að fjármálaleg milliganga kalli á minni tímaumbreytingu og fari fram á markaði en ekki í gegnum innlánastofnanir.

Aukinheldur hljóti endurskipulagning bankakerfisins að vera unnin í samhengi við framtíðarfjármögnun húsnæðislána, fjárfestingar lífeyrissjóða og uppgjör þrotabúanna í samhengi við framtíðarfjármögnun bankanna og afnám hafta.

Fyrirlestur Ásgeirs má nálgast hér.

Í leit að staðfestu

Í tilefni af afmæli Jónasar gaf Hagfræðistofnun út bók með greinum eftir Jónas er hann ritaði árið 2009 – árið eftir hrunið. Bókin ber heitið „Í leit að staðfestu“. Ásgeir Jónsson efnahagsráðgjafi GAMMA var ritstjóri bókarinnar og ritaði aðfararorð. „Jónas var án efa einn skarpasti greinandi efnahagsmála sem um gat hérlendis. Að honum gengnum standa eftir fjölmargar ræður og greinar sem sýna að hann var einn fárra samtíðarmanna sem raunverulega skildi efnahagslegt samhengi atburða þegar þeir gerðust. Það hefðu því fáir átt að vera betur til þess fallnir að greina atburði ársins 2008 í sögulegu samhengi en einmitt hann.“

 

Senda grein