Fréttir



Ávöxtunarkrafa gæti tafið eignasölu

13.2.2011 Skoðun

Gísli Hauksson segir að há ávöxtunarkrafa Bankasýslunnar til eignarhluta síns í nýju bönkunum geti leitt til þess að bankarnir haldi að sér höndum þegar kemur að sölu á yfirteknum fyrirtækjum.

Ávöxtunarkrafa gæti tafið eignasölu

Há ávöxtunarkrafa Bankasýslu ríkisins á þá eignarhluti sem hún fer með í fjármálafyrirtækjum fyrir hönd hins opinbera getur leitt til þess að bankar haldi að sér höndum þegar kemur að því að selja fyrirtæki og eignir sem þeir hafa yfirtekið. Þetta er meðal annars mat Gísla Haukssonar, hagfræðings og framkvæmdastjóra GAM Management.

Gísli segir ávöxtunarkröfu Bankasýslunnar geta haft þau áhrif að bankar verði tregir í taumi við að koma fyrirtækjum á sínum snærum í hendur nýrra eigenda ef aðstæður séu metnar með þeim hætti að ólíklegt þyki að sala skili viðunandi arði til bankans eða þá ef rekstur fyrirtækjanna gengur það vel að arðurinn hjálpi bönkunum að uppfylla arðsemisskilyrði bankasýslunnar. Þetta veki hinsvegar áleitnar spurningar um hvort það sé æskilegt að bankakerfið sé jafn fyrirferðarmikið í rekstri fyrirtækja og nú er og hvort það myndi ekki styðja við hagkerfið ef fleiri fyrirtæki yrðu seld úr bönkunum, ekki síst vegna skorts á fjárfestingatækifærum fyrir sparnað um þessar mundir.

Sem kunnugt er hafa verið uppi gagnrýnisraddir um seinagang banka við að endurselja þau fyrirtæki sem þeir hafa neyðst til þess að taka yfir á undanförnum árum. Að sögn Gísla kann sú ávöxtunarkrafa sem Bankasýslan gerir vegna eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum að útskýra þennan seinagang.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu gerir Bankasýslan 7% ávöxtunarkröfu umfram áhættulausa vexti á þá eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem hún fer með fyrir hönd ríkisins. Sé horft til styttri áhættulausra vaxta þá þýðir þetta að nafnávöxtunarkrafa Bankasýslunnar er tæplega 10% en ef horft er til lengri tíma, til dæmis til vaxta á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til sex ára, þá er nafnávöxtunarkrafan um 13%. Gísli segir að þar sem stutt er síðan bankarnir hrundu sé enn mikil óvissa um gæði útlánasafna nýju bankanna og þar af leiðandi erfitt að leggja endanlegt mat á getu nýju bankanna til þess að mæta ávöxtunarkröfu Bankasýslunnar. Hinsvegar sé ljóst þegar til lengri tíma er litið, að mati Gísla, að bankarnir standi frammi fyrir mikilli hagræðingu til þess að geta staðið undir kröfu Bankasýslunnar.

Í þessu samhengi má nefna að arðsemi eiginfjár stóru viðskiptabankanna var yfir 10% í fyrra. Stærsti eignarhluturinn sem Bankasýslan fer með er í Landsbanka Íslands, en ríkið á ríflega 80% hlut í bankanum. Arðsemi eigin fjár í rekstri bankans fyrstu níu mánuðina í fyrra var 10,9% en vaxtamunurinn á tímabilinu nam 2,7%. Af þessu má vera ljóst að taka þurfi til í rekstri bankans – minnka kostnað, auka vaxtamun, þóknunartekjur og svo framvegis – til þess að arðsemiskrafa Bankasýslunnar fái örugglega staðist til lengdar.

- Viðskiptablaðið, 10. febrúar 2011.

Senda grein