FréttirSeðlabanki Íslands í hægfara vaxtalækkunarferli ... mjög hægfara ...

10.12.2009 Skoðun

Seðlabanki Íslands lækkaði alla vexti sína í morgun, en meira þarf ef duga skal

 

Pistill GAMMA sendur 10. desember 2009.

 

Seðlabanki Íslands í hægfara vaxtalækkunarferli ... mjög hægfara ...

Seðlabanki Íslands lækkaði alla vexti sína í morgun:

  • 0,5% lækkun á vöxtum viðskiptareikninga innlánsstofnana (depo), úr 9,0% í 8,5%,
  • 1,0% lækkun á vöxtum á lánum gegn veði til sjö daga (repo), úr 11% í 10% og
  • 0,5% lækkun á hámarksvöxtum innstæðubréfa, úr 10,25% í 9,75% og framvegis verður tilkynnt um fjárhæð útboðs daginn fyrir.

Þessar lækkanir voru um 0,25% meira en meirihluti markaðar hafði gert ráð fyrir og er jákvætt að Seðlabankinn sjái tækifæri til þess að lækka vexti þó betur megi ef duga skal. Stöðugt gengi krónu og hjaðnandi verðbólga (utan skatta) virðist vera forsenda fyrir áframhaldandi slökun á peningastefnu samkvæmt yfirlýsingu Seðlabankastjóra en það er samt einsog Seðlabankinn geri sér ekki grein fyrir að það tekur um 6-12 mánuði hið minnsta fyrir vaxtabreytingar að skila sér út í hagkerfið þannig að til að takast á við stöðuna í dag hefði þurft að gera ráðstafanir fyrir um 6-12 mánuðum síðan! Að auki vitnar Seðlabankinn sífellt í ársverðbólgu sem er nú 8,6% og spár gera ráð fyrir að nái 2,5% í byrjun árs 2011. Þannig er verið að stýra hagkerfinu með vöxtum sem hafa áhrif eftir 6-12 mánuði með því að líta aftur í tímann um 12 mánuði.

Markaðsaðilar tóku vel í ákvörðun bankans og hækkaðu skuldabréfavísitölur markaðarins í framhaldinu, GAMMAxi: Óverðtryggt hækkaði beint í framhaldi af ákvörðuninni um 0,6% en lækkaði síðan þegar á leið og hefur nú hækkað um 0,4% og heildarvísitalan GAMMA: GBI hækkaði um 0,55%.  HFF hraðlestin hélt áfram og hefur GAMMAi: Verðtryggt nú hækkað um 4,0% á einum mánuði og þar af um 3,0% frá 1. desember! Verðbólguvæntingar til þriggja ára hafa hækkað verulega undanfarnar 2 vikur og náðu hámarki í hátt í 5% í fyrradag, þ.e. markaðurinn gerir ráð fyrir u.þ.b. 5% meðalverðbólgu næstu þrjú árin (Seðlabankinn virðist ekki lengur horfa á verðbólguvæntinga á markaði eins og hann gerði áður við ákvörðun stýrivaxta). Það verður þó að taka tillit til þess að hækkunina má að mestu leyti rekja til lækkandi ávöxtunarkröfu á HFF 14 (Íbúðabréf með gjalddaga 2014) og þá þróun má líklega rekja til flutnings sparifjárs yfir í örugg bréf og virðist þetta bréf helst hafa orðið fyrir valinu.

Vaxtastigið í landinu almennt heldur áfram að lækka og útspil bankanna að bjóða fasta óverðtryggða vexti fyrir þá sem skipta úr erlendum lánum í innlend, eins og Arion Banki sem býður 6,0% fasta vexti í 3 ár sem er 1,34% lægra heldur en ávöxtunarkrafa á RB 13 (Ríkisbréf með gjalddaga 2013), leiðir til þess að Arion mun leitast við að halda innlánsvöxtum bankans lágum til að viðhalda vaxtamun. Það er því enn þrýstingur á lægra vaxtastig í landinu og útspil ríkisstjórnarinnar að tilkynna um nýtt frumvarp um innstæðutryggingar án þess að gera skilmerkilega grein fyrir því að það fæli ekki í sér breytingar á yfirlýsingu um fulla ábyrgð á innstæðum olli töluverðum flótta úr sparifé yfir í örugg bréf sem hefur valdið lækkandi ávöxtunarkröfu á markaði. Lausnir bankanna í skuldbreytingum eru líklega eitt það jákvæðasta sem sést á íslenska markaðnum – höfuðstóll lána lækkaður og breyttur í íslenskar krónur á föstum óverðtryggðum vöxtum sem leiðir í mörgum tilfellum til lækkunar á greiðslubyrði þar sem vaxtaálög bankanna á erlend lán eru oft á tíðum mjög há. Má leiða líkur að því að sum heimili hafi því meira á milli handanna í kjölfarið sem er jákvætt en stór hluti af því fer síðan því miður aftur í skattahækkanir.

Loks lítur út fyrir að Seðlabankinn hafi komið í veg fyrir að spilað sé á gjaldeyrishöftin, a.m.k. ef miðað er við gengi krónu á móti EUR á aflandsmarkaði (260/290). Það að hægt væri að „taka hringinn“ á „löglegan“ hátt hefur verið óviðunandi fyrir íslensku krónuna og hefur það sýnt sig að eftir að það hefur verið stöðvað þá hefur framboð af krónum á aflandsmarkaði minnkað umtalsvert. Það ætti vonandi að leiða til þess að Seðlabankinn þarf að styðja minna við krónuna og hún haldist stöðug þar sem hún er; veruleg styrking krónunnar er nú hins vegar ákaflega hæpin eins og staðan er í dag. Mark Flanagan hjá IMF gerir til að mynda sjálfur ekki ráð fyrir styrkingu krónunnar næstu 10 árin!  Einnig koma furðulegar fréttir um að Seðlabankinn bjóði núna uppá „bundnar gjaldeyrisinnstæður“ og samkvæmt síðasta efnahagsreikningi hans er staðan þar í lok nóvember 95ma en staðan á almennum „gjaldeyrisreikningum“  72ma, sem sagt samtals 167ma. Þannig að þrátt fyrir það sem talið var vera góðar fréttir að fyrirtæki og einstaklingar ættu hér fullt af gjaldeyri sem gæti hugsanlega einhvern tímann verið skipt yfir í krónur þá kemur í ljós að rúmlega helmingur af þessu er bundið í upp undir 6 mánuði og virðist vera í eigu gömlu bankanna og því litlar líkur á því að þessu verði nokkurn tímann skipt í íslenskar krónur. Athyglisvert er einnig að gjaldeyrisstaða banka í Seðlabankanum hefur aukist um 56ma frá áramótum (og krónan veikst um ca 10%) og aukist um 29ma frá október.

En við teljum að batnandi mönnum sé best að lifa og við óskum Seðlabankanum til hamingju með að vera loksins að sjá ljósið!

Senda grein