Fréttir



Tálsýn Seðlabankans

26.3.2010 Skoðun

Í pistli GAMMA er fjallað um ræðu Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra sem hann flutti í gær á ársfundi Seðlabankans. Ýmislegt athyglivert kom þar fram en þó fátt sem svaraði þeirri gagnrýni sem við höfum haldið fram á stefnu Seðlabankans á síðustu misserum.

Við höfðum beðið spenntir eftir ræðu Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra sem hann flutti í gær á ársfundi Seðlabankans. Ýmislegt athyglivert kom þar fram en þó fátt sem svaraði þeirri gagnrýni sem við höfum haldið fram á stefnu Seðlabankans á síðustu misserum.

Már telur að gjaldeyrishöftin hafi gegnt mikilvægu hlutverki í þeim árangri sem hefur náðst (!) en við teljum að mun meiri árangur hefði náðst ef höftin hefðu verið nýtt betur þ.m.t. að vextir hefðu verið lækkaðir enn hraðar en gert var. Það er ekki endilega slæmt fyrir Ísland að búa við þau gjaldeyrishöft sem nú eru til staðar til skamms tíma a.m.k. en það er virkilega slæmt að vextir séu miðaðir við þá forsendu að þau verði afnumin innan mjög skamms tíma. Líklegt má telja að ef krónunni er fleytt í skjóli gjaldeyris(skulda)forða muni það valda mun fleiri glötuðum tækifærum þar sem erlendir langtímafjárfestar sjá sér ekki hag í að festa fjármagn sitt í landi þar sem búið er að dæma heimamyntina til dauða. Nær væri að leggja fyrst áherslu á að byggja upp hagkerfið innan frá með því mikla fjármagni sem er til staðar í stað þess að binda það í háum vöxtum í boði Seðlabankans.

Í framhaldinu var mjög áhugavert að heyra Seðlabankastjórann gera þá kenningu sem flestir seðlabankar heims vinna eftir dauða og ómerka með því að halda því fram að það sé „tálsýn að halda að umtalsverður viðsnúningur yrði í fjárfestingu væru vextir lækkaðir verulega“. Rétt er að vaxtastig er ekki það eina sem skiptir máli varðandi fjárfestingarákvarðanir en ekki seint má nú halda því fram að vaxtastig hafi ekki mikil áhrif. Framtíðarrekstrarumhverfi fyrirtækja er stórt atriði og miðað við hvernig stjórnvöld og Seðlabankinn haga sér, með því að skapa hér fullkomna óvissu um áform uppbyggingar í iðnaði, virkjunum og hvaða gjaldmiðil landið mun nota í framtíðinni, þá hamlar það mjög áhuga fyrir fjárfestingum hér á landi.

Næst kemur að enn einni þversögninni hjá Seðlabankanum þar sem haldið er fram að skertur aðgangur að erlendu lánsfé hamli fjárfestingu á Íslandi. Nokkru áður en Már heldur þessu fram þá rökstuddi hann að breyta þurfi skuldum í erlendri mynt í innlenda til að draga úr vægi gengistengdra þátta í innlendum efnahagsreikningum. Niðurstaðan er sem sagt sú að það þurfi að skuldbreyta erlendum lánum í innlend lán á sama tíma og lagt er til að tekin séu ný erlend lán. Við sjáum ekki alveg hvernig þetta muni hjálpa íslensku hagkerfi. Það sem væri hins vegar mun skynsamlegra er að hér verði tekin upp skilvirkari eigna og skuldastýring hjá fyrirtækjum og þá sérstaklega hjá opinberum aðilum þar sem það er mjög gagnrýnisvert að sveitarfélög og opinber fyrirtæki hafi stuðlað hér að ofþenslu með erlendum lántökum á meðan Seðlabankinn var að reyna að draga úr þenslu.

Fjallað er um „hátt áhættuálag í íslenskum vöxtum“ en athuga verður að það er Seðlabankinn sjálfur sem er að ákveða þetta háa „áhættuálag“ og að miklu leyti er það hátt vegna þess að það er verið að halda hér erlendum spákaupmönnum góðum. Þeir eiga um 300ma af íslenskum skammtímavöxtum í formi jöklabréfa, ríkisvíxla, ríkisbréfa og innlána og eru afleiðing hávaxtastefnu Seðlabankans undanfarin ár. Þessari hávaxtastefnu verður að vinda ofan af nú þegar og þeim sem vilja fara úr íslensku krónunni verður að vera það heimilt. Við höfum til að mynda stungið uppá gjaldeyrisuppboðum fyrir stærri fjárhæðir þar sem leiða má saman seljendur að íslensku krónunni sem vilja „komast út“ saman við þá kaupendur sem vilja „komast inn“.

Að lokum finnst okkur vanta í niðurstöðu Seðlabankastjóra hvaða þættir voru valdir að íslensku fjármálakreppunni. Útflutningur bankans á háum vöxtum með hávaxtastefnu sinni og ásókn hans í að fá hingað til lands ódýrt erlent lánsfé í formi vaxtamunaviðskipta sem leiddu til alltof mikillar styrkingar á íslensku krónunni var mjög stór þáttur í því að valda stórkostlegu ójafnvægi í íslensku hagkerfi sem gat ekki staðist til lengdar. Seðlabankinn virðist draga takmarkaðan lærdóm af framkvæmd peningastefnunnar á ofþenslutímanum og í aðdraganda fjármálakreppunnar, heldur virðist ætla að endurtaka söguna aftur þrátt fyrir að Már segi að það standi „einnig til að endurskoða peningastefnuna“. Spurning er hvort það þurfi virkilega að rifja upp hver hannaði peningastefnuna sem Seðlabankinn hefur verið að framfylgja?

Senda grein