Fréttir



Endurskoðun á samsetningu Hlutabréfavísitölu GAMMA

24.6.2013 Vísitölur

Samsetning Hlutabréfavísitölu GAMMA hefur verið endurskoðuð en það er gert ársfjórðungslega. Þetta er fyrsta endurskoðun vísitölunnar síðan dagleg birting á henni hófst í maí síðastliðinn.

Samsetning Hlutabréfavísitölu GAMMA hefur verið endurskoðuð með hliðsjón af aðferðafræði vísitölunnar, en lesa má nánar um hana á heimasíðu vísitölunnar hér (http://www.gamma.is/media/skjol/Hlutabrefavisitala-GAMMA---adferdafraedi.pdf). Vísitalan er endurskoðuð fjórum sinnum á ári og hefjast ný tímabil á fyrsta viðskiptadegi í janúar, apríl, júlí og október ár hvert. Þetta er fyrsta endurskoðun vísitölunnar síðan dagleg birting á henni hófst síðastliðinn maí, en vísitalan er jafnframt bakreiknuð aftur til ársins 2008. Félög innan vísitölunnar eru vegin eftir flotleiðréttu markaðsvirði.

Breytingar frá núverandi samsetningu eru þær að tryggingafélögin TM og VÍS eru tekin inn í vísitöluna og Össur fellur út. Endurskoðuð fyrirtækjasamsetning tekur gildi þann 1. júlí 2013, og mun vísitalan þá innihalda eftirfarandi átta félög (vægi þeirra miðað við dagslokaverð 21. júní síðastliðinn fylgja á eftir í sviga):

Eimskipafélag Íslands hf. (18%)samsetning

Fjarskipti hf. (3%)

Hagar hf. (13%)

Icelandair Group hf. (23%)

Marel hf. (24%)

Reginn hf. (6%)

Tryggingamiðstöðin hf. (7%)

Vátryggingarfélag Íslands hf. (6%)

Hlutabréfavísitala GAMMA miðast við það að gefa sem besta mynd af íslenska hlutabréfamarkaðinum og inniheldur 8 fyrirtæki af 10 skráðum íslenskum fyrirtækjum á Aðallista. Einungis Össur og Nýherji eru ekki með en val í vísitöluna fer fram með því að raða fyrirtækjum upp eftir veltu á markaði og eru síðan veltuhæstu fyrirtækin valin í vísitöluna þar til 90% af flotleiðréttu markaðsvirði heildarmarkaðar er náð. Þess má geta að Hlutabréfavísitala GAMMA inniheldur sömu fyrirtæki og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar að viðbættum Reginn og Fjarskiptum (Vodafone).

Hlutabréfavísitala GAMMA árið 2013

Þegar þetta er ritað hefur Hlutabréfavísitala GAMMA hækkað um 14,9% það sem af er ári. Vísitalan hefur hins vegar lækkað um 4% síðustu þrjá mánuði eftir miklar hækkanir á fyrsta ársfjórðungi, en vísitalan náði hámarksgildi sínu 18. mars síðastliðinn. Á meðfylgjandi mynd gefur að líta hlutfallslega þróun vísitölunnar og fyrirtækja innan hennar á árinu 2013 (VOICE kemur inn í vísitöluna á 2. ársfjórðungi og fær upphafsgildi jafnt og gildi vísitölunnar á þeim tímapunkti).

soguleg

Allar nánari upplýsingar má fá hjá gamma@gamma.is eða í síma 519-3300.

Senda grein