Fréttir



Fara þjóðfrelsi og viðskiptafrelsi ekki saman hjá Íslendingum?

27.12.2012 Skoðun

Dr. Ásgeir Jónsson efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands ritaði grein í áramótaútgáfu Vísbendingar þar sem hann veltir upp þeirri spurningu hvort að íslenska krónan hafi verið meginorsök haftastefnu á Íslandi í gegnum tíðina.

Fara þjóðfrelsi og viðskiptafrelsi ekki saman hjá Íslendingum?

Einni stundu fyrir hádegi, föstudaginn 15. apríl árið 1904, var öllum verslunum lokað í Reykjavík og gefið frí skólum. En á hádegi söfnuðust verslunarmenn bæjarins saman á Lækjartorgi. Það gengu svo 150-200 manns fylktu liði í “skrautgöngu” undir lúðrablæstri til kirkjugarðsins við Suðurgötu samkvæmt frásögn blaðsins Ísafoldar. Veðrið var bjart og fagurt og íslenski fáninn og hinn danski voru bornir fyrir fylkingunni en einnig blöktu fánar við hún á öllum verslunum bæjarins. Þegar til kirkjugarðs var komið var lagður blómsveigur að leiði Jóns Sigurðssonar og Björn Jónsson ritstjóri Ísafoldar hélt ræðu. Blað ritstjórans fullyrti að þar í kirkjugarðinum hefði mannfjöldi samankominn er nema mundi mörgum þúsundum. Síðan spilaði “lúðraþeytaraflokkurinn” Ó Guðs vors lands og viðstaddir tóku ofan til þess að votta Jóni forseta virðingu sína. Og svo sneri skrúðgangan aftur við með lúðrablæstri til Lækjartorgs.

Tilefni skrúðgöngunnar var hálfraraldar afmæli verslunarfrelsis, en þann fimmtánda apríl 1854 höfðu síðustu leifar dönsku verslunareinokunarinnar verið afnumdar með undirritun konungs á fríverslunarlögum fyrir Ísland í „höllu Vorri við Friðriksborg“. Hátíðarhöldunum var síðan framhaldið um kvöldið á milli sex og tíu á samkomum víðs vegar um bæinn. Verslunarmenn sátu til borðs í Iðnó, sem þá var stærsti salur bæjarins en verslunarkonur á Sigríðarstöðum. Aftur á móti sátu skólapiltar í Bárubúð og stúdentafélagið á hótel Reykjavík. Á þessum samsætum voru ekki aðeins fluttar ræður heldur var frelsið einnig lofsungið með sérstökum “Verzlunarfrelsis-ljóðum” sem Jón Ólafsson, ritstjóri og Alaskafari hafði samið í tilefni dagsins. Kvæðabálkurinn “Verzlunarfrelsis-ljóð” taldi nítján erindi og hljóða tvö af síðustu erindinum svo:

Og verzlunar-frelsið bar ávöxt hér ótt
og eldgömlu deyfðina kyrkti,
það þjóðlíf vort glæddi, og frelsisþrá fljótt
til frekari baráttu styrkti.

Lifi verzlunar-frelsið sem vegurinn beinn
til að oss verði brauð úr steinum!
Lifi verzlunar-frelsið sem fóturinn einn
undir frelsinu í öllum greinum

Það var vel við hæfi að minnast Jóns Sigurðssonar á hálfrar aldar afmæli verslunarfrelsis. Hann hefði rétt eins getað gengið inn í salinn þetta aprílkvöld og sagt. “Sjáið, ég sagði ykkur þetta!” Jón hafði sett fríverslun á oddinn strax þegar hann hóf fyrst þátttöku í stjórnmálum. Hann var aðal hvatamaðurinn að því að Alþingi sendi bænakrá til kóngsins um verslunarfrelsi frá fyrsta þingfundi sínum 1845 og síðan hvert þing eftir það þar til honum heppnaðist í samvinnu við danska þingmenn að fá fríverslun samþykkta á danska þinginu haustið 1853. Það var þó ekki aðeins það. Jón hafði einnig sett fríverslun sem hugmyndafræðilega þungamiðju í sjálfstæðisbaráttunni sem forsendu fyrir sjálfstæði. Árið 1843 ritaði hann grein er bar heitið „Um verslun á Íslandi“ sem birtist í þriðja árgangi Nýrra Félagsrita. Þetta var byltingarkennd ritsmíð þar sem Jón beitti breskri klassískri hagfræði, í anda þeirra Adam Smith og David Ricardo, til þess að greina þróun Íslandssögunnar. Í fyrsta skipti voru utanríkisviðskiptin gerð að hreyfiafli sögunnar og deyfð landsins og vesaldómur rakinn til verslunareinokunar dana. Þetta er án efa ein áhrifamesta tímaritsgrein sem rituð hefur verið á íslensku þar sem hún markar nýja stjórnmálastefnu fyrir Ísland þar sem höfuðáherslan er á viðskiptafrelsi.

Stefnuna áréttaði Jón síðan aftur í Lítilli varningsbók sem var gefin út árið 1861. Þar segir hann í formála að verslunarfjötrarnir hafi orðið til þess að landsmenn „hafa misst traustið á sjálfan sér, sem öllum er nauðsynlegt, og með því samheldið og viljann til að hjálpa sér sjálfir; þeir hafa misst hinn alþjóðlega vilja til allra framkvæmda, og orðið kotungar ...“ [1] Þá sýndi hann með nákvæmum tölulegum rökum að á sex ára fríverslunartíma hafi utanríkisverslun landsins fjórfaldast og helstu útflutningsvörur landsins hækkað í verði og jafnvel tvöfaldast í sumum tilvikum. Það gefur honum tilefni til þess að álykta: „Með því að nota þetta frjálsræði, sem vér nú höfum áunnið, getum vér áunnið þá framför í efnahag og öllum framkvæmdum sem geta opnað oss veg til alls þess sjálfsforræðis fyrir málefnum vorum er vér þurfum að hafa og sem enginn mun neita oss um eða geta neitað oss um, þegar vér sýnum í verkinu að vér séum færir fyrir því.“ Þessi frelsisformúla Jóns var aðalefni skálaræðanna er fluttar þetta kvöld í apríl 1904. Raunar er ræða Björns Jónssonar sem flutt var yfir samsæti verslunarmanna að stórum hluta úrdráttur á grein Jóns Um verzlun á Íslandi.

Með fullveldi var frelsið á enda

Hátíðarhöldin fimmtánda apríl 1904 voru í raun sigurhátíð. En fyrr veturinn höfðu Íslendingar fengið framkvæmdavaldið heim með fyrsta ráðherranum og stuttu síðar hafði Íslandsbanki opnað dyr sínar fyrir viðskiptum. Ísland var á hraðri leið í alþjóðahagkerfið og rétt handan við hornið voru togarar og þéttbýlismyndun. Frelsi og nær stöðugar efnahagslegar framfarir fleyttu Íslandi síðan á fjórtán árum til fullveldis 1918, en þá kom babb í bátinn. Svo virðist sem landsmenn hafi verið óviðbúnir efnahagslegu sjálfstæði þar sem enginn rammi var fyrir hendi til þess að reka hagstjórn á nýju myntsvæði með eigin gjaldmiðil. Enginn sjálfstæður seðlabanki var til staðar og enginn gjaldeyrisforði og engar samræmdar aðgerðir í því að halda stöðugleika í hagkerfinu. Gríðarleg þensla og verðbólga var á Íslandi í fyrra stríði sem hefndi sín brátt með gengisfalli krónunnar árið 1920 þegar alþjóðleg kreppa reið yfir í stríðslok. Íslenskir ráðamenn hrukku allt í einu upp við vondan draum þegar tékkar Landssjóðs fengust ekki innleystir í Kaupmannahöfn. En kreppan leystist með ensku láni á afarkjörum og hækkandi fisverði. En þrátt fyrir miklar umræður á Alþingi var umgjörð fyrir sjálfstæða hagstjórn ekki búin til á millistríðsárunum. Viðnámið var því ekkert þegar næsta áfall reið yfir með Kreppunni miklu. Hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi hérlendis leið svo endanlega undir lok eftir gjaldþrota Íslandsbanka árið 1930 og svo setningu fjármagnshafta ári síðar að kröfu Landsbankans, sem þjónaði sem Seðlabanki meðfram því að vera viðskiptabanki. Beiðni bankans kom til af því að gjaldeyrisforði landsins var uppurinn.

Íslandsbanki var eigu erlendra fjárfesta og skráður í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn og með honum gengnum hvarf öll erlend fjárfesting til Íslands. Fjármagnshöftin leystu þó aðeins gjaldeyrisvandræðin tímabundið. Brátt skutu ný gjaldeyrisvandræði upp kollinum sem voru þá leyst með innflutningshöftum sem reyrðust þéttar og þéttar að íslensku efnahagslífi með langri röð tímabundinna aðgerða til þess að spara gjaldeyri. Við lok heimsstyrjaldarinnar síðari var Ísland ein ríkasta þjóð Evrópu en gat þó ekki flutt inn í ávexti nema fyrir jólin! Þessi staða hefði verið gott efni í eina rökfasta grein frá Jóni forseta þar sem hann hefði rakið þversagnir haftakerfisins og blindingsleik íslenskra stjórnmála með álíka hætti og hann gekk til verks gegn einokunarstefnu danskra stjórnvalda í verslun á Íslandi á nítjándu öld. Því að um algerlega hliðstæð málsefni var að ræða.

Jón Sigurðsson eignaðist þó aftur sína sporgöngumenn er leið á tuttugustu öld. Alþjóðavæðingin sneri aftur til Íslands eftir 1960 en það varð þó ekki fyrr en árið 1993 að landið var raunverulega opnað á ný þegar fjármagnsviðskipti á milli landa urðu frjáls samfara inngöngu landsins í evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar var skammt að bíða næstu kollsteypu, bankahruns og fjármagnshafta, sem reið yfir þjóðina árið 2008. Sú óþægilega hugsun hlýtur því að leita upp í hugann að sagan hafi endurtekið sig og hin frjálslynda hugmyndafræði hafi aftur siglt í strand. Sú spurning hlýtur að vakna hvort eftirleikurinn verði sá sami og hvort dyrum verði aftur lokað á umheiminn. Það er nefnilega svo með Íslendinga, eins og Jón nefnir í grein sinni „Um verslun á Íslandi“, að „mörgum hættir við að taka Ísland eitt sér í allri veröldinni og vilja neita að reynsla annarra landa eigi þar við“.

Alþjóðavæðing hin fyrri

Í grein sinni um verzlun frá árinu 1843, sem áður er vitnað til, sýnir Jón forseti fram á að Danmörk var ekki náttúrulegt viðskiptaland fyrir Ísland. Báðar þjóðir voru bændaþjóðir, matvælaútflytjendur sem fluttu inn iðnvarning á móti. Danir áttu líkt og Íslendingar eftir að komast til bjargálna með því að flytja út mat; hin danska leið var að flytja flesk og smjör. Danir þurftu því ekki á íslenskum framleiðsluvörum að halda nema til þess að endurselja til annarra þjóða sunnar í álfunni. Þeir höfðu ekki margt að bjóða Íslendingum af iðnvarningi nema það sem þeir höfðu sjálfir keypt af Þjóðverjum og endurseldu hingað til lands. Þeir voru því í raun óþarfir milliliðir fyrir íslenska verslun. Frjáls heimsviðskipti hlutu því að færa þessar þjóðir í sundur í viðskiptalegu tilliti. Þannig var sjálfstæðiskrafa gagnvart Dönum ekki aðeins spurning um þjóðerni heldur bein nauðsyn til þess að bæta viðskiptakjör landsins að áliti Jóns. Það varð líka að efndum.

Íslendingar sigldu inn í sjálfstæði og efnalega velsæld með beggja skauta byr frá frjálsum heimsviðskiptum. Tímabilið frá 1860–1914 er yfirleitt nefnt alþjóðavæðing hin fyrri, þegar viðskipti með vörur og fjármagn voru frjáls um nær allan heim og um 90% heimsbúa tóku þátt í myntsamstarfi sem byggt var á gulltryggingu. Samhliða viðskiptafrelsi uxu utanríkisviðskipti hröðum skrefum í kjölfar framfara í samgöngum (járnbrautum og gufuskipum) og fjarskiptum (ritsíma og samræmdum póstsendingum). Á þessum tíma var viðskiptaumhverfið á Íslandi algerlega opið fyrir erlendum viðskiptum og fjárfestingum sem hluti af danska ríkinu.

Hins vegar voru aðrir kraftar byrjaðir að færa löndin aftur saman í efnahagslegu tilliti í upphafi tuttugustu aldar þegar danskir fjárfestar fóru að fá áhuga á Íslandi. Ísland þurfti ekki aðeins verslun heldur einnig fjárfestingu. Þá töf sem varð á iðnvæðingu Íslands má líklega að mestu rekja til þess hve Danir sjálfur voru seinir til að iðnvæðast. Það var ekki fyrr en undir lok nítjándu aldar sem danskt fjármála- og efnahagslíf var orðið nægjanlega þroskað til þess að færa út kvíarnar til Íslands. Staðreyndin er því sú grunnurinn að íslenskt atvinnulífi var lagður með erlendu áhættufjármagni og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var stór hluti íslenskra fyrirtækja í hinum aðskiljanlegustu greinum í eigu erlendra aðila. Að vísu getur leikið á tvennu hver teljist vera útlendingur og hver ekki. Ísland var þrátt fyrir allt hluti af Danmörku og því heimamarkaður þeirra.

Í lítilli varningsbók varaði Jón einnig sterklega við því að nokkrar hömlur séu settar á verslunina að frumkvæði landsmanna sjálfra og nefnir þar sérstaklega til sögunnar hugmyndir um að banna þeim kaupmönnum að versla hérlendis sem ekki eigi lögheimili á Íslandi. En slíkar hugmyndir flögruðu töluvert um á Alþingi á síðari hluta nítjándu aldar. Það var því kannski ekki að ófyrirsynju að Thomsens Magasin birti stóra auglýsingu í blöðum í tengslum við verslunarfrelsis-afmælið árið 1904 með feitletruðum stöfum “Thomsens verzlun er innlend, ágóðinn verður kyr í landinu.” Var síðan talið hvað verslunin hafði greitt í laun, viðhald og svo framvegis.

Hugmyndafræði hafta

Það hefur stundum verið haft á orði að trúin á frelsi og framfarir hafi liðið undir lok í skotgröfum fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar Vesturveldin beindu öllum sínum mætti og tækni að því að murka lífið úr æskublóma þjóðanna – án þess að barist væri fyrir hugsjónum. Víst er að heimur alþjóðavæðingar hinnar fyrri hrundi eftir að styrjöld braust út árið 1914. Bretar höfðu upphaflega verið helstu verndarar heimsviðskipta, bæði hvað varðaði hugmyndafræði en einnig í því að leiða efnahagssamvinnu á alþjóðavísu. Þeir glötuðu þó forystu sinni er leið á tuttugustu öld. Þegar veruleg efnahagsvandræði steðjuðu síðan að eftir verðfall á hlutabréfamarkaði á Wall Street 1929, skorti tilfinnanlega samhæfingu á alþjóðavettvangi til þess að bregðast við vandanum. Bandaríkjamenn voru eina þjóðin sem hefði getað tekið við forystu af Bretum en þeir drógu sig inn í skelina. Þegar kreppan herti tökin þar vestra var landamærunum lokað með tollum og önnur lönd svöruðu í sömu mynt. Alþjóðaviðskipti drógust gríðarhratt saman á skömmum tíma er tollamúrar risu á milli landa. Allt í einu snerist rás tímans við og einangrunarhyggja varð allsráðandi.

Í kreppunni voru utanríkisviðskipti fest niður við tvíhliða jafnkeypissamninga á milli landa er komu ákaflega illa við Íslendinga sem fluttu út fisk til Suðurlanda en keyptu iðnvarning af norðlægari slóðum. Hægt er að halda því fram að heimurinn hafi þá lokast Íslendingum en andstaðan hérlendis gegn viðskiptafrelsi var hins mun harðari og einarðari en hjá til mynda frændþjóðum á Norðurlöndum. Hvað var það sem sneri hugum Íslendinga frá viðskiptafrelsi og alþjóðahyggju í efnahagsmálum umfram það sem gerðist í öðrum vestrænum löndum?

Að hluta til má rekja þetta til minnihmáttarkenndar átjándu aldar, forpokunarinnar og kotungsháttarins sem Jón amaðist stöðugt við um sína daga en hefur ávallt gengið í endurnýjun lífdaga með hverri kynslóð. Hún birtist þá gjarnan sem hagsmunagæsla, verndarstefna, þjóðremba, lýðskrum eða eitthvert það afbrigði af hugmyndafræði sem hampar jafnrétti og bræðralagi í því skyni að réttlæta frelsissviptingu til athafna. Þeim sem hér ritar býður í grun að hnúar Jóns forseta hefðu hvítnað hefði hann mátt hlýða á margar þær ræður sem voru fluttar honum til heiðurs en gegn hugmyndafræði hans á 200 ára afmælinu árið 2011. Þegar kom fram á tuttugustu öld varð æ ljósara að alþjóðavæðingin leiddi til margvíslegra þjóðfélagsbreytinga sem lögðust illa í landsmenn. Þar mætti nefna þéttbýlismyndun, byggðaröskun og fleiri sviptingar sem fylgdu breyttum atvinnuháttum.

Í bók sinni Iðnbylting hugarfarsins heldur Ólafur Ásgeirsson sagnfræðingur því fram með góðum rökum að deilur um byggðamál fremur en stéttabaráttu hafi verið helsta hreyfiaflið í stjórnmálaátökum tuttugustu aldar. Árangur Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttunni fólst í því að gera íslenska bændur að fríverslunarsinnum og um leið að sjálfstæðissinnum. Með hæfilegri einföldun má líta svo á að íslensk bændastétt undir forystu Jóns forseta hafi gert uppreisn gegn forpokaðri og dansklundaðri embættismannastétt en með viðskiptafrelsi að markmiði. Aftur er með hæfilegri einföldun hægt að halda því fram að önnur „bændauppreisn“ hafi orðið undir forystu Jónasar Jónssonar frá Hriflu gegn dansklundaðri embættismannastétt í Reykjavík en í það sinn gegn fríverslun.

Þetta er þó líklega aðeins hluti af sögunni. Engum blöðum er um það að fletta að þeir Jónas frá Hriflu og Jón forseti voru algerlega á öndverðum meið í efnahagsmálum þó að báðir hafi þeir sótt fylgi til sama þjóðfélagshóps, íslenskra bænda, hverra afstaða til fríverslunar hefur án efa ráðist af samkeppnisstöðu þeirra sjálfra á alþjóðavettvangi. Minning Jónasar lifir í núverandi landbúnaðarstefnu sem enn skýlir býlum landsins fyrir alþjóðlegri samkeppni, en sá vandi Íslands að reka opið markaðshagkerfi á sér þó dýpri rætur.

Íslenska krónan – Akkilesarhæll fullveldis?

Líklega hafa fáar vestrænar þjóðir snúist jafn hratt og afdráttarlaust gegn markaðsbúskap og Íslendingar, með höftum og bönnum eftir að fullveldi var fengið, og átt í jafn miklum brösum síðan við að reka opið markaðshagkerfi á eigin ábyrgð, þó að slíkt sé vel þekkt í þriðja heiminum. Það hlýtur að teljast umhugsunarefni af hverju hin frjálslynda lína Jóns í efnahagsmálum varð svo endaslepp á sjálfstæðu Íslandi. Sá sem þetta ritar vill rekja það til þeirrar hörðu glímu sem Ísland hefur háð við að varðveita stöðugleika í efnahagslífi samhliða því að halda landinu opnu gagnvart umheiminum. Í þessari glímu hafa landsmenn mjög farið halloka og viðbrögðin hafa gjarnan verið þau að draga sig út úr alþjóðasamfélaginu til þess að tryggja stöðugleika.

Stóran hluta af þessum óstöðugleika má rekja til íslensku krónunnar sem varð að sjálfstæðum gjaldmiðli við stofnun fullveldis árið 1918 og það á sama tíma og alþjóðlegt myntstarf um gullfót steytti á skerjum. Þannig hófst saga gjaldeyrisvandræða og verðbólgu sem staðið hefur óslitin fram á okkar daga. Þessi óstöðugleiki sést vel á þeirri staðreynd að við fullveldi var íslenska krónan jafngild þeirri dönsku en nú þarf 2000 íslenskar krónur (ef myntbreytingin 1980 er tekin með í reikninginn) til þess að kaupa eina danska. Íslendingar voru því aldeilis óviðbúnir að reka eigin mynt og stunda sjálfstæða efnahagsstjórn þegar til átti að taka, nýr grundvöllur að peningamálastjórn í sjálfstæðu myntkerfi var aldrei lagður og árangurinn er eftir því. Sá rauði þráður gengur í gegnum sögu landsins eftir fullveldi að sveiflur í gengi krónunnar hafa truflað utanríkisviðskipti og valdið því að útflutningur er ýmist rekinn með ofsagróða eða miklu tapi. Öllu afdrifaríkara er þó að vandræði í gjaldeyrismarkaði hafa oftlega kallað fram haftaaðgerðir af ýmsum toga og ýtt undir einangrunarhyggju.

Sú spurning hlýtur að vakna hvort Ísland sé of lítið efnahagssvæði til þess að gefa út sína eigin mynt, og sem best má sjá Jón forseta fyrir sér þar sem hann tekur það mál fyrir í stíl Nýrra félagsrita og leiða til þeirrar óhrekjanlegu niðurstöðu að alþjóðleg myntsamvinna henti landsmönnum mun betur en sjálfstæð mynt. Í huga hinna klassísku hagfræðinga, sem Jón sótti sína þekkingu til, hafði sjálfstæði í peningamálum takmarkaða þýðingu og átti alls ekki að misnota með því að gengisfella gjaldmiðla. Mestu máli skipti að peningar héldu föstu verðgildi, að þeir trufluðu ekki viðskipti og að verðbólga yrði ekki til að færa peninga ú einum vasa í annan. Ísland tók upp gulltryggingu árið 1873 sem hluti af danska myntkerfinu og varð síðan hluti af Norræna myntbandalaginu tveimur árum síðar. Hvorki Jón Sigurðsson né nokkur annar af leiðtogum sjálfstæðisbaráttunnar leit á sjálfstæða mynt og/eða sjálfstæða peningamálastjórnun sem fullveldismarkmið í sjálfu sér.

Ekki verður annað séð en landsmenn hafi verið ákaflega sáttir við aðild sína að þessu myntbandalagi og hafi ætlað sér að vera þar áfram sem fullvalda þjóð. Jafnvel má álíta að andvaraleysi þeirra í peningamálum eftir fullveldi megi rekja til þess að þeir hafi tekið myntbandalagið sem gefið. En hið Skandinavíska myntbandalag leystist upp eftir stríðið 1918 og uppbrot þess skildu landsmenn eftir vegalausa í myntmálum. Og veglausir eru þeir enn.

- Greinin birtist í jólablaði Vísbendingar 2012.

Senda grein