Fréttir



Ný vísitala fyrir íslenskan fjármálamarkað

18.12.2013 Vísitölur

GAMMA hefur hafið birtingu á Markaðsvísitölu GAMMA sem er ætlað að veita heildarsýn á þróun fjármálamarkaðar á Íslandi. Vísitalan er nýjung á fjármálamarkaði og fyrsta opinbera vísitalan sem nær yfir helstu skráðu markaðsbréfin í íslensku kauphöllinni.

Markaðsvísitala GAMMA er samsett úr vísitölum hlutabréfa, fyrirtækjaskuldabréfa og ríkistryggðra skuldabréfa. Undirvísitölurnar eru vigtaðar eftir markaðsverðmæti og er þannig ætlað að endurspegla markaðinn á fullnægjandi hátt. Hlutfallsvigtir einstakra eignaflokka eru ekki fastar stærðir heldur sveiflast daglega með undirliggjandi markaðsvirði.   Vísitölur GAMMA

Þróun og ávöxtun á fjármálamarkaði

Markaðsvísitalan er bakreiknuð aftur til ársbyrjunar 2012 og hefur hún þá gildið 100; má sjá þróun hennar í meðfylgjandi mynd í samanburði við aðrar vísitölur GAMMA til nóvemberloka 2013. Ávöxtun Markaðsvísitölu GAMMA yfir tímabilið hefur verið 16,1%, sem gerir um 8,1% á ársgrundvelli. Samanburður við aðrar vísitölur GAMMA sýnir hvernig Skuldabréfavísitala GAMMA, sem inniheldur íbúða- og ríkisbréf, togar niður ávöxtun Markaðsvísitölunnar á meðan hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf sýna talsvert betri árangur. Beinn samanburður er þó ekki mögulegur án þess að taka til greina að áhættuálag (eins og skuldara- og seljanleikaálag) þessara eignaflokka er talsvert hærra heldur en á ríkistryggðum skuldabréfum.   Vísitölur GAMMA með upphafsgildi 100 í byrjun árs 2012  

Við nóvemberlok 2013 var heildarmarkaðsvirði vísitölunnar 1.890 milljarðar, sem er um 111% af landsframleiðslu, og skiptist í 54% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 22% óverðtryggð ríkisbréf, 17% hlutabréf og 7% fyrirtækjaskuldabréf. Nýskráningar á hlutabréfamarkaði og frekari útgáfur fyrirtækjaskuldabréfa, auk verðhækkana á þeim bréfum sem fyrir voru, hafa aukið vægi þeirra eignaflokka á kostnað ríkistryggðra bréfa síðustu misseri. Hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja hafa þannig farið úr því að vera einungis um 10% af Markaðsvísitölunni fyrir tveimur árum upp í rúm 24% í dag.

 Samsetning Markaðsvísitölu GAMMA

Tilgangur og notagildi

Markmið með birtingu Markaðsvísitölu GAMMA er aðallega tvíþætt - að varpa ljósi á almenna þróun á íslenskum fjármálamarkaði og að þjóna sem hlutlaust mat á þeirri ávöxtun sem fjárfestir getur vænst með því að fjárfesta á þeim markaði. Undirvísitölur hennar innihalda ýmis inntökuskilyrði sem lúta meðal annars að seljanleika bréfanna, en það tryggir að vísitölurnar gefi sem réttasta mynd af þróun markaðar; með þeim hætti er hægt að skapa skilvirkt og gagnlegt fjárfestingarviðmið. Þá geta fjárfestar með dreifð eignasöfn í svipuðum hlutföllum og markaðurinn borið sig saman við Markaðsvísitöluna óbreytta, eða notað mismunandi vigtir fyrir undirvísitölur hennar sem samsvara ákveðinni fjárfestingarstefnu.

Notagildið einskorðast þó ekki eingöngu við fjárfesta heldur nýtist Markaðsvísitala GAMMA fjölmiðlum og almenningi til að fylgjast með þróun og ávöxtun íslenska fjármálamarkaðarins í heild sinni. Upplýsingar um ávöxtun einstakra verðbréfa gefa oft takmarkaðar upplýsingar um þróun markaðar og gagnsæi er lítið. Þannig eru vísitölur, er gefa samandregna mynd af ávöxtun og þróun, stór liður í bættri upplýsingagjöf og þannig aðgengi að fjármálamörkuðum.

Nánari upplýsingar má nálgast hjá GAMMA á gamma@gamma.is eða í síma 519-3300. 

Senda grein