Fréttir



Heildarvísitala fyrir íslenskan fjármálamarkað

27.12.2013 Skoðun Vísitölur

Ellert Arnarson skrifar um nýja heildarvísitölu fyrir íslenskan fjármálamarkað sem nær yfir öll skráð markaðsverðbréf.

Heildarvísitala fyrir íslenskan fjármálamarkað

Nú liggja fyrir niðurstöður úr samkeppninni um fallegasta orð íslenskrar tungu. Orðið „vísitala“ komst ekki í verðlaunasæti, hvað þá í úrslit, og raunar ekki á lista. Hins vegar er það skoðun þess sem hér ritar að þetta orð sé eitt hið nytsamlegasta í íslenskri tungu þar sem vísitölur bjóða upp á eina raunhæfa möguleikann að meta þróun markaða og efnahagslífs sem og árangur verðbréfasafna. Það er mikilvægt, ekki síst út frá sjónarmiðum um gagnsæi, að slíkar vísitölur séu fyrir hendi á opinberum vettvangi og að aðferðafræði þeirra sé skýr og reglubundin.

Nýlega hóf GAMMA opinbera birtingu á Markaðsvísitölu GAMMA, sem er nýjung á fjármálamarkaði og fyrsta opinbera vísitalan sem nær yfir öll skráð markaðsverðbréf, það er hlutabréf, fyrirtækjaskuldabréf og ríkistryggð skuldabréf. Hverri undirvísitölu er gefið vægi í samræmi við markaðsverðmæti þeirra og á þannig að endurspegla markaðinn á fullnægjandi hátt. Þess má geta að hlutfallsvigtir einstakra eignaflokka eru ekki fastar stærðir heldur sveiflast daglega með undirliggjandi markaðsvirði.

Ávöxtun Markaðsvísitölu GAMMA, miðað við lokagengi í upphafi desember 2013, hefur verið 16,1% frá ársbyrjun 2012. Samanburður við aðrar vísitölur GAMMA er sýndur í meðfylgjandi mynd, en þar sést hvernig Skuldabréfavísitala GAMMA, sem inniheldur íbúða- og ríkisbréf, togar niður ávöxtun Markaðsvísitölunnar á meðan hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf sýna talsvert betri árangur. Eftir góða ávöxtun fyrstu árin eftir hrun hafa fjárfestar í auknum mæli fært sig úr ríkistryggðum skuldabréfum yfir í hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf, sem endurspeglar gott gengi þeirra eignaflokka síðastliðin tvö ár.

Tilfærsla úr ríkiseignum í aðrar eignir

Markaðsvísitalan sýnir einnig glögglega hvernig vægi mismunandi eignaflokka hefur risið og hnigið á tiltölulega skömmum tíma.  Í nóvemberlok 2013 var heildarmarkaðsvirði vísitölunnar 1.890 milljarðar, sem er um 111% af landsframleiðslu, og skiptist í 54% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 22% óverðtryggð ríkisbréf, 17% hlutabréf og 7% fyrirtækjaskuldabréf. Það er því ljóst að ávöxtun vísitölunnar tekur að miklu leyti mið af breytingum í ríkistryggðum bréfum, sem eins og áður segir hafa ekki sýnt góðan árangur að undanförnu í samanburði við aðra eignaflokka. Nýskráningar á hlutabréfamarkaði og frekari útgáfur fyrirtækjaskuldabréfa, auk verðhækkana á þeim bréfum sem fyrir voru, hafa þó aukið vægi þeirra eignaflokka svo um munar – frá því að vera einungis um 10% af Markaðsvísitölunni fyrir tveimur árum upp í rúm 24% í dag. Forvitnilegt verður að sjá hvort þessir eignaflokkar haldi áfram að auka við hlutfall sitt á kostnað ríkistryggðra bréfa.

Skilvirk upplýsingaveita

Markaðsvísitala GAMMA inniheldur ekki öll skráð verðbréf, heldur hafa undirvísitölur hennar ýmis inntökuskilyrði sem lúta meðal annars að seljanleika bréfanna. Þannig er tryggt að vísitölurnar sýni sem réttasta mynd af þróun markaðar; með þeim hætti er hægt að skapa skilvirkt og gagnlegt fjárfestingarviðmið. Þannig geta fjárfestar með dreifð eignasöfn í svipuðum hlutföllum og markaðurinn borið sig saman við Markaðsvísitöluna óbreytta, eða notað mismunandi vigtir fyrir undirvísitölur hennar sem samsvara ákveðinni fjárfestingarstefnu. Notagildi einskorðast þó ekki eingöngu við fjárfesta heldur nýtist Markaðsvísitalan fjölmiðlum og almenningi til að fylgjast með þróun og ávöxtun íslenska fjármálamarkaðarins í heild sinni. Upplýsingar um ávöxtun einstakra verðbréfa gefa oft takmarkaðar upplýsingar um þróun markaðar og gagnsæi er lítið. Þannig eru vísitölur, er gefa samandregna mynd af ávöxtun og þróun, stór liður í bættri upplýsingagjöf og þannig aðgengi að fjármálamörkuðum.

Utanumhald og þróun Vísitalna GAMMA er í stöðugu ferli. Næstu skref lúta að því að búa til heildarvísitölu fyrir íslenskt hagkerfi sem byggir í grunninn á vísitölum fjármálamarkaðar til viðbótar við vísitölur utan um aðra eignaflokka s.s. fasteignir og innlán.

 

Höfundur:
Ellert Arnarson, stærðfræðingur, fjármálahagfræðingur, sjóðsstjóri og umsjónarmaður vísitalna GAMMA

- Greinin birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu. 

Senda grein