FréttirEfnhagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035

28.6.2011 Skoðun Starfsemi Útgáfa

Að beiðni Landsvirkjunar skrifaði GAMMA ítarlega skýrslu um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035forsida-LV-skyrsla

Í apríl 2011 óskaði Landsvirkjun hf. [LV] eftir greiningu frá GAM Management hf. [GAMMA] á mögulegri stöðu LV árin 2025-2035 eftir að fyrirhuguðu framkvæmdatímabili lýkur. Greiningin felur í sér að meta mögulega fjárhagsstöðu LV, arðgreiðslugetu þess og hver áhrifin af mögulegum arðgreiðslum gætu verið á íslenskt efnahagslíf. Einnig eru metin áhrifin af framkvæmdastefnunni á efnahagslíf á Íslandi næstu 10-15 árin á meðan framkvæmdum stendur.

Í kafla 3 er farið yfir fjárfestingarstefnu LV og áætlaðar mögulegar fjárfestingar samhliða í iðnaði sem nýtir aukna orkuframleiðslu. Áhrifum af framkvæmdastefnunni má í rauninni skipta í þrennt þ.e.:

  • framkvæmdaáhrif sem vara á meðan framkvæmdum stendur,
  • rekstraráhrif þegar virkjanir og verksmiðjur taka til starfa og
  • arðsemisáhrif vegna bættrar stöðu LV, þ.e. greiðslum á arði og tekjuskatti til ríkissjóðs.

Staða íslenska hagkerfisins er greind í kafla 4 þar sem framleiðsluslaki og atvinnuleysi skiptir miklu máli þegar metin eru margföldunar- eða ruðningsáhrif. Framkvæmdaáhrif af fjárfestingum LV og iðnaðar eru metin í kafla 5 ásamt afleiddum áhrifum á hagkerfið, þ.e. hagvöxt og atvinnu, og það sérstaklega skoðað hvort þær valdi mögulega ruðningsáhrifum.

Aukin uppbygging orkuframleiðslu og iðnaðar undanfarin ár hefur skapað töluverða sérþekkingu á Íslandi á sviði virkjana, jarðvarma og álvera. Í kafla 6 eru þessi áhrif metin og hvort klasamyndun sé að myndast í kringum íslenska raforkuframleiðslu og stóriðju á Íslandi.

Arðsemisáhrif framkvæmdanna eru skoðuð, annars vegar í kafla 7 þar sem áhrif af mögulegum arðgreiðslum til ríkissjóðs eru færðar í þjóðhagslegt samhengi m.t.t. mögulegra skattalækkana, skuldaniðurgreiðslu og fjárfestinga og hins vegar í kafla 10 þar sem helstu rekstrarstærðir LV eru metnar ásamt möguleikum félagsins til arð- og tekjuskattsgreiðslna.

Í kafla 9 eru skoðuð möguleg áhrif þess ef ákveðið yrði að ráðast í lagningu sæstrengs til Evrópu ásamt því að velt er upp ýmsum þjóðhagslegum spurningum og hvort gæti verið hagkvæmara að miða við orkusölu eingöngu innanlands eða í gegnum sæstreng beint til erlendra aðila til viðbótar.

Þessi skýrsla er rituð af starfsmönnum GAMMA að beiðni Landsvirkjunar.  Unnið er út frá forsendum Landsvirkjunar um þróun meðalverðs á orku hérlendis, fjárfestingarþörf og magn seldrar orku en allir aðrir útreikningar og niðurstöður eru ábyrgð GAMMA.

Skýrsluna unnu:

Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur.
Gísli Hauksson, hagfræðingur.
Dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.
Lýður Þór Þorgeirsson, MBA, B.Sc. rafmagns- og tölvuverkfræði

Skýrsluna sjálfa má finna hér, skýrslan er 104 bls.
Útdrátt úr skýrslunni má finna hér, útdrátturinn er 21 bls.
Kynningu á efni skýrslunnar má finna hér.

Senda grein