Vísitölur GAMMA - yfirlit yfir árið 2013
Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á nýliðnu ári og hækkaði Markaðsvísitalan um 7,3%.
Hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja sækja á
Töluverð breyting varð á árinu á samsetningu Markaðsvísitölunnar og héldu hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf áfram að sækja á ríkistryggð bréf á árinu 2013. Hefur hlutfall þeirra nú farið frá því að vera einungis 15% af Markaðsvísitölu GAMMA upp í 25% enda bættust við þrjú ný hlutabréf (TM, VÍS og Fjarskipti) og sex ný skuldabréf fyrirtækja á árinu. Núverandi samsetning Markaðsvísitölu GAMMA er 53% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 22% óverðtryggð ríkisbréf, 18% hlutabréf og 7% fyrirtækjaskuldabréf.
Heildarmarkaðsvirði Markaðsvísitölu GAMMA í árslok var 1.880 ma. og hækkaði um 190 ma. á árinu. Verðtryggð ríkis- og íbúðabréf (GAMMAi) lækkuðu um 42 ma. að markaðsvirði á meðan virði annarra eignaflokka hækkaði. Mest hækkun var í Hlutabréfavísitölunni, um 120 ma. að markaðsvirði (úr 210 milljörðum í 330 milljarða).
Velta ríkisskuldabréfa dregst saman
Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2013 var 2.032 milljarðar eða um 8,2 milljarðar á dag að meðaltali. Þetta er lækkun frá 2012 en þá var heildarveltan 2.469 milljarðar og skýrist það að helstu leyti vegna minnkandi veltu ríkisskuldabréfa.
Af einstökum vísitölum var langmest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf eða 1.131 ma (56%), næst var 642 ma. í verðtryggðum ríkis- og íbúðabréfum (31%), 224 ma. í Hlutabréfavísitölu GAMMA (11%) og 35 ma. með bréf í Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa (2%).
Þróun dagsveltu á árinu 2013