FréttirGAMMA veitti Verðlaun Skúla Fógeta í fyrsta sinn

2.2.2012 Samfélagsmál

GAMMA veitti nýverið Verðlaun Skúla Fógeta í fyrsta sinn fyrir bestu meistararitgerð á sviði fjármála og efnahagsmála. Tvær ritgerðir skiptu með sér fyrstu verðlaununum.

Í tilefni af 300 ára afmæli Skúla Magnússonar Fógeta þann 11. desember 2011 ákvað GAMMA að stofna til verðlauna sem afhent verða árlega fyrir bestu meistararitgerð á sviði fjármála og efnahagsmála á árinu 2011.

Fjölmargar vandaðar og góðar ritgerðir bárust í ritgerðarsamkeppnina. Niðurstaða dómnefndar undir forystu Dr. Ásgeirs Jónssonar efnahagsráðgjafa GAMMA var að tvær ritgerðir myndu skipta með sér fyrstu verðlaunum fyrir árið 2011. Hrafnhildur Gunnarsdóttir hlaut verðlaun fyrir meistararitgerð í Viðskiptafræði og Garðar Hólm Kjartansson fyrir meistararitgerð í Fjármálaverkfræði.

Ritgerð Hrafnhildar nefnist Fjárheimildir heilbrigðiskerfisins – úthlutun á rekstrareiningar með höfðatöluaðferð. Ritgerðin byggir á rannsóknarverkefni þar sem lögð var fram aðferðafræði við að reikna út fjárheimildir til rekstrareininga innan heilbrigðiskerfisins. Aðferðin var yfirfærð á íslenskar aðstæður og byggir m.a. á reynslu annarra ríkja. Leiðbeinandi Hrafnhildar við meistararitgerðina var Þórólfur Matthíasson.

Ritgerð Garðars nefnist Áhrif Solvency II á íslenskan vátryggingamarkað og hagkvæmni eigin líkans til útreiknings á gjaldþolskröfu.  Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins verða vátryggingafélög að velja á milli staðlaðrar aðferðar til að reikna gjaldþolskröfu sína og eigin líkans. Garðar stillir upp þessum tveimur kostum og ber saman. Helstu niðurstöður hans eru þær að gjaldþolskröfurnar komi til með að hækka mjög mikið og það muni hafa áhrif á fjárfestingastefnur íslenskra vátryggingarfélaga. Þau geti hins vegar lækkað gjaldþolskröfuna með smíði og innleiðingu á eigin líkani. Leiðbeinendur Garðars við meistararitgerðina voru Helgi Þórsson, Birgir Hrafnkelsson og Ólafur Pétur Pálsson.

gamma_verdlaun

Á myndinni eru sigurvegarar í ritgerðarsamkeppninni ásamt formanni dómnefndar.

Um Skúla Fógeta

Skúli Magnússon landfógeti var athafnamaður og hugsjónamaður. Skúli stofnaði fyrsta íslenska hlutafélagið árið 1751 til þess að reka margvíslega iðnaðarstarfsemi hérlendis. Hlutafélagið hafði höfuðstöðvar í Reykjavík þar sem flest iðnfyrirtækin voru. Var þetta upphafið að þéttbýli þar sem síðar varð höfuðborg Íslands og hefur Skúli stundum verið nefndur faðir Reykjavíkur af þeim sökum. Hann var talnaglöggur með afbrigðum og góður fjármálamaður. Hann ritaði einnig margt um hagfræðileg málefni og vann margoft til verðlauna í Danmörku fyrir ritgerðarskrif sín. Hann reyndi fyrstur manna að meta þjóðarframleiðslu landsins svo eitthvað sé nefnt. Skúli reyndi nær einn síns liðs að innleiða nútíma atvinnuhætti hérlendis með misgóðum árangri en nafn hans ætti að vera stöðug áminning til landsins manna að sýna kjark og áræði í viðskiptum samhliða því að stunda rannsóknir í fjármálum  og efnahagsmálum.

Nánar um ritgerðirnar

Ritgerð Hrafnhildar nefnist Fjárheimildir heilbrigðiskerfisins – úthlutun á rekstrareiningar með höfðatöluaðferð.

Um er að ræða rannsóknarverkefni þar sem lögð er fram tillaga að íslenskri höfðatöluforskrift fyrir almenna og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu ásamt heilsugæsluþjónustu. Tillagan er lögð fram þar sem sú aðferðafræði hefur sýnt fram á meiri jöfnuð, skilvirkni og kostnaðarlegt aðhald í rekstri opinberrar þjónustu en aðrar úthlutunaraðferðir. Þessi aðferðafræði byggir á reynslu annarra ríkja en samkvæmt henni er reiknuð ákveðin upphæð, sem er úthlutað á hvern einstakling, með fyrirfram ákveðin einkenni, inn í þjónustuúrræði sem er rekið af hinu opinbera á hverjum tíma. Fjöldi einstaklinga sem tilheyrir hverri rekstrareiningu er meðhöndlaður á tvennan hátt. Fyrst er fjöldinn áhættuleiðréttur og síðan er reiknuð leiðrétting vegna aðgengistakmarkana.

Tvær leiðir eru farnar til að áhættuleiðrétta íbúafjölda. Fyrst er skilgreind þörf fyrir heilbrigðisþjónustu með tölfræðilegum aðferðum; út frá notkun á henni umfram landsmeðaltal, með lýðfræðilegum aðstæðum á hverjum stað. Þær lýðfræðilegu breytur sem hafa áhrif á notkun eru heildartekjur einstaklinga, örorkutíðni, atvinnuleysi, umönnunarmat, stöðluð dánartíðni og prófgráða við útskrift. Að auki er íbúafjöldinn leiðréttur fyrir þeim kostnaðarmuni sem aldurs- og kynjamismunur milli svæða hefur í för með sér. Álag er lagt á höfðatölugreiðslur til að leiðrétta fyrir skertu aðgengi sem er tilkomið vegna landfræðilegra aðstæðna.

Fjárheimildir eru reiknaðar samkvæmt úthlutun til rekstrareininga heilbrigðiskerfisins í fjárlögum 2010 og bornar saman við raunverulegar fjárheimildir stofnananna. Fjárheimild með höfðatöluforskrift fyrir hverja stofnun er ólík þeirri fjárheimild sem þær fá samkvæmt fjárlögum.

Leiðbeinandi Hrafnhildar við meistararitgerðina var Þórólfur Matthíasson.

Ritgerð Garðars nefnist Áhrif Solvency II á íslenskan vátryggingamarkað og hagkvæmni eigin líkans til útreiknings á gjaldþolskröfu. 

Solvency II tilskipun Evrópusambandsins skyldar vátryggingafélög til að velja á milli staðlaðrar aðferðar til að reikna gjaldþolskröfu sína og þess að byggja upp svokallað eigið líkan. Í ritgerðinni  er stillt upp slembnu hermunarlíkani, svokölluðu DFA eigin líkani, fyrir þrjá áhættuþætti: iðgjalda-, vaxta- og hlutabréfaáhættu til að reikna út hluta af gjaldþolskröfu íslensks vátryggingafélags. Einnig er gjaldþolskrafa félagsins reiknuð með staðlaða líkaninu og útkoma þessara tveggja aðferða borin saman. Íslenskur vátryggingamarkaður er skoðaður m.t.t. gjaldþolskrafna og lagt mat á möguleg áhrif Solvency II á íslensk vátryggingafélög miðað við núverandi gjaldþolskröfur. 

Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru þær að gjaldþolskröfurnar koma til með að hækka mjög mikið og það mun hafa áhrif á fjárfestingastefnur íslenskra vátryggingafélaga. Þau gætu hins vegar lækkað gjaldþolskröfu sína með smíði og innleiðingu eigin líkans og þar af leiðandi aukið ávöxtun eigin fjár. Eigin líkön geta líka aukið innsýn stjórnenda í rekstur félaganna ásamt því að gefa þeim stuðning við ákvarðanatökur.

Leiðbeinendur Garðars við meistararitgerðina voru Helgi Þórsson, Birgir Hrafnkelsson og Ólafur Pétur Pálsson

 

Senda grein