Fréttir



Vandanum velt á komandi kynslóðir?

15.4.2011 Skoðun

Agnar Möller sjóðsstjóri hjá GAMMA skrifar um tímavirði lántöku hins opinbera og freistnivandann sem felst í að láta komandi kynslóðir greiða fyrir útgjöld dagsins í dag.

Vandanum velt á komandi kynslóðir?

Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að eftir bankahrun hafa opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, þurft að fjármagna umtalsverðar fjárhæðir í íslenskum krónum, oft til mjög langs tíma. Til dæmis hefur íslenska ríkið gefið út um 250 ma króna í skuldabréfum með lokagjalddaga 2019 eða síðar, og Lánasjóður sveitarfélaga og einstök sveitarfélög gefið út nálægt 50 ma króna í löngum verðtryggðum skuldabréfum.

Útgáfa ríkissjóðs hefur að langmestu leyti verið í formi óverðtryggðra skuldabréfa sem greiða árlega vexti og svo höfuðstólinn til baka á lokadegi, á meðan skuldabréfaútgáfa sveitarfélaganna hefur að mestu leyti verið í formi verðtryggðra jafngreiðslna þar sem allar greiðslur í framtíðinni hafa sama raunvirði í dag, mælt með vísitölu neysluverðs.

 Munur á óverðtryggðum vaxtalánum og verðtryggðum jafngreiðslulánum hefur í hinu »íslenska vaxtastigi« einkum falist í því að verðtryggðu lánin greiða niður höfuðstól lánsins yfir lánstímann þ.e. á lokagjalddaga er lánið uppgreitt. Í tilviki óverðtryggðu lánanna er höfuðstóllinn í raun greiddur með minnkandi raunverði, þ.e. á lokadag hefur höfuðstólllinn rýrnað sem nemur verðbólgu yfir lánstímann. Hins vegar er erfitt að bera saman greiðslubyrði svo ólíkra lánaforma þar sem það ræðst meðal annars mikið af verðbólgu og tímalengd lána hvernig hlutfallsleg greiðslubyrði er yfir líftímann, og hvernig hún dreifist.

Það er hins vegar hægt að skoða greiðslubyrði mismunandi lánaforma út frá hvert raunvirði endurgreiðslubyrði skattgreiðenda framtíðarinnar verður. Bæði stjórnmálamenn og skattgreiðendur geta þá horft á þau verkefni sem er verið að fjármagna í dag og spurt sig: ,,Er réttlætanlegt að fjármagna verkefni í dag fyrir eina verðtryggða krónu gegn því að skattgreiðendur framtíðarinnar greiði það með margfalt fleiri verðtryggðum krónum í framtíðinni?"

Ef við skoðum algengustu lántökur ríkis og Lánasjóðs sveitarfélaga sl. ár kemur í ljós að báðir aðilar eru að greiða til baka um 35-40% hærri upphæð að raunverði en tekin var að láni. Forsendur eru þær að Lánasjóðurinn hefur verið að fjármagna sig til 13 ára (til ársins 2024) á um 4,5% verðtryggðum vöxtum og ríkissjóður hefur fjármagnað um 200 ma á kringum 7,5-8,0% óverðtryggðum vöxtum til u.þ.b. 12 ára, og við gerum ráð fyrir 3,5% verðbólgu að meðaltali til framtíðar.

En það eru þó ekki öll sveitarfélög sem fjármagna sig í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga heldur fjármagna sum sig beint með skuldabréfaútgáfu á markaði. Þeirra á meðal er Reykjavíkurborg sem hefur frá lokum árs 2009 gefið út skuldabréf að fjárhæð um 6,5 ma að markaðsvirði á 4,11% raunvöxtum að meðaltali. Það sem er hins vegar ólíkt með útgáfu Reykjavíkurborgar og öðrum útgáfum sveitarfélaga er að bréf Reykjavíkurborgar er til ársins 2053! Til samanburðar er lengsta skuldabréf útgefið af Íbúðalánasjóði til ársins 2044 og því er skuldabréf Reykjavíkurborgar langtum lengra en öll önnur skráð íslensk verðtryggð skuldabréf.

Þetta þýðir með öðrum orðum að fyrir hverja krónu sem Reykjavíkurborg tekur að láni í dag í gegnum fyrrgreint skuldabréf munu skattgreiðendur framtíðarinnar, allt fram til ársins 2053, greiða til baka 2,15 krónur, á föstu verðlagi. Það er ekki víst að þeir borgarfulltrúar sem taka við þessum fjármunum í dag átti sig á hvert tímavirði þeirra er á föstu verðlagi, sem er sem fyrr segir afleiðing af lengd skuldabréfsins sem og gríðarlega háu raunvaxtastigi á Íslandi. Hvati borgarfulltrúa til að spara í rekstri eða skera niður í starfsemi borgarinnar hlýtur að minnsta kosti að vera nægur í ljósi byrðanna sem íbúar Reykjavíkur framtíðarinnar munu þurfa að taka við. Á sama hátt og umræða hefur verið um að setja sveitarfélögum takmörk við lántöku í erlendri mynt mætti ef til vill velta því upp hvort tímalengd lántöku sveitarfélaga séu líka settar skorður, því lengri lán fela í sér lægri greiðslubyrði þar sem höfuðstóll er greiddur hægar niður en að sama skapi margfalt hærri endurgreiðslu lánanna, mælt á verðlagi dagsins í dag.

- Grein í Morgunblaðinu 15. apríl 2011.

Senda grein