Fréttir



Vöxtur í vændum?

24.1.2012 Skoðun

Dr. Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við HÍ, ritaði nýverið grein í Vísbendingu um hagvaxtarhorfur ársins.

Vöxtur í vændum?

Allt bendir nú til þess að hagvöxtur á árinu 2012 verði mun kröftugri en spár Seðlabanka, Hagstofunnar og fleiri aðila hafa gefið til kynna. Um það eru eiginlega allar vísbendingar samhljóða. Vöxturinn virðist að mestu leiddur áfram með vexti einkaneyslu en einnig fjárfestingu í einhverjum mæli. Innlend eftirspurn hefur löngum hlaupið á sjómílna skóm hérlendis, ef hún tekur á rás á annað borð. Það er sannarlega eitthvert rúm til staðar fyrir vöxt eftir  9% samdrátt landsframleiðslu, 22% samdrátt einkaneyslu og 63% samdrátt fjárfestingar á árunum 2008-2010. Samt sem áður er þanþol hagkerfisins gagnvert þenslu mun minna en áður.

Íslenska hagkerfið er í skrúfstykki í þeim skilningi að innflutningur getur aukist verulega umfram útflutning án þess að hætta steðji að gjaldeyrisstöðu landsins og veikja gengi krónunnar. En um 40% af neyslukörfu heimilanna innfluttar vörur og fjárfestingavörur eru að stórum hluta innfluttar. Þjóðin getur ekki lengur eytt meira en hún aflar og fjármagnað innlenda neyslu og viðskiptahalla með erlendu lánsfé sem raunin hefur verið svo oft áður.

Þessi vaxtarkippur sem nú er í burðarliðnum getur því ekki orðið langvinnur fyrir tilverknað innlendrar eftirspurnar einnar saman og dregur vart lengra en fram árið 2013 nema að fleira komi til. Aukinheldur, ef þjóðarútgjöldin aukast of skart verður Seðlabankinn að grípa í taumana með vaxtahækkunum eða gjaldeyrisútflæði mun veikja krónuna, skapa verðbólgu og kæfa neysluna niður. Það andrými sem eftirspurnardrifinn vöxtur hefur hérlendis er aðeins 1-2 ár.

Nú er það útflutningsframleiðsla landsins og erlend fjárfesting sem er hinn takmarkandi þáttur fyrir bætt lífskjör og hagvöxt á næstu árum og þegar litið er til ársins 2013 og lengra fram verður útsýnið óskýrara í hvaða átt íslenska hagkerfið stefnir enda gríðarlega óvissa um þróun efnahagsmála í helstu viðskiptalöndum. Auk þess má bæta við ýmsum gamalkunnum áhættuþáttum eins og Kötlugosi sem gæti hæglega lamað ferðaþjónustuna um eitthvert skeið.

Vaxtarkippur í vændum

Einkaneysla er nú í sögulegu lágmarki eftir seinna stríð sem hlutfall af landsframleiðslu. Nú þegar rykið hefur sest eftir hrunið hlýtur neyslan að leita í átt að sínu fyrra horfi.  Fólk getur aðeins haldið niður í sér andanum í ákveðinn tíma hvað varðar útgjöld heimilisins en síðan þarf að kaupa sitt af hvoru tagi: endurnýja föt, heimilistæki og svo framvegis.

Aukin einkaneysla er einnig studd áfram með töluverðum taxtahækkunum launa síðasta vor sem hafa ýtt kaupmættinum aftur upp á þessu ári og vaxtalækkunum á fjármagnsmarkaði. En almennt séð benda vísbendingar af vinnumarkaði eindregið til þess að töluverð ný atvinna hafi verið skapast á síðustu mánuðum samhliða því sem vinnutími hefur lengst, atvinnuþátttaka aukist og 3-12 mánaða atvinnuleysi gengið niður. Svo virðist sem laun séu aftur að komast á eitthvert skrið og stutt sé í að skortur fari að myndast eftir sumum starfstéttum á vinnumarkaði og þá jafnframt að innflutningur fari aftur að hefjast á erlendu vinnuafli.

Í þeim hagspám sem gefnar hafa verið út er yfirleitt gert ráð fyrir því að innlend eftirspurn aukist með mikilli hófsemi á næstu 2-3 árum. Seðlabankinn spáir til að mynda í nýjustu Peningamálum (í nóvember 2011) að innlend eftirspurn vaxi með um 3% jöfnun hraða næstu þrjú árin. (Á sama tíma gerir bankinn ráð fyrir 1-2% árlegum vexti útflutnings.) Þannig mun heldur ganga á viðskiptajöfnuðinn á næstu árum samkvæmt spá Seðlabankans en efnahagslífið helst nokkuð í jafnvægi. Þetta er ákaflega hófstilltur vaxtarferill sem í sögulega samhengi virðist dálítið ótrúverðugur. Við þetta bætist einnig að árið 2013 er kosningaár og af þeim sökum er mjög ólíklegt að ríkisvaldið muni standast þá freistni að beina auknum skatttekjum, sem aukinn innlend eftirspurn skilar, út í hagkerfið.

Meiri kraftur í skotið?

Til þess að setja upp einhverja viðmiðun um hvernig kraftmeira eftirspurnarskot gæti gengið eftir er sett upp einfalt dæmi með annarrar gráðu leitniframreikningi fyrir þjóðarútgjöld. Gert er ráð fyrir því að hagsveiflan haldi áfram sömu lögun næstu 2 ár fram í tímann og verið hefur tvö árin þar á undan. Nánar tiltekið er tekin einföld leitnimiðun af breytingu á vaxtarhraða (annarrar afleiðu) síðustu 8 ársfjórðunga og því varpað 8 fjórðunga fram í tímann en síðan var vöxturin látinn deyja út. Þetta er einfaldur framreikningur sem lýsir því hvernig aðeins kraftmeira eftirspurnarskot gæti litið út og er teiknaður upp á mynd 1 ásamt spá Seðlabankans.

Þessi leitniframreikningur, sem tekur mið af sögunni, er aðeins settur fram sem viðmiðun við spá Seðlabankans, sem byggir á framsýnu líkani, og mjög líklega verður hinn raunverulegi eftirspurnarferill einhvers staðar þarna á milli. En aðalatriði er þetta: Kraftmeiri vöxtur innlendrar eftirspurnar myndi ekki skapa samsvarandi vöxt í landsframleiðslu þar sem stór hluti aukningarinnar rynni út úr landinu sem innflutningur. Vöxturinn myndi einnig brátt stefna stöðugleika íslenska hagkerfisins í hættu ekki vegna þenslu á vinnumarkaði, eins og svo oft áður, heldur vegna stöðunnar á gjaldeyrismarkaði.  Það gerir það að verkum að Seðlabankinn verður að bregðast við með vaxtahækkunum á fyrra hluta þessa árs og jafnvel öðrum aðgerðum til þess að bæla vöxtinn niður ef erlend fjárfesting og aukinn útflutningsframleiðsla færa ekki svigrúmið til vaxtar út.

Mynd. Breyting þjóðarútgjalda á föstu verðlagi eftir ársfjórðungum frá 1998 til 2011 og spár Seðlabankans um vöxt þjóðarútgjalda til ársins 2014 (blá brotin lína) og síðan einfaldur leitniframreikningur hagsveiflunnar (rauð brotin lína).

thjodarutgjold

Heimild: Hagstofan, Peningamál Seðlabanka Íslands og útreikningar höfundar

Útflutningsleiðin

Útflutningsdrifinn hagvöxtur felur í sér að raungengi krónunnar verður að vera lágt. Raungengið mælir hlutfallslega stöðu launa og verðlags hérlendis við það helstu viðskiptalöndin og því mælikvarði á samkeppnisstöðu landsins. Lágt raungengi felur því í sér lágan kaupmátt innlendra launa og að Ísland sé tiltölulega ódýrt framleiðsluland. Raungengi krónunnar er nú mjög lágt eða 20% neðan við meðaltalið frá 1980 og hefur raunar aldrei verið lægra frá því landið fékk fullveldi árið 1918. En árangurinn hefur samt sem áður verið hægur þar sem útflutningur hefur ekki vaxið að svo miklu nemur frá hruni. Það kemur kannski ekki á óvart þar sem helstu útflutningsatvinnuvegir landsins búa við ytri takmarkanir. Afli íslenskra skipa takmarkast af veiðiráðgjöf og framleiðsla stóriðjunnar af þeirri orku sem er til nýtingar. Nokkur aukning hefur orðið í ferðaþjónustu en hún ein og sér megnar ekki að auka útflutning svo miklu nemi. Það er því veruleg nauðsyn að auka framleiðslugetu útflutningsgreina.  Hraðvirkasta leiðin til þess felst í beinni erlendri fjárfestingu. Ástæðan er einföld: Það þarf annað og meira en framleiðslutæki til þess að hefja framleiðslu fyrir erlenda markaði. Það þarf bæði þekkingu á þörfum kaupenda ytra, sölunet til þess að koma vörunni á rétta stað og markaðsnet til þess að selja hana. Árangur landsmanna í því að örva beina erlenda fjárfestingu hefur hins vegar verið álíka slæmur og í því að auka útflutning.

Ísland  hefur hins vegar enn ríkari ástæðu til þess að leggja áherslu á viðskiptaafgang vegna þeirrar sjálfheldu sem íslenskan krónan er föst í með fjármagnshöftum. Hreinn gjaldeyrisforði landsins er nú nálægt núlli ef erlendar skuldir og eignir Seðlabanka og ríkis eru vegnar saman. Þá liggur einnig fyrir að töluvert af erlendum fjárfestum festust inni í landinu með stórar krónustöður sem þarf að leysa út á einhverjum tímapunkti. Síðast en ekki síst bíður töluvert af íslensku fjármagni bakvið höftin þess að komast úr landi, enda vilja eigendur dreifa áhættu með því að setja egg sín í fleiri körfur. Þetta á til að mynda við um lífeyrissjóðina sem þurfa nauðsynlega að koma hluta af fjármagni sínu í vinnu utan landsteina, ef þeir eiga að standa undir kröfum til góðrar eignastýringar og áhættudreifingar. Sama á við um ótal aðra íslenska fjárfesta sem eru nú bundnir niður á Íslandi en vilja nýta sér tækifæri á alþjóðavettvangi. Landsmenn þurfa einfaldlega að endurreisa traustið á þjóðarmynt sína með því að byggja upp góða erlenda lausafjárstöðu með viðskiptaafgangi.

Þegar litið er til næstu 5-10 ára eða svo mun gengi íslensku krónunnar verða veikt og mun veikara en það hefur verið síðustu áratugi. Hið veika gengi kemur til af nauðsyn þar Ísland þarf að viðhalda góðri samkeppnishæfni til þess að auka útflutningsframleiðsluna.Og þangað til það hefur gerst er litið svigrúm til aukinnar þjóðarútgjalda.   

Höfundur: Dr. Ásgeir Jónsson

- Greinin birtist upphaflega í Vísbendingu 

Senda grein