FréttirSkuldabréf fyrirtækja sækja í sig veðrið

7.3.2014 Skoðun

Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, skrifar um þann vöxt sem hefur átt sér stað í útgáfu skuldabréfa án ríkisábyrgðar á síðustu misserum.

Skuldabréf fyrirtækja sækja í sig veðrið

Mikil breyting hefur átt sér stað á markaði með skuldabréf fyrirtækja og hefur hann hægt og bítandi verið að byggjast upp aftur. Hægt er að líta til vísitölu GAMMA yfir skuldabréf fyrirtækja (GAMMA: Corporate Bond Index eða GAMMA: CBI) til að fylgjast með þróuninni.

Vísitalan samanstendur af skráðum skuldabréfum fyrirtækja í Kauphöllinni með samningsbundna viðskiptavakt. Hún er bakreiknuð aftur til ársins 2009 og taldi í upphafi einungis 1 bréf og fram til ársins 2012 bættust 7 bréf við vísitöluna. Það er ekki fyrr en árið 2012 sem útgáfur hefjast að marki  og er fjöldi bréfa í vísitölunni núna 14 og markaðsvirði hennar um 130 milljarðar króna. Nú eru í vísitölunni sértryggð skuldabréf bankanna, útgáfur Reykjavíkurborgar, Lánasjóðs sveitarfélaga og útgáfa fasteignafélagsins Eikar. Hafa má í huga að vöxtur útgáfu annarra aðila en ríkissjóðs hefur vaxið meira en vísitalan nemur, þar sem hún telur ekki allar útgáfur heldur er frumskilyrði inntöku í vísitöluna að skuldabréfið sé skráð og með samningsbundna viðskiptavakt.

Umfang vísitölunnar jókst umtalsvert árið 2013 og til að mynda var tekin til viðskipta 12 milljarða útgáfa Eikar fasteignafélags og í júlí var tekin upp samningsbundin viðskiptavakt á 11 milljarða skuldabréfaútgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga með lokadag 2034. Væntingar eru til þess að útgáfum haldi áfram að fjölga og að markaðurinn byggist áfram upp.  Búast má við að  útgáfur ársins 2014 verði á bilinu 50-100 milljarðar. Er fyrirséð að fyrirtæki muni í auknum mæli sækja sér fjármögnun á skuldabréfamarkað ásamt því að útgáfa sértryggðra skuldabréfa muni halda áfram ásamt útgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga og sveitarfélaganna sjálfra. Nú telja skuldabréf fyrirtækja um 7% af heildarmarkaðsvirði hlutabréfa og skuldabréfa á íslenskum fjármálamarkaði mælt með Vísitölum GAMMA.  Hlutfall ríkisskuldabréfa hefur farið lítillega minnkandi undanfarin misseri og líkur eru á því að sú þróun muni halda áfram, bæði vegna minnkandi útgáfu ríkissjóðs sem og aukinnar útgáfu skuldabréfa fyrirtækja og hlutabréfa.

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa er hluti af vísitölusafni GAMMA en þær eru nú sex talsins og öllum aðgengilegar án kostnaðar. Aðferðafræðin er stöðluð og opinber og byggir í grunninn á erlendri fyrirmynd en mikilvægt er að vísitölur séu byggðar upp á hlutlægan og reglubundinn hátt. Má þar helst nefna ákvarðanir um hvaða verðbréf eru valin inn í vísitöluna ásamt því hvernig hlutfallsvægi hvers bréfs er ákvarðað. Markaðir eru síbreytilegir og það er mikilvægt að fjárfestar geti spáð fyrir um hvaða áhrif þessar breytingar hafa á tiltekna vísitölu. Allar miða þær að því að endurspegla þróun markaðar sem best og auðvelda notkun þeirra sem viðmið við fjárfestingar. Möguleikar á notkun vísitalnanna er margþættur t.d. sem fjárfestingarviðmið, fyrir söguleg þróun, mælingu ávöxtunar og til samanburðar. Þær er einnig hægt að nota sem grunn að vísitölusjóðum og hefur einn slíkur sjóður verið í rekstri hjá GAMMA frá árinu 2010 þ.e. GAMMA: INDEX sem eltir ríkisskuldabréfavísitöluna. Hefur árangur hans verið með ágætum og sannar gildi vísitölusjóða í íslenskum skuldabréfum.

Frá ársbyrjun 2009 hefur ávöxtun vísitölu skuldabréfa fyrirtækja verið 13%, á ársgrundvelli, samanborið við 10% ávöxtun, á ársgrundvelli, vísitölu ríkisskuldabréfa.

Höfundur: Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA.

- Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 7. mars 2014

Senda grein