Fréttir



Viðskipti, fjárfestingar og farsæld þjóðar

10.7.2012 Skoðun

Mikilvægum þjóðþrifamálum er ávallt mótmælt harkalega af íhaldssömu afturhaldi, andstæðingum frjálsra viðskipta og hagsmunagæsluaðilum eldra skipulags, skrifar Lýður Þór Þorgeirsson, sjóðsstjóri hjá GAMMA, í grein í Morgunblaðinu.

Viðskipti, fjárfestingar og farsæld þjóðar

Íslendingar búa að miklum náttúruauðlindum. Straumharðar ár bera þúsundir tonna af vatni niður brattar hlíðar til sjávar og í jörðu er gnótt af óbeisluðum jarðhita. Okkar fámenna þjóð ræður yfir fiskimiðum og hafsvæði sem tugmilljónaþjóðir væru kampakátar með og hefur landsmönnum borið gæfa til síðustu tvo áratugi að skipuleggja útgerðina á þann hátt að erlendar þjóðir horfa til með öfundaraugum. Meðalaldur íslendinga er lægri en flestra vestrænna þjóða og sparnaður í lífeyrissjóðum hærra hlutfall af landsframleiðslu en víðast hvar annars staðar. Spilling er í lágmarki og óþekkt er hérlendis að fé sé borið á lögreglu og embættismenn.

En þrátt fyrir nægtabúr náttúrunnar og ágæta mannkosti hrjáir okkur Íslendingar einn landlægur ósiður sem lengi hefur tafið alla framþróun. Það er sá háttur kotunganna að beita sér gegn efnahagslegum framförum, fjárfestingum, frjálsum viðskiptum og nýtingu auðlinda landsins. Eitt elsta dæmi um þennan ósið er frá fimmtándu öld þegar innlendir stórbændur lögðu stein í götu frjálsra viðskipta við enska kaupmenn sem hófu siglingar hingað til að kaupa skreið. Ástæður þess að innlendir höfðingjar höfðu horn í síðu umsvifa kaupmannanna var í grunninn sú að þau ógnuðu fastgengisstefnu þess tíma, vistarbandinu og sjálfu valdakerfi landsins. Hefðu viðskiptin verið látin óáreitt hefði þjóðin vafalaust hafið sig upp úr fátækt og sjálfsþurftarbúskap fimm hundrað árum fyrr en raunin varð.

Árið 1919 óskaði Títanfélagið, félag í eigu athafnamannsins Einars Benediktssonar og vel metinna og efnaðra innlendra kaupmanna og erlendra fjárfesta, formlega eftir heimild Alþingis til virkjana í Þjórsá. Félagið hafði þá lokið kaupum á vatnsréttindum af landeigendum í dalnum fyrir háar fjárhæðir. Fossamálið, eins og það var kallað, varð fljótt eitt stærsta þrætumál þess tíma og varð niðurstaðan sú að fyrirætlanir Títanfélagsins voru eyðilagðar vegna almennra fordóma gagnvart erlendu áhættufjármagni og andstöðu við aukna þéttbýlismyndun á suðvesturhorninu. Fyrirætlunum félagsins fylgdi mikil alvara og nam hlutafé félagsins um tvöföldum ríkisfjárlögum þess tíma. Þeir sem fróðir eru um þetta dapurlega mál eru flestir fullvissir um að hefði Alþingi ekki hafnað beiðninni hefði höfuðelfur landsins verið beisluð fimmtíu árum fyrr en raunin varð. Ekki þarf að spyrja að því hverslags lyftistöng það hefði verið fyrir hagvöxt og velmegun hefði ráðamönnum borið gæfa til að skjóta stoð iðnaðar undir einhæfan efnahag landsins svo snemma á síðustu öld.

Þegar samningar tókust um sölu á raforku til Swiss Aluminum í Straumsvík árið 1965 risu íslenskir jafnaðarmenn og hagsmunasamtök bænda upp á afturlappirnar með hræðsluáróðri um erlenda alúm-auðhringa sem stela myndu auðlindum þjóðarinnar og um hinar skelfilegu hættur aukinnar þéttbýlismyndunar. Í það sinn varð afturhaldsmönnum þó ekki kápan úr því klæðinu.

Nú þegar framtakssamir athafnamenn leggja til að erlendum rafdreifiveitum verði heimilað að strengja hingað rafmagnskapal og þar með gjörbylta hagkvæmni innlendra orkufyrirtækja til hins betra og gera fjölmarga nýja virkjanakosti fjárhagslega fýsilega, fara afturhaldsöflin meðal vor umsvifalaust á flug á nýjan leik með haldlausum rökum um samkeppnishæfni innlends iðnaðar, atvinnusköpun og rafmagnsverð til heimila. Röksemdafærsla sem er í hnotskurn sú sama og stórbændurnir notuðu gegn frjálsu skreiðarviðskiptunum við ensku kaupmennina fyrir hálfu árþúsundi.

Það er óhrekjanleg staðreynd að hæglega er hægt að tvöfalda raforkuframleiðslu hér á landi í mikilli sátt og samlyndi við náttúru og menningu eins og rammaáætlunin sýnir. En í stað þess að veita leyfi til virkjanaframkvæmda hafa þau mál nú velkst um á þingi í rúmt ár og virðist nýjasta upplegg þingsályktunartillögu vegna málaflokksins í engu samræmi við niðurstöðu áratugavinnu við rammaáætlun.

Vart er hægt að benda á eitt einasta dæmi um mikilvægt þjóðþrifamál sem ekki hefur verið mótmælt harðlega af íhaldssömu afturhaldi, andstæðingum frjálsra viðskipta og hagsmunagæsluaðilum eldra skipulags. Stöndum nú saman gegn skammsýninni og sérhagsmununum. Þá mun þjóðinni farnast vel.

Lýður Þór Þorgeirsson, sjóðsstjóri.

- Greinin birtist í Morgunblaðinu 7.júlí 2012

Senda grein