FréttirGAMMA veitti Verðlaun Skúla Fógeta í dag

12.12.2012 Samfélagsmál

Í tilefni af 300 ára afmæli Skúla Magnússonar Fógeta þann 11. desember 2011 ákvað GAMMA að stofna til sérstakra verðlauna fyrir bestu meistararitgerð á sviði fjármála og efnahagsmála við íslenskan háskóla. Verðlaunin árið 2012 hlýtur Vilhjálmur Hilmarsson fyrir meistararitgerð í hagfræði.

Í tilefni af 300 ára afmæli Skúla Magnússonar Fógeta þann 11. desember 2011 ákvað GAMMA að stofna til sérstakra verðlauna fyrir bestu meistararitgerð á sviði fjármála og efnahagsmála við íslenskan háskóla. Verðlaunin voru veitt í annað sinn í dag.

Fjölmargar vandaðar og góðar ritgerðir bárust í ritgerðarsamkeppnina að þessu sinni. Niðurstaða dómnefndar undir forystu Dr. Ásgeirs Jónssonar var að verðlaunin 2012 hljóti Vilhjálmur Hilmarsson fyrir meistararitgerð í hagfræði sem nefnist: Innleiðing arðsemislíkansins ,,TERESA“ – þjóðhagsleg arðsemi samgönguframkvæmda – Leiðbendandi Vilhjálms við ritgerðina var Dr. Sveinn Agnarsson.

-----------------------

Nánar um ritgerðina

Ritgerð Vilhjálms nefnist:  Innleiðing arðsemislíkansins ,,TERESA“ – þjóðhagsleg arðsemi samgönguframkvæmda –

Þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingar í samgöngumannvirkjum skiptir miklu máli að meta kostnað og ábata í réttu félagslegu- og hagrænu samhengi. Vitaskuld eru margar framkvæmdir jákvæðar fyrir samfélagið en framlög ríkisins eru takmörkuð og því skiptir máli að forgangsraða framkvæmdum eftir þjóðhagslegri arðsemi þeirra. Slíkt mat getur oft verið mjög vandasamt þar sem ábatinn dreifist víða  eða kemur fram með þeim hætti sem erfitt er að meta til verðs, s.s. með fækkun slysa. Einnig er nauðsyn að meta fórnarkostnað þeirra framleiðsluþátta sem renna til framkvæmdarinnar og velferðaráhrif þeirrar skattheimtu sem hlýtur að standa undir henni. Fyrir ríkið skiptir einnig máli hvaða áhrif framkvæmdin muni hafa á framtíðarskatttekjur.

Á hinum Norðurlöndunum er komin löng hefð fyrir því að opinberar stofnanir beiti kerfisbundið kostnaðar-/ábatagreiningu við að meta arðsemi og forgangsraða samgönguverkefnum. Forgangsröðunin á sér bæði stað milli mismunandi málaflokka/ferðamáta og innan tiltekins málaflokks. Danska samgönguráðuneytið hefur um árabil staðið fyrir þróun og innleiðslu arðsemislíkans sem byggt er á félagshagfræðilegum grunni og aðferðarfræði kostnaðar-/ábatagreiningar [TERESA] til að forgangsraða samgöngufjárfestingum.

Arðsemislíkanið TERESA reiknar ábata- og kostnaðarliði verkefnis sem fjármagnað er af hinu opinbera.

Meðal ábataliða má nefna sparnað samfélagsins vegna styttri vegalengda og tímasparnaðar ásamt sparnaði samfélagsins vegna breytinga í ytri áhrifum: fækkunar slysa sem og minnkunar í hávaðamengun, loftmengun o.fl. Í kostnaðarliðum felst stofnkostnaður verkefnis, rekstrarkostnaður, velferðaráhrif skattheimtu og útgjaldaáhrif á hið opinbera í formi breytinga í skatttekjum vegna samgöngumannvirkis. Allir ábata- og kostnaðarliðir eru gerðir upp í markaðsverðum út frá sjónarhorni skattgreiðenda til að brúa það ósamræmi sem felst í því verðlagi sem hið opinbera/fyrirtæki og skattgreiðendur standa frammi fyrir.

 Verðlaunaritgerð Vilhjálms setur einmitt TERESU aðferðafræðina í íslenskt samhengi bæði með því að setja upp íslenskt gagnasafn og stika til þess að geta framkvæmt kostnaðar- og ábatamat er getur þjónað sem viðmið til forgangsröðunar hér á landi. Verður það að teljast mjög mikilvægt framlag til íslenskra samgöngumála sem gæti skilað töluverðum ábata í framtíðinni með skilvirkari ákvarðanatöku.

Vilhjálmur beitir síðan TERESU aðferðafræðinni á fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng og ber matið saman við önnur möt sem gerð hafa verið á göngunum. Hann kemst að því þau hafa neikvætt núvirði sem nemur rúmum fjórum milljörðum. 

Um Skúla Fógeta

Skúli Magnússon landfógeti var athafnamaður og hugsjónamaður. Skúli stofnaði fyrsta íslenska hlutafélagið árið 1751 til þess að reka margvíslega iðnaðarstarfsemi hérlendis. Hlutafélagið hafði höfuðstöðvar í Reykjavík þar sem flest iðnfyrirtækin voru. Var þetta upphafið að þéttbýli þar sem síðar varð höfuðborg Íslands og hefur Skúli stundum verið nefndur faðir Reykjavíkur af þeim sökum. Hann var talnaglöggur með afbrigðum og góður fjármálamaður. Hann ritaði einnig margt um hagfræðileg málefni og vann margoft til verðlauna í Danmörku fyrir ritgerðarskrif sín. Hann reyndi fyrstur manna að meta þjóðarframleiðslu landsins svo eitthvað sé nefnt. Skúli reyndi nær einn síns liðs að innleiða nútíma atvinnuhætti hérlendis með misgóðum árangri en nafn hans ætti að vera stöðug áminning til landsins manna að sýna kjark og áræði í viðskiptum samhliða því að stunda rannsóknir í fjármálum  og efnahagsmálum.

Senda grein