Fréttir



Varasjóðir heimilanna rýrna

21.11.2012 Skoðun

Morgunblaðið fjallar um rýrnandi varasjóði heimilanna. Dr Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi hjá GAMMA telur það áhyggjuefni að fólk sem skuldar mikið leggi lítið fyrir.
Íslensk heimili áttu tæplega 901 milljarð í innlánum í janúar 2009 Áttu 604 milljarða í september. Úttektir á sparnaði hafa haldið uppi neyslustiginu. Ungt millistéttarfólk hefur lítið borð fyrir báru.

Auðvitað eru sumir í slæmri stöðu og skulda mikið og nota innlánin til þess að halda sér á floti og greiða niður lán. Einhver hluti hópsins notar innlán hins vegar til að fjármagna neyslu, segir Gústaf Steingrímsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, um samband rýrnandi innlána heimila og neyslu síðustu ára.

Eins og sýnt er á grafinu hér til hliðar rýrnaði innlánastaða heimila um 30 milljarða króna á tímabilinu frá janúar til september á þessu ári og er hún nú um 100 milljörðum króna minni en í janúar 2011.

Gústaf víkur að séreignasparnaði en í september námu úttektir af honum um 75 milljörðum frá mars 2009.

Það er athyglisvert að milli áranna 2009 og 2010 stendur einkaneyslan í stað en ráðstöfunartekjur heimilanna lækka um 15% en með þeim tekjum er úttekt á séreignasparnaði.

Það er líklegt að mismunurinn hafi verið fjármagnaður að hluta með úttekt innlána. Það er ljóst að vöxturinn frá hruni hefur að einhverju leyti verið fjármagnaður með tekjum sem er ekki hægt að gefa sér að verði til staðar til lengri tíma litið, eins og til dæmis úttekt á séreignasparnaði... Eftir hrunið jókst sparnaðarhneigð á ný en síðan hafa innlán aftur dregist saman, segir Gústaf.

Erfitt að greiða niður skuldir

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur hjá Gamma, telur það áhyggjuefni að fólk sem skuldar mikið leggi lítið fyrir.

Hin unga millistétt fór hlutfallslega illa út úr gengisfalli krónunnar, verðbólguskellinum 2008-2009 og þriðjungslækkun kaupmáttar sem fylgdi í kjölfarið, einkum barnafólk á þrítugs- og fertugsaldri sem hafði nýlega skuldsett sig vegna íbúðakaupa. Þessi aldurshópur þarf nú að reka stórt heimili með mun hærri tilkostnaði, standa straum af þyngri skuldabyrði og hefur auk þess farið fremur illa út úr þeim skattbreytingum sem hafa orðið frá 2008.

En hækkun jaðarskatta með nýjum tekjuþrepum hefur einmitt bitnað mjög illa á þeim hópum sem hafa ætlað að »vinna sig út úr skuldunum« með aukinni vinnu, eins og það er orðað. Ég held að það sé ákaflega erfitt fyrir marga í þessum hópi að láta enda ná saman miðað við þau lífskjör sem fólk hefur vanist.

Hin unga millistétt virðist hafa brugðist við lægri ráðstöfunartekjum með því að ganga á sparnað, s.s. með því að taka út viðbótarlífeyrissparnað á árunum 2009-2010 og mögulega nú með yfirdráttarlánum.

Reyna að halda sömu neyslu

Ásgeir segir það dæmigerð viðbrögð hjá fólki að reyna að viðhalda stöðugleika í neyslu yfir lengri tíma.

Í hagfræði er talað um kenninguna um varanlegar tekjur. Samkvæmt henni bregst fólk við tekjumissi sem það álítur tímabundinn með því að ganga á sparnað og heldur neyslu stöðugri. Svo virðist að mjög margir hafi tekið áfallinu 2008 sem tímabundnu. Úttektir úr séreignasparnaði auk hækkunar yfirdráttar vitna um það. Heimilin virðast síðan reyna að þybbast við að reka tvo bíla, svo dæmi sé tekið. Nú eru liðin 4 ár. Kaupmáttur hefur að vísu aftur byrjað að vaxa en það er samt töluvert langt í land að ná aftur sama stigi og var fyrir 2008 og eignastaða þessa unga fólks á enn lengra í land að ná bata, segir Ásgeir.

Senda grein