Fréttir



GAMMA er aðalstyrktaraðili Krakkaskák.is

25.4.2012 Samfélagsmál

GAMMA er aðalstyrktaraðili krakkaskak.is, nýs vefs sem kynnir leyndardóma skáklistarinnar fyrir börnum.

GAMMA er aðalstyrktaraðili Krakkaskák.is

Nýlega var settur á fót skákvefur fyrir börn undir slóðinni krakkaskak.is og standa Siguringi Sigurjónsson skákáhugamaður og Henrik Danielsen stórmeistari að vefnum. Meginhugmyndin á bak við vefinn er sú að börn, sama hvar þau búa á landinu og án tillits til efnahags foreldra, hafi aðgang að góðu kennsluefni um skák og geti aukið færni sína.

Verkefnið er styrkt og rekið með styrkjum og frjálsum framlögum fyrirtækja og einstaklinga og er fjármálafyrirtækið GAMMA aðalstyrktaraðili verkefnisins.

,,Við hjá GAMMA erum mjög ánægð með að styðja þetta verkefni þar sem þetta er í fyrsta sinn sem jafn góð og vel uppbyggð skákkennsla er aðgengileg börnum á vefnum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Auk þess hefur mikilvægi skákarinnar í leik og þroska barna síst minnkað nú þegar fjölbreytileiki og einkum magn af þreyingarefnis fyrir börn hefur vaxið gríðarlega.“ segir Agnar Tómas Möller sjóðsstjóri hjá GAMMA og sérlegur áhugamaður um skáklistina.

Umfjöllun og viðtal við forsvarsmenn Krakkaskák er að finna í Morgunblaðinu í dag 25.apríl á blaðsíðu 10.

Nánar um vefinn krakkaskak.is

Kennslumyndböndin, sem eru í dag alls 75 talsins, byrja alveg á grunninum með kynningu á taflmönnum og hvernig skákborðið sjálft virkar. Efninu er svo skipt niður í nokkra flokka og æfingarnar verða flóknari eftir því sem hæfnin eykst. Í fyrsta hluta kennslumyndbandanna eru grunnatriði skáklistarinnar kynnt; í öðrum hluta er farið yfir skákbyrjanir og endatöfl auk æfinga sem þjálfa öll svið skáklistarinnar og í seinasta hluta eru myndbönd sem börnin gera sjálf í heimsóknum Krakkaskák í skólana, til þess að sýna öðrum börnum og kenna.

Hugmyndin er sú að áhugasamir kennarar eða foreldrar, sem hafa ekki sérstaklega kynnt sér skákkennslu, geti notað vefinn til að kenna börnunum skáklistina, sama hvar á landinu þau eru. Krakkaskák mun standa fyrir skákmótum á netinu og halda árlegt skákmót í Reykjavík.

 

 

 

Senda grein