Fréttir



Heimilin taka vaxandi áhættu

21.11.2012 Skoðun

Morgunblaðið fjallar um vaxandi áhættu heimila. Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA segir að of mikil skuldsetning heimila leiði til þess að geta þeirra til að takast á við áföll minnkar.

Líkt og hjá fyrirtækjum leiðir of mikil skuldsetning heimila til þess að geta þeirra til að takast á við áföll minnkar. Það segir sig sjálft, segir Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Gamma. Tilefnið er grafið hér til hliðar en það sýnir þróun skulda heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Leiðir það í ljós að hlutfallið hefur tólffaldast síðan 1980, úr 20,6% í 242,4%. Ein skýring á efnahagshruninu 2008 er almenn gírun heimila og fyrirtækja [...] Sú þróun varð um allan heim að aðgangur að lánsfé varð greiðari en tíðkaðist fyrr á árum. Að einhverju leyti jókst peningamagnið í meðförum bankakerfisins. Tekið skal fram að í september 2003 var tekin upp sjálfvirk lánaflokkun skv. ÍSAT 95 staðli og hafði það m.a. þau áhrif að útlán lánakerfisins til sveitarfélaga og atvinnuvega hækkuðu, en lán til heimila lækkuðu.

Greiðslukortin koma

Tilkoma greiðslukorta gerði almenningi kleift að kaupa vörur og þjónustu fyrir lánsfé. Það hófst með því að Kreditkort hf. var stofnað árið 1980 en það var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem bauð upp á kreditkort.

Samkeppnisaðilinn, VISA Ísland, varð til árið 1983 en félagið var stofnað af 5 bönkum og 13 sparisjóðum. Það var svo rúmum áratug síðar sem bílalán komu til sögunnar, líkt og rakið er í greininni hér fyrir neðan, og juku aðgengi að lánsfé frekar.

Þá tók lánshlutfall á fasteignalánum að hækka á tíunda áratugnum en sú þróun náði hámarki með 100% fasteignalánum á bóluárunum. Verðtrygging var tekin upp á Íslandi árið 1979 og var vísitölutenging launa afnumin nokkrum árum síðar.

Eins og Valdimar nefnir hafa breytingar á vöxtum og verðbólga mikil áhrif á hag heimilanna enda er skuldsetningin mikil, sérstaklega hjá yngri heimilunum. Geta slíkar hækkanir því vegið á móti kaupmáttaraukningu í gegnum kjarasamninga með því að rýra eignastöðuna og hækka greiðslubyrði lána. En skyldu heimilin sýna orðið aukið aðhald?

Auka neysluna á nýjan leik

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, kveðst ekki sjá merki um að heimilin noti kortin minna en áður.

Við sjáum það ekki í notkun kortanna. Veltan hefur verið að aukast undanfarin tvö og hálft ár. Þannig að það er vöxtur. Um sumarið 2010 sáum við að fólk var aftur farið taka svonefnd þægindalán á sölustað og greiða fyrir sjónvörp, húsgögn og snjallsíma með afborgunum. Það eru jafnframt vísbendingar um að nokkur hluti þess hóps sem fékk niðurfærslu skulda vegna gengisdóma hafi skuldsett sig aftur. Það þyrfti að rannsaka hvað sá hópur er stór. Það er augljóslega mikill vilji hjá Íslendingum til að skuldsetja sig, segir Haukur um neyslumynstrið hér en eins og grafið hér fyrir ofan sýnir hefur skuldahlutfallið verið yfir 200% af ráðstöfunartekjum heimila síðan 2005 og yfir 100% síðan 1992.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, sér aðra þróun í Evrópu. Evrópsk heimili eru að lækka skuldahlutfall sitt. Það er gegnumgangandi þróun. Nefna mætti Bretland og fleiri lönd í Evrópu þar sem hlutfallið hefur farið lækkandi eftir að fjármálakreppan skall á. Skuldsetning heimila er því að ganga til baka eftir að hafa náð sögulegu hámarki. Almenningur er líka ef til vill búinn að átta sig á því að skuldsetningin væri komin út í óefni, hefði gengið of langt.

Það sem er líka að gerast í Evrópu er að kröfur um greiðslugetu af neytenda- og húsnæðislánum eru að aukast. Við það þrengir að aðgengi að fjármagni. Þetta er kannski ekki skollið á en viðbúið er að þetta gerist eftir tvö til þrjú ár, segir Sigurður.

Senda grein