Fréttir



Mikil ávöxtun á ríkisskuldabréfamarkaðnum

4.8.2010 Skoðun Starfsemi

Óverðtryggð bréf hafa skilað 14% ávöxtun það sem af er ári.  Fjármagnseigendur veita ríkinu verðtryggð lán á svipuðum kjörum og þeir veita bönkum með því að leggja fé inn á verðtryggða reikninga

Neðangreind fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu í dag:

Mikil ávöxtun á ríkisskuldabréfamarkaðnum

Óverðtryggð bréf hafa skilað 14% ávöxtun það sem af er ári.  Fjármagnseigendur veita ríkinu verðtryggð lán á svipuðum kjörum og þeir veita bönkum með því að leggja fé inn á verðtryggða reikninga

Heildarveltan á skuldabréfamarkaðnum frá áramótum til júlíloka nam 1317 milljörðum króna. Það sem af er ári hefur ávöxtun á skuldabréfamarkaðnum verið umtalsvert hærri en sú sem býðst á reikningum innlánsstofnana. Samkvæmt skuldabréfavísitölu GAMMA fyrir óverðtryggð ríkisskuldabréf hefur ávöxtun þeirra verið 14,13% það sem af er ári. Samkvæmt síðustu mælingu Hagstofunnar var 12 mánaða verðbólga tæp 5% í júlí. Skuldabréfavísitala GAMMA fyrir verðtryggð íbúðabréf hefur hækkað um 7,46% frá áramótum. Samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á Keldunni þá nema vextir á óbundnum óverðtyggðum reikningum innlánsstofnana á bilinu 5,15-5,80%. Vextir á verðtryggðum reikningum sem eru bundnir til þriggja ára nema á bilinu 2,9-3,5% samkvæmt Keldunni.

Ódýr fjármögnun bankanna

Þar sem fyrir liggur yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að allar innistæður séu tryggðar að fullu fylgir engin höfuðstólsáhætta en samt sem áður verður hlutfallsleg ávöxtun á skuldabréfamarkaðnum það sem af er ári að teljast ásættanleg, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Þó verður að hafa í huga varnaðarorð um að ávöxtun í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarávöxtun.
Þegar ávöxtun á innlánsreikningum er borin saman við ávöxtun á markaðnum með skuldabréf ríkisins og Íbúðalánasjóðs er eftirtektarvert hversu gott aðgengi innlánsstofnanir hafa að ódýrri fjármögnun. Eins og fyrr segir eru vextir á bundnum verðtryggðum reikningum 2,9-3,5% en á sama tíma er ávöxtunarkrafan á flokk verðtryggðra ríkistryggðra skuldabréfa með stuttan líftíma á borð við HFF14 um 3,4%. Með öðrum orðum þýðir þetta að sparifjáreigendur eru reiðubúnir að lána bönkum verðtryggt á sambærilegum kjörum og íslenska ríkið fær.

skuldabref_avoxtun_morgunbladid

Senda grein