Fréttir



Landsvirkjun gæti orðið hornsteinn íslensks efnahagslífs

2.7.2011 Skoðun

Í grein í Morgunblaðinu fjallar Valdimar Ármann hjá GAMMA um nýútkomna skýrslu GAMMA um stöðu og horfur Landsvirkjunar.

Landsvirkjun gæti orðið hornsteinn íslensks efnahagslífs

Undirritaður ásamt fleirum hjá GAMMA vann skýrslu að beiðni Landsvirkjunar um hver möguleg efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035 gætu verið miðað við mismunandi forsendur.  Þær forsendur sem gengið var út frá voru þær að orkusala sé aukin ásamt hækkandi verði, orkusölu sé haldið í stað ásamt hækkandi verði eða að verð haldist óbreytt. Einnig er litið til þess möguleika að Ísland yrði beintengt við Evrópu með sæstreng en miklar framfarir hafa átt sér stað í þróun þeirra. Miðað við þessar mismunandi forsendur er staða Landsvirkjunar metin og áhrifin á efnahagskerfi Íslands.

Raforkumarkaður hefur breyst mikið erlendis undanfarinn áratug og hefur verð á sumum mörkuðum í Evrópu allt að fjórfaldast. Vegna langtímasamninga Landsvirkjunar við stærstu kaupendur er núverandi meðalverð nálægt því að vera sambærilegt við 10 ára gamalt Evrópuverð. Þannig er ekki grundvallar forsenda í greiningunni að raforkuverð haldi áfram hækkunum að okkar mati heldur er gert ráð fyrir að Landsvirkjun nái að sækja að einhverju leiti þær verðhækkanir sem hafa nú þegar átt sér stað.

Í öllum sviðsmyndum stendur Landsvirkjun vel en ljóst er að gífurlegir möguleikar eru til staðar sé rétt haldið á spilunum. Miðað við óbreytt magn orkusölu gætu mögulegar tekjuskatts- og arðgreiðslur verið á bilinu 30-50 milljarðar króna árlega frá árinu 2015, eftir því hvort verðhækkanir skili sér eða ekki. Ef miðað er við að Landsvirkjun fái heimild stjórnvalda til að þróa virkjanakosti í samræmi við sína framkvæmdaáætlun og rammaáætlun stjórnvalda ásamt því að það náist að hækka orkuverð til stórkaupenda gæti Landsvirkjun farið að skila um 100 milljörðum króna árlega í tekjuskatt og arðgreiðslur til ríkissjóð frá árinu 2025. Þessar fjárhæðir gætu skipt verulegu máli fyrir íslenskt efnahagslíf og ríkissjóð enda jafnast þetta á við um 4% af landsframleiðslu og um 10% af tekjum ríkissjóðs. Til að setja þessar fjárhæðir í samhengi þá er þetta nærri því helmingur af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga. Í rauninni gæti ríkissjóður:

-        lækkað skatta á tekjur og hagnað einstaklinga um helming eða

-        lækkað almenna skatta á vöru og þjónustu um þriðjung eða

-        fellt niður eignarskatta, skatt á fjármagnstekjur og skatta á tekjur og hagnað lögaðila eða

-        afnumið tryggingargjöld eða

-        fellt niður öll vörugjöld.

Þessar greiðslur gætu borgað fyrir háskóla, framhaldsskóla, menningu, íþróttir, trúmál, löggæslu, dómstóla og fangelsi eða að þær gætu greitt fyrir um helming kostnaðar alls heilbrigðiskerfisins.

Í ljósi stærðar Landsvirkjunar skiptir höfuðmáli fyrir íslenskt efnahagslíf að fyrirtækið nái góðum samningum um verð á raforku. Mismunur kostnaðarverðs Landsvirkjunar við framleiðslu orkunnar og þess verðs sem viðskiptavinurinn getur fengið erlendis er til skiptanna. Ef selt er á lægra verði en einhvers konar heimsmarkaðsverði, er kaupandi orkunnar í rauninni að fá hluta ábatans af íslenskum orkuauðlindum sem er líklega eðlilegt en aðeins upp að vissu marki. Skýrslan sýnir skýrt að hærra verð skilar sér í umtalsverðri arðsemi sem er meira virði fyrir íslenskt þjóðarbú en einstaka störf og skammtíma áhrif hagvaxtar vegna framkvæmda hverju sinni.

Miðað við framkvæmdaáætlun upp á um 11 TWh/a er ljóst að búið verður að virkja hátt hlutfall af nýtanlegri orku á Íslandi eftir um 15-20 ár. Talið er að samkvæmt rammáætlun sé fræðilega nýtanlegt vatnsafl og háhiti á Íslandi um 84 TWh/a  en af því sé allt að 50 TWh/a nýtanlegt m.t.t. umhverfissjónarmiða. Nú er verið að nýta samtals um 17 TWh/a sem er um þriðjungur af nýtanlegu afli og eftir framkvæmdaáætlun gæti það hlutfall verið komið upp í um 60%. Þannig munu enn vera virkjanakostir til staðar í framtíðinni. Í rauninni er það samt ekki forsenda að það þurfi að eiga inni virkjanakosti fyrir framtíðarkynslóðir. Hugmyndin er sú að ef hægt er að selja raforkuna á viðunandi verði, muni arðsemi af Landsvirkjun í framtíðinni koma í staðinn fyrir jákvæð áhrif af framkvæmdum. Þannig munu tekjuskatts- og arðgreiðslur halda uppi hagvexti og störfum í framtíðinni í stað virkjanaframkvæmda. Landsvirkjun gæti því sannarlega orðið hornsteinn íslensks efnahagslífs í framtíðinni.

Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur hjá GAMMA.

- Greinin birtist í Morgunblaðinu 2.júlí 2011

Senda grein