Markmiðið er myntfrelsi
Lýður Þór Þorgeirsson, sjóðsstjóri hjá GAMMA, segir að umræðan um gjaldeyrismálin snúist í raun um viðskiptafrelsi. Þá bendir hann á að erfitt sé að sjá hvernig Íslendingar eigi að geta brotist úr höftum án þess að krónunni sé skipt út fyrir gjaldeyri sem gjaldgengur er erlendis.
Markmiðið er myntfrelsi
Í þeirri viðleitni stjórnvalda að halda gengi íslensku krónunnar sterku og stöðugu hefur gengi hennar verið fest við gengi annarra gjaldmiðla nánast samfleytt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Fyrst við dönsku krónuna, svo breska pundið þar til gengi þess fór að lækka í upphafi seinna stríðs en þá var skipt yfir í fastgengi við Bandaríkjadal. Þegar líða fór á seinni hluta síðustu aldar var einkum miðað við körfu gjaldmiðla sem endurspegluðu samsetningu útflutningsviðskipta. Reglulega var gengið fellt og á köflum mikillar verðbólgu voru handstýrðar gengisfellingar svo tíðar að gengið virtist jafnvel fljóta. Það var í raun ekki fyrr en árið 2001 sem gengi myntarinnar fékk að ráðast í frjálsum viðskiptum. Og á meðan gengi krónunnar styrktist vegna vaxtamunarviðskipta erlendra spákaupmanna og efnahagslegrar uppsveiflu var þverpólitísk sátt um hið glænýja fyrirkomulag gengisflots. En eins og flestir muna var klárinn aftur beislaður þegar gengið fór að gefa eftir. Sama tóbakið sem allir yfir fertugu muna glöggt eftir. Höft á fjármagnsflutninga, skilaskylda gjaldeyris, skömmtun ferðamannagjaldeyris, opinberar nefndir sem ákveða hver fær gjaldeyri og þar fram eftir götunum.
Mikilvægasti lærdómur gjaldeyrissögu landsins síðustu níutíu ár er að stöðugleiki í gjaldeyrismálum og heilbrigði krónunnar mun alltaf vera lykilrökstuðningur stjórnmálamanna fyrir frelsisskerðingu, skömmtun og hömlum á utanríkisverslun íbúum landsins til mikils ama.
Skuggalegt er nú að horfa upp á fjölda vel meinandi sérfræðinga endurtaka gömlu hagstjórnarmistökin og veita þeim vistarböndum og eignaupptöku gjaldeyris sem í höftunum felast óbeinan stuðning með vangaveltum um tæknilegar útfærslur miðstýringar í gjaldmiðlamálum og akademískum spurningum á borð við hvort krónan hafi reynst vel eða illa, hvort taka eigi af henni núll, hvort vextir yrðu hærri eða lægri með annarri mynt, hvort krónan eigi að vera föst eða fljótandi og þar fram eftir götunum. Í grunninn byggjast slíkar vangaveltur á því að það sé stjórnmálamanna að ákveða hvort samlandar þeirra njóti viðskiptafrelsis. Alltof margir sem láta sig þessi mikilvægu mál varða virðast horfa blákalt framhjá aðalatriði málsins sem er einfaldlega að engum er stætt á því að ráðskast með hvaða gjaldmiðil eða andlag aðrir nota í sínum viðskiptum.
Erfitt er að sjá hvernig við Íslendingar eigum að geta brotist úr höftum og sótt okkur þann sjálfsagða rétt að eiga frjáls viðskipti í öðrum myntum án þess að stjórnvöld afsali sér ægivaldi sínu í eitt skipti fyrir öll með því að skipta krónunni út fyrir gjaldeyri sem gjaldgengur er erlendis. Ótækt er að slíkir kostir séu slegnir hugsunarlaust út af borðinu þó þeir kunni í fyrstu að virðast framandi þeim sem alist hafa upp við krónuna.
Enginn má þó standa í þeirri trú að öll vandamál leysist við það að krónunni verði lagt og íbúum landsins verði veitt myntfrelsi. Eftir sem áður mun á heildina litið kaupmáttur flestra landsmanna sveiflast með afkomu frekar einhæfra útflutningsatvinnuvega. Launakjör yrðu því eflaust að vera sveigjanlegri en nú því ekki væri lengur hægt að færa kaupmátt nær efnahagslegum veruleika með gengisfellingum og verðbólgu t.a.m. á tímum aflabrests og harðinda. Án íslenskrar ríkismyntar verður jafnvel enn mikilvægara en áður að haga opinberum fjármálum á skikkanlegan hátt og ekki verður lengur tækt að lofa einkabönkum endalausri lánafyrirgreiðslu. Öllum þeim sem annt er um velgengni þjóðarinnar ætti að þykja það hið besta mál.
Höfundur er sjóðsstjóri.
- Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2013.