Fréttir



Verðtrygging sem sjálfsaðhald ríkisstjórna.

21.5.2009 Skoðun

VERÐTRYGGING hefur verið við lýði lengi á Íslandi og nær líklega alveg aftur til 1955 en árið 1964 hóf ríkissjóður reglulega útgáfu á verðtryggðum ríkisbréfum. Því virðist oft vera haldið fram að verðtrygging sé séríslenskt fyrirbæri og er það að hluta til rétt.

Eftir Valdimar Ármann 

VERÐTRYGGING hefur verið við lýði lengi á Íslandi og nær líklega alveg aftur til 1955 en árið 1964 hóf ríkissjóður reglulega útgáfu á verðtryggðum ríkisbréfum. Því virðist oft vera haldið fram að verðtrygging sé séríslenskt fyrirbæri og er það að hluta til rétt. Ísland er um 10. stærsti útgefandi vestrænna ríkja á verðtryggðum bréfum ef talin eru með Íbúðalánasjóðsbréfin þar sem þau eru með ríkisábyrgð. Vestræn ríki hafa gefið út um $1,4trn af verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Lengsta sögu slíkrar útgáfu má finna í Ísrael, Bretlandi og Ástralíu en önnur ríki hafa bæst í hópinn eins og Bandaríkin, Frakkland, Svíþjóð, Þýskaland, Ítalía og Pólland. Verðtryggðar útgáfur höfðu tíðkast áður í hinum ýmsu nýmarkaðslöndum. Það var svo í kringum árið 1997 sem boltinn byrjaði raunverulega að rúlla þegar bandaríska ríkið, stærsti útgefandi í heimi á ríkistryggðum bréfum, byrjaði að gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf og hefur útgáfan vaxið þar alla tíð síðan og eru útistandandi bréf núna um $500 ma. sem er um 11% af útgáfu ríkisbréfa þeirra. Helstu ástæður að baki verðtryggðri útgáfu bandaríska fjármálaráðuneytisins voru:

  • Sjálfsagi fyrir ríkisstjórnina.
  • Væntingar um lægri heildarvaxtakostnað af raunvöxtum en nafnvöxtum.
  • Hvetja til sparnaðar meðal almennings með því að útvega fjárfestingarkost sem varinn er fyrir verðbólgu.
  • Raunvaxtabréf samhliða nafnvaxtabréfum gefa mikilvægar upplýsingar um verðbólguvæntingar fjárfesta.
  • Velgengni sambærilegrar útgáfu slíkra bréfa í Bretlandi, Kanada og Ástralíu.

Það er áhugavert að ástæður útgáfu verðtryggðra bréfa hafa breyst töluvert frá því að slík bréf voru fyrst gefin út í Suður-Ameríku og á Íslandi, þegar algjört vantraust fjárfesta og sparifjáreigenda á stjórnvöldum leiddi til þess að enginn vildi kaupa nafnvaxtabréf. Stjórnvöld höfðu nefnilega leikið þann leik að gefa út nafnvaxtabréf en prentað síðan peninga sem leiddi til aukinnar verðbólgu sem brenndi upp allan sparnað fjármagnseigenda en minnkaði skuldir ríkissjóðs. Það þurfti því tryggingu fyrir því að ríkið myndi ekki halda slíku áfram og góð leið til þess var að ábyrgjast að borga fjárfestum uppsafnaða verðbólgu ofan á vextina. Á síðari árum hafa vestræn ríki hins vegar ekki átt í neinum vandkvæðum með að gefa út óverðtryggð bréf en hafa samt sem áður valið að gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf og ástæðan er einfaldlega sú að kostirnir eru mun fleiri en gallarnir.

Fyrstu ástæðuna »Sjálfsagi fyrir ríkið« er vert að benda sérstaklega á sem þýðir að ríkið vill gefa sterkt merki til fjárfesta um að það veiti sjálfu sér aðhald með því að tengja vaxtakostnað sinn við verðbólgu. Á Íslandi er núverandi útgáfa verðtryggðra bréfa með öðrum hætti en áður hefur verið og allt öðruvísi samsett en erlendis. Ríkissjóður hefur síðasta áratuginn greitt upp skuldir sínar, með sérstakri áherslu á að greiða upp verðtryggðar skuldir, og hefur því ekki þurft að afla sér fjár með útgáfu ríkisbréfa sem er í sjálfu sér gott og blessað, fyrr en nú. En þar sem hér hefur af einhverjum ástæðum aldrei verið boðið upp á önnur langtímalán, eins og t.d. húsnæðislán, en verðtryggð lán þá sitja allir lántakendur uppi með »sjálfsaga« ríkisins nema ríkið sjálft. Þetta hefur því í raun leitt til þess að sjálfsaginn sem verðtryggðu bréfin eiga að veita ríkinu er ekki til staðar og er búið að velta honum yfir á almenna lántakendur sem sitja í súpunni ef verðbólgan fer úr böndunum.

Íslenska kerfið með verðtryggingu er þó um margt öfundsvert þar sem það virðist ganga án útgáfu frá ríkissjóði. Mörg erlend lífeyrissjóðskerfi reyna að keppa að því að komast á raunvaxtagrunn í stað nafnvaxtagrunns en oft er fátt um úrræði þar sem verðtryggðir fjárfestingarkostir eru af skornum skammti. Á Íslandi er í raun yngri kynslóðin að veita eldri kynslóðinni verðtryggingu með því að skulda verðtryggð húsnæðislán sem lífeyrissjóðirnir kaupa síðan, reyndar með ríkisábyrgð frá Íbúðalánasjóði. En á móti kemur að almenningur leggur mikið traust á ríkið og Seðlabanka Íslands að verðbólgu sé haldið í skefjum. Þetta traust hefur ítrekað brugðist með tilheyrandi háum vaxtakostnaði.

Verðtryggð lán eru alls ekki eitthvað sem á að útrýma heldur þarf að bjóða lántakendum upp á val svo þeir geti sjálfir valið hvort þeir treysti peningastefnunni á hverjum tíma eða ekki. Þar sem Íbúðalánasjóðskerfið er ríkisvætt þá ætti ekki að vera mikið mál að bjóða upp á nafnvaxtalán samhliða raunvaxtaláni. Það mundi einnig leiða til þeirrar áhugaverðu hliðarverkunar að markaðurinn gæfi réttara til kynna framtíðarvæntingar verðbólgu þar sem það verða bæði lántakendur og fjárfestar sem hafa val um vaxtagreiðsluform.

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1283905

Senda grein