FréttirUm eignarhaldið á Landsvirkjun

25.1.2013 Skoðun

Dr. Ásgeir Jónsson efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við HÍ um áhrif þess að skrá Landsvirkjun á hlutabréfamarkað og sölu á 30% hlut í fyrirtækinu.

Um eignarhaldið á Landsvirkjun

Landsvirkjun er nú alfarið í eigu ríkisins og jafnframt eru allar skuldir fyrirtækisins með ríkisábyrgð. Þá er stjórn fyrirtækisins skipuð af stjórnmálaflokkum landsins. Færa má sterk rök fyrir því að þetta fyrirkomulag geti ekki staðið til langframa miðað við eðli og áhættu þess rekstrar sem  fyrirtækið stundar. Vorið 2011 var sá sem hér ritar meðhöfundur í skýrslu sem fjármálafyrirtækið GAMMA ritaði fyrir stjórnendur Landsvirkjunar er bar heitið „Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035“. Í þeirri skýrslu voru settar fram hugmyndir um að landsmenn eigi að fara að dæmi Norðmanna sem hafa skráð þjóðarolíufélag sitt „Statoil“ á hlutabréfamarkaði með þeim hætti að ríkið heldur eftir 70% hluta í félaginu en hin 30% ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.

Fyrir þessari breytingu hníga margvísleg rök sem farið er yfir hér að neðan. Mikilvægt er þó að hafa í huga að einstakar ákvarðanir um friðlýsingu svæða eru ekki teknar af Landsvirkjun heldur heyra undir Alþingi með sk. Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Spurningin um eignarhald Landsvirkjunar snýr því ekki að náttúruvernd heldur fyrst og fremst um hagkvæma nýtingu þeirra auðlinda sem fyrirtækið hefur fengið leyfi Alþingis til þess að virkja.  

Skráning Landsvirkjunar á hlutabréfamarkað og útboð á 30% hlutafjár fyrirtækisins gæti skilað fimmföldum ávinningi að íhugun þess sem hér ritar.

A) Skráning félagsins gerir það að verkum að íslenskir skattgreiðendur mnu ekki bera ábyrgð á framtíðarskuldum félagsins (ekki er hægt að breyta ríkisábyrgð þeirra lána sem þegar hafa verið tekin án samþykkis kröfuhafa). Nú er ábyrgð ríkisins vegna skulda Landsvirkjunar, sem eru að mestu í erlendri mynt, um 340 milljarðar á gengi dagsins í dag.

B) Um leið og ábyrgð skattgreiðenda fer af nýjum skuldum Landsvirkjunar hlýtur sú gagnrýni að hljóðna að fyrirtækið nýti ríkisábyrgð til þess að niðurgreiða virkjunarframkvæmdir. Ákvörðunartaka stjórnenda fyrirtækisins mun þá byggja á réttum fórnarkostnaði fjármagns miðað við þá áhættu sem lagt er út í.

C) Skráning á hlutabréfamarkað opnar á þann möguleika að Landsvirkjun geti aflað sér aukins hlutafjár með hlutafjárútboði  sem nýta má í fjárfestingar og/eða hækkað eiginfjárhlutfall sitt (sem er nú of lágt að mati lánshæfisfyrirtækja).  

D) Með því að halda eftir 70% af eignarhaldi fyrirtækisins er tryggt að landsmenn munu njóta bróðurpartsins af þeim arði sem gæti skapast vegna nýtingar á fallvötnum landsins en samt sloppið við að taka beina ábyrgð á skuldum Landsvirkjunar. Ef Landsvirkjun nær að þoka orkuverði sínu upp til samræmis við þær hækkanir sem orðið hafa á orkuverði erlendis (þannig að bilið á milli raforkuverðs hérlendis og erlendis haldist stöðugt) gæti þessi renta skapast og verið greidd út sem arður.

E) Með skráningu Landsvirkjunar skapast meiri fjarlægð á milli pólitískra kjördæma- og atvinnugreinahagsmuna og reksturs fyrirtækisins. Um hættuna af pólitískum hagsmunaárekstrum við stjórn orkufyrirtækja hefur margt verið ritað – nú síðast í rannsóknarskýrslu um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur.  

Burtséð frá ofangreindum atriðum myndi skráning á 30% hlut sem gæti verið jafnvel 100 milljarðar að markaðsvirði óneitanlega styrkja íslenskan hlutabréfamarkað verulega.  Hér er gert ráð fyrir því að skráning fyrirtækisins verði með þeim hætti að boðið verði út nýtt hlutafé, en einnig má sjá það fyrir sér að ríkið afli sér fjármagns til niðurgreiðslu skulda með sölu á núverandi hlutafé.

Enginn má gleyma því að framleiðsla og sala raforku er ekki áhættulaus rekstur.  Með versnandi skuldastöðu ríkissjóðs og/eða vexti Landsvirkjunar gæti ábyrgðin farið að skipta verulegu máli fyrir lánshæfi landsins. Skráning Landsvirkjunar gæti þannig stuðlað að hærra lánshæfi ríkisins auk þess minnkað áhættu þjóðarinnar af orkusölu. Íslenska ríkið hefur einnig aðrar ábyrgðir til þess að hafa áhyggjur af. Hér má telja 950 milljarða ábyrgð vegna skulda Íbúðalánasjóðs og tæplega 400 milljarða ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum opinberra starfsmanna. Það ætti því að vera höfuðverkefni íslenskra stjórnmála að losa þjóðina undan ábyrgð af skuldbindingum sem samanlagðar eru virði einnar landsframleiðslu.

Á síðustu misserum hefur myndast nokkur samhljómur í umræðu hérlendis að taka Norðurlöndin til fyrirmyndar í bæði velferðarmálum og efnahagsstjórn. Og er það vel. Norðurlöndin hafa náð miklum árangri á síðustu árum í því að sameina bæði kosti frjálsra markaða og almennrar velferðar.  Hins vegar skiptir verulegu máli að hið Norræna fordæmi sé miðað við breytni þeirra nú fremur en hvernig en hvernig þessi lönd voru rekin fyrir nokkrum áratugum síðan.

Eitt það helsta sem skilur nú á milli Íslands og frændþjóðanna er að þeim hefur heppnast að ná sátt um auðlindir sínar sem hvoru tveggja byggir á hagrænni skynsemi og sjálfbærri nýtingu. Í þessu efni eru landsmenn töluvert langt eftir frændgarði sínum fyrir austan haf.

Ásgeir Jónsson er doktor í hagfræði.

- Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu.

Senda grein