FréttirViðtal við Gísla Hauksson í Morgunblaðinu

29.7.2010 Skoðun

Framkvæmdastjóri GAMMA segir stýrivexti ekki í samræmi við stefnu Seðlabankans.

Vísitala neysluverðs lækkaði í júlí um 0,66 prósent frá fyrra mánuði og stendur nú í 361,7 stigum. Tólf mánaða verðbólga er því 4,8% og hefur ekki verið lægri í langan tíma. Lækkunin milli mánaða nú er sú mesta síðan snemma árs 1986. Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að sumarútsölur, með tilheyrandi verðlækkunum á fötum, sé ein helsta orsök lækkunar vísitölunnar,

en verð á fötum og skóm lækkaði um 0,3 prósent. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitalan lækkað um 0,6 prósent, sem jafngildir 2,3 prósenta verðhjöðnun á ársgrundvelli. Það vekur athygli að sé húsnæðisliðurinn tekinn út úr vísitölunni, er lækkunin enn meiri frá því í júní eða 0,78 prósent. Þannig heldur húsnæðisliðurinn neysluverðsvísitölunni í raun hærri en ella, heldur ekki í við lækkun annarra liða.

Selja verðtryggð skuldabréf

Skuldabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,3 prósent í viðskiptum gærdagsins. Sú lækkun skýrist af lækkun verðtryggða hluta vísitölunnar, sem fór niður um 0,4 prósent, á meðan sá óverðtryggði hækkaði um 0,1 prósent. Heildarvelta viðskipta var tæpir 9 milljarðar króna. Með því að skipta úr verðtryggðum skuldabréfum yfir í óverðtryggð veðja fjárfestar í raun gegn verðbólgu – reikna með því að hún verði lítil eða engin.

Skammtíma raunvextir of háir

Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, segir raunverulega breytingu neysluverðsvísitölunnar hafa verið meiri en markaðsaðilar hafi átt von á, en þeir hafi reiknað með lækkun upp á 0,2 til 0,4 prósent.

„Menn seldu verðtryggð bréf og keyptu óverðtryggð, en þar sem nú er júlí er markaðurinn frekar rólegur. Áhrifin voru ekki mikil og verðbreytingar litlar,“ segir Gísli. Gísli gagnrýnir Seðlabanka Íslands, sem hann segir halda vaxtastigi of háu miðað við verðbólgu.

„Seðlabankinn hefur áður lýst því yfir að skammtíma raunvextir eigi að vera í kringum núllið. Þeir hafa sett sér þá reglu að horfa til vísitölugildis síðustu 12 mánaða og meta það sem 12 mánaða verðbólgu. Til viðbótar við það hefur verið horft til vísitölu neysluverðs, að frádregnum áhrifum skattahækkana,“ segir hann. Skattaleiðrétt verðbólga síðustu 12 mánaða er 3,7 prósent.

„Ætli Seðlabankinn að halda skammtíma raunvöxtum í kringum núllið þarf Seðlabankinn að lækka vexti verulega,“ segir Gísli, og bætir því við að lágmarks innstæðuvextir Seðlabankans séu nú 6,5 prósent og vextir í endurhverfum viðskiptum 8%. Því væri rétt að lækka stýrivexti um að minnsta kosti 2,5 prósentustig.

Kom Seðlabankanum á óvart

Gísli segist halda að tölur Hagstofunnar hafi komið Seðlabankanum jafn mikið á óvart og öðrum. Verðlag hafi nú lækkað um 1 prósent á tveim mánuðum og það sé umfram þeirra spár. Næsta vaxtaákvörðunartilkynning Seðlabankans verður 18. ágúst næstkomandi. Gísli segir það gefa bankanum tækifæri til að lækka vexti verulega. „Trúverðugleiki er grundvallaratriði í rekstri Seðlabanka, og ef þeir ætla að vera trúir sinni kennisetningu um það að skammtíma raunvextir eigi að vera í kringum núllið, þó ekki neikvæðir, þurfa þeir að lækka vexti hressilega. Fundurinn nú í ágúst er gott tækifæri til þess, en síðan eru fjórar vikur í næstu ákvörðun, og því mikilvægt að bregðast hratt við,“ segir hann og bætir því við að „miðað við þeirra eigin orð ættu þeir að geta lækkað vexti um 2,5 prósentustig.“ Hann hefur þó ekki mikla trú á því að það gerist í einum rykk.

Sér ekki fyrir sér nægilega lækkun

Við síðustu vaxtaákvörðun voru þrír nefndarmenn á því að lækka vexti um hálft prósentustig, einn vildi lækka þá um 0,25 prósentustig og annar um um 0,75. Gísli er bjartsýnn á að grundvöllur sé fyrir meiri lækkun en þeirri hálfs prósentustigs lækkun sem virðist vera orðin að vana hjá peningastefnunefnd. Hann telur þó ekki líklegt að ráðist verði í 2,5 prósentustiga lækkun, heldur sé líklegra að lækkunin verði um 1 prósentustig.

- Viðtal í Morgunblaðinu 29. júlí 2010.

Senda grein