Fréttir



Raforkusala um sæstreng hagkvæm

21.2.2012 Skoðun

Í viðtali RÚV við Valdimar Ármann hagfræðing hjá GAMMA kemur fram að raforkusala í gegnum sæstreng gæti verið hagkvæmasti orkusölukostur Landsvirkjunar.

Hagkvæmt væri að selja raforku um sæstreng til Evrópu, segir hagfræðingur. Þó þyrfti að reisa fleiri en eina virkjun til að það borgi sig.

Löngum hefur verið talið að raforkusala til Evrópu um sæstreng borgi sig ekki. Í skýrslu um orkustefnu sem rædd var nýverið á Alþingi segir að enn á ný verði að kanna hvort þetta geti verið hagkvæmt. Sú athugun hefur hins vegar þegar verið gerð.

Landsvirkjun hefur látið vinna svona grunnskýrslu eða athugun á þessu og þeir telja að það sé að verða fjárhagslega hagkvæmt. „Að öllum líkindum myndi það borga sig í dag eða innan nokkurra ára,“ segir Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA.

Sæstrengurin yrði um þúsund kílómetrar um torvelt hafsvæði og sá lengsti í heimi. Magnús Bjarnason, hjá Landsvirkjun, hefur sagt að strengurin kynni að vera stærsta viðskiptatækifæri fyrirtækisins. En til að ná nægilegri orku til þess að háspennusæstrengur myndi borga sig þyrfti líklega fleiri en eina virkjun.

Landsvirkjun hefur nokkrar virkjanir á framkvæmdaáætlun. Fyrstar eru Bjarnarflag og Búðarháls. Þá Urriðafoss, Hvammur, Þeystareykir, Krafla, Búrfell, Hólmsá, Fannalækjarvirkjun, Gilsárvirkjun, Skrokkalda, Kolkuvirkjun, Holt og Hágöngur. Samtals gefa þær ríflega sjö terawattsstundir.

Í orkustefnuskýrslunni segir að strengurinn gæti hækkað raforkuverð til heimilanna. Valdimar segir að orkufyrirtækin fái aukinn arð af sölu um sæstreng sem ætti að skila sér í ríkissjóð þar sem ríkin eru að stórum hluta í eigu ríkisins. „Sem þá gæti bætt smásölukaupendum einsog íslenskum heimilum fyrir hækkandi raforkureikning.“

Landsvirkjun er með ákveðna framkvæmdaáætlun varðarndi virkjanir - annað hvort yrði orkan seld í gegnum sæstrenginn til Evrópu eða hún yrði seld til nýs iðnaðar hér á landi.

Landsvirkjun fól fyrirtækinu GAMMA að kanna arðsemishorfur næstu árin miðað við ákveðnar forsendur. Í ljós kom að arðbærasti kosturinn gæti verið sá að leggja sæstreng til Bretlands sem flutt gæti raforku til Evrópu. Einnig er rætt um sæstreng í skýrslu um orkustefnu sem rædd var á Alþingi nýverið. Þar segir að kanna þurfi hvort það sé hagkvæmt að leggja streng en slík könnun hefur þegar verið gerð.

- Fréttina má finna hér.

Skýrslu GAMMA um Landsvirkjun má finna hér

Senda grein