Fréttir



„Það er alltaf rétti tíminn til að eiga ríkisskuldabréf“

17.6.2010 Skoðun

Í Morgunblaðinu í dag birtist viðtal við Valdimar Ármann þar sem fjallað er um skuldabréf og skuldabréfasjóði sem fjárfestingarkosti.

Það er alltaf rétti tíminn til að eiga ríkisskuldabréf

Hlutabréfamarkaðurinn var það sem heimurinn snerist um síðasta áratuginn eða svo. Raunar hafa hlutabréfin verið svo ráðandi að mætti stundum halda að almenningur hefði því sem næst gleymt hinum valkostunum: »Við ræddum þessi mál í fjölskylduboði í vetur og einn viðstaddra var hreinlega gáttaður þegar hann frétti að hægt væri að kaupa bréf útgefin af hinu opinbera, verðtryggð og með ríkisábyrgð,« segir Valdimar Ármann hagfræðingur hjá GAM Management hf. GAMMA er ungt fyrirtæki, búið að starfa í tvö ár og fékk starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða í mars 2009. En eins og Valdimar bendir á er fyrirtækið samt sennilega með eldri starfandi fjármálafyrirtækjum þegar litið er til aldurs kennitalna.

Aðstæður hafa breyst

Þegar leitað er að sparnaðarleiðum er algengast að rætt sé um þrjá aðalkosti: innlán, skuldabréf og hlutabréf. »Sögulega hafa innlánsvextir verið mjög háir hér á landi vegna hárra stýrivaxta, og á árunum 2005 til 2007 var í raun fátt sem gat skákað innlánunum sem voru jafnvel að bera allt upp undir 15% vexti á markaðsreikningum,« útskýrir Valdimar. „Núna hefur umhverfið hins vegar breyst töluvert, vaxtastigið komið vel niður fyrir 10% og vextir t.d. á venjulegum debetkortareikningum ekki nema fjórðungur úr prósenti.“ Innlán segir Valdimar m.a. hafa þann kost að vera tryggð að fullu skv. gildandi neyðarlögum. „Innlán teljast samt áhættusamari en skuldabréf t.d. út af kreditáhættu bankans, en að sama skapi eru innlánin alla jafna laus til úttektar og bankinn tryggir stöðuga ávöxtun.“

Hlutabréfum fylgir áhætta

Valdimar segir ekki marga valkosti í boði á innlendum hlutabréfamarkaði í dag og gjaldeyrishöft hamli fjárfestingum á erlendum mörkuðum. „Hlutabréf standa alltaf fyrir sínu sem áhættusamur fjárfestingarkostur, en það er einmitt það sem margir hafa lært af efnahagskreppunni að hlutabréfakaupum fylgir áhætta.“ 

Skuldabréf er sá kostur sem Valdimar telur ástæðu til að hampa í dag. „Þessi síðustu 5 eða 10 ár átti maður á hættu að vera hálfpartinn litinn hornauga fyrir að kaupa ríkisskuldabréf og allir einblíndu á hlutabréfin. Það sést hins vegar vel hvað ríkistryggð skuldabréf eru góður kostur því skv. skuldabréfavísitölu okkar, GAMMA: GBI, skiluðu þau um 50% ávöxtun yfir árin 2008 og 2009,“ segir hann. 

„Það er alltaf rétti tíminn til að eiga ríkisskuldabréf í eignasafninu sínu enda eru þau örugg og verja þá amk hluta eignasafnsins.“

Ókunnugleg hugtök

Valdimar fellst á það með blaðamanni að skuldabréfakaup geti virst svolítið torskilin fyrir óinnvígða. Hugtök eins og t.d. lokadagur og ávöxtunarkrafa, svo ekki sé minnst á öfugt samband ávöxtunarkröfu og verðs, geta flækst fyrir leikmönnum þó þau séu í sjálfu sér ekki torskilin þegar maður áttar sig á þeim á annað borð. Hlutabréfakaup hafi kannski virst auðskiljanlegri þar sem þarf ekki nema kaupa, selja og svo fá greiddan arð ef vel gekk: „En á móti kemur að skynsamleg hlutabréfakaup þýða að kafa þarf undir yfirborðið, kynna sér fyrirtækin á bak við bréfin, lesa ársreikninga og þekkja t.a.m. eiginfjárhlutfallið. Hlutabréfakaup eru því síst einfaldari en kaup á skuldabréfum.“

Að velja réttu leiðina

Einstaklingar hafa bæði þann möguleika að kaupa skuldabréfin sjálfir beint frá útgefanda eða fá sérfræðing hjá hæfum skuldabréfasjóði til að halda utan um eignasafnið: „Fólk þarf þó að kynna sér vel hvað sjóðirnir standa fyrir og hafa í huga þau markmið sem ráða eiga sparnaðinum. Aðili sem er t.d. að leggja fyrir til að eiga varasjóð fyrir eftirlaunaaldurinn myndi frekar velja lengri skuldabréf með lokadag um það leyti sem starfsævinni lýkur en öðrum hentar betur að kaupa styttri skuldabréf,“ segir hann. 

„Mjög áríðandi er að skoða fjárfestingarstefnu þeirra sjóða sem eru í boði, og að stefna þess sem verður fyrir valinu sé í samræmi við sett markmið fjárfestis. Einnig verður að vega og meta að það er kostnaður við kaup á skuldabréfum og þóknanir sem sjóðirnir taka og geta verið frá um 0,45% upp undir 2% á ári.“

Senda grein