Fréttir



Ný sannindi um íslenska ferðaþjónustu

28.8.2012 Skoðun

Því hefur verið slegið fram að að hingað til lands komi eyðslulitlir ferðamenn í auknum mæli. Þetta er túlkun á þeirri staðreynd að aukning gjaldeyristekna virðist ekki fylgja fjölgun ferðamanna að fullu eftir. Ef kafað er hins vegar ofan í málið kemur í ljós að tekjur af ferðmönnum hafa þróast með jákvæðu móti að undanförnu.

Ný sannindi um íslenska ferðaþjónustu

Því hefur verið slegið fram að að hingað til lands komi eyðslulitlir ferðamenn í meira mæli og að þeir hafi ekki úr nógu miklu að velja hérlendis. Þetta er túlkun á þeirri staðreynd að aukning gjaldeyristekna virðist ekki fylgja fjölgun ferðamanna að fullu eftir.  Það er freistandi að stytta sér leið og klárir kunna margar flýtileiðir en röksemdafærslan hér að ofan er í besta falli villandi. Ef kafað er ofan í málið kemur í ljós að tekjur af ferðmönnum hafa þróast með jákvæðu móti að undanförnu.

Hagur Íslands felst ekki í því að hámarka tekjur af hverjum ferðamanni, nær er að setja eyðslu í samhengi við dvalartíma. Þá er hægt að hámarka tekjur upp á hvern dag sem ferðamaður nýtur þess að vera hér. Gripið er til mælistikunnar “tekjur í evrum á hverja gistinótt” og sjá má þróun hennar á mynd 1. Þrátt fyrir töluverða aukningu á árunum 2003-2005 hefur eyðslan lækkað um 34% frá upphafi tímabilsins.

mynd-1-neysla-ferdamanna

Líklega er eftirspurnarteygni erlendra ferðamanna lægri en einn. Það er að lækkun gengis krónunnar um ákveðið hlutfall mun ekki leiða til samsvarandi aukningu í útgjöldum þeirra hér á landi. Þegar verð lækkar eykst eftirspurn sem getur komið fram með mörgu móti t.d. fjölgun ferðamanna eða lengri dvalartíma. Hvorug þróunin skilar sér þó í aukningu tekna í evrum á hverja gistinótt. Til að breyting í eftirspurn skili sér í mælingar er best að nota krónur á föstu verðlagi. Rétt eins og aðrar útflutningsgreinar mun ferðaþjónustan alltaf lúta sveiflum í gengi krónunnar.

Við þessa útreikninga verður að hafa varann á skilgreiningu mælikvarðans gistinótt, sem segir til um hversu mörg herbergi hjá hótelum og gistiheimilum eru seld á hverjum tíma. Sá mælikvarði gefur hins vegar ekki upp hve margir gistu í herberginu. Mun gagnlegra er að skoða fjölda rúmnótta, þ.e. hve mörg rúm eru upptekin hverja nótt við mat á fjölda ferðamanna á tilteknum tíma. Af einni eða annarri ástæðu hafa ferðamenn dreift sér á fleiri herbergi undanfarin ár og þar með þynnt út eyðsluna á hvert herbergi. Líklega væri hægt að ganga enn lengra á þessari braut en núverandi gögn ná ekki dýpra. Ef skoðað er hve miklu ferðamenn eyða á hverri tímaeiningu hérlendis, eða með öðrum orðum hversu margar krónur fást af hverri rúmnótt, kemur í ljós að um 11% lækkun hefur átt sér stað á árunum 2002-2010, eins og sjá má á mynd 2.

 mynd-2-neysla-ferdamanna

Eftir situr spurningin í hverju 11% munurinn felst. Í ferðaþjónustu er ferðamönnum jafnan skipt í tvo hópa eftir tilgangi ferða. Annar hópurinn kemur í viðskiptaerindum, ferðin varir stutt og miklu er eytt upp á hvern dag. Hinn hópurinn kemur í skemmtiferð, eyðir mun minna á hvern dag en dvelur lengi. Árið 2002 var ekki fyrir tilviljun valið sem byrjunarpunktur fyrir samanburðinn hér að ofan. Færa má rök fyrir því að það ár hafi íslenska hagkerfið verið í góðu jafnvægi og sama ár lauk einu fullnægjandi könnun Ferðamálastofu fyrir hrun um skiptingu ferðamanna í fyrrgreinda hópa. Þá reyndust um 12% ferðamanna koma vegna ráðstefna eða í öðrum viðskiptaerindum en afgangurinn féll undir hinn hópinn. Frá 2002 hefur fjöldi ferðamanna rúmlega tvöfaldast og á sama tíma hefur landsframleiðsla aukist um 23%, vinnustundum fækkað um 1%, þrjú eldfjöll gosið og Inspired by Iceland herferðinni ýtt úr vör. Í stuttu máli hefur hér verið fullkominn jarðvegur fyrir fjölgun ferðamanna í skemmtiferðum en ekki er hægt að segja það sama um viðskiptaferðir. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að þessum tveimur hópum hafi ekki fjölgað jafnhratt. Mögulega má rekja lækkun tekna af ferðamönnum á hvern dag til gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna þar sem hópur viðskiptaferðamanna, sem eyðir meira hvern dag, hafi einfaldlega ekki náð að halda í við fjölgunina.

Það er freistandi að halda því fram að ferðamenn séu að verða nískari eða að markaðssetning ferðarþjónustunnar sé að draga verri markhópa ferðamann til landsins. Ef rökin vantar þarf einungis að benda á að eyðsla og fjöldi ferðmanna hafa undanfarið ekki haldist í hendur. Þótt staðreyndin sé sönn dregur túlkun hennar upp afar skakka mynd af þróuninni. Nær sannleikanum er að samsetning ferðamannstraumsins hefur að öllum líkindum breyst og eyðsla á rúmnótt hefur lækkað lítillega. Þegar litið er á heildarmyndina er þetta smávægilegt gjald gegn því að fá hingað tvöfalt fleiri ferðamenn.

Höfundur: Jón Gunnar Jónsson, B.Sc. í fjármálaverkfræði og aðst.sjóðstjóri hjá GAMMA.

- Greinin birtist upphaflega í Vísbendingu.

Senda grein