FréttirDulbúin vaxtahækkun Seðlabanka Íslands?

Pistill GAMMA

6.11.2009 Skoðun

Í pistli dagsins er fjallað um stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans síðan í gær. ,, Enn og aftur erum við gagnrýnir á það vaxtastig sem Seðlabankinn er að reyna að halda hér uppi og með ólíkindum er að heyra að á fundinum í gær kom fram að Seðlabankinn telji að samdráttur í einkaneyslu og vöxtur á atvinnuleysi hafi nú náð hámarki og nú fari að horfa til betri tíma?"

  

Dulbúin vaxtahækkun Seðlabanka Íslands?

Að hækka vexti eða lækka, það er efinn
 
Seðlabanki Íslands er ef til vill klókari stofnun en við héldum. Í gær tókst bankanum að raunverulega hækka vexti en taldi öllum trú um það að hann væri að lækka vexti. Enn og aftur erum við gagnrýnir á það vaxtastig sem Seðlabankinn er að reyna að halda hér uppi og með ólíkindum er að heyra að á fundinum í gær kom fram að Seðlabankinn telji að samdráttur í einkaneyslu og vöxtur á atvinnuleysi hafi nú náð hámarki og nú fari að horfa til betri tíma. Hvaða vaxtastig munum við horfa fram á þegar við náum þessum betri tímum og atvinnuleysi tekur að lækka ef að við þurfum að búa við 11% stýrivexti þegar allt hagkerfið er í kalda kolum?

Seðlabankinn viðurkennir einnig í tilkynningu sinni að þessi vaxtalækkun hans sé í raun „blöff“: „Vaxtaákvörðunin felur í sér nær óbreytt aðhald peningastefnunnar, eða lítils háttar slökun, eftir fjárhæð og vöxtum innstæðubréfa sem boðin verða út.“ Með því að hækka hámarksvexti á innstæðubréfum í  10,25% og auka heildarstærð þeirra í 130ma er óhjákvæmilegt að Seðlabankanum takist að soga til sín allt lausafé á markaði sem annars gæti ef til vill verið tiltækt til fjárfestinga sem gætu mögulega skapað einhverja framtíðar arðsemi hér á landi - við vitum allavega að okkur veitir ekki af auknu tekjustreymi í framtíðinni og það er augljóst að Seðlabankinn getur ekki búið til tekjur.

Með því að soga til sín lausafé og borga fyrir það himinháa vexti hækkar allt vaxtastig í kerfinu. Vextir Seðlabankans hafa ekki ráðið vaxtastigi landsins og er það að sjálfsögðu óviðunandi fyrir Seðlabanka að hann setji ekki sjálfur vaxtastigið. Núna með þessum aðgerðum færir hann vexti á markaði nær sínum þar sem millibankavextir hækka. Því hefur þróun millibankavaxta mun meiri áhrif en þróun almennra innlánskjara fyrir amenning. Þótt lækkun innlánsvaxta Seðlabanka muni að öllum líkindum lækka almenn innlánskjör bankanna munu millibankavextir án efa a.m.k .standa í stað og líklega hækka. Þannig að á sama hátt og menn horfðu fyrst til repo sem raunverulegs aðhaldsstig, síðan á innistæðuvexti, er hið raunverulega aðhald í dag líklega það sem mælist með millibankavöxtum - þótt veltan sé ekki mikil er það notað sem benchmark á langstærsta hluta lausafés í kerfinu (ástæðan er að millibankavextir voru komnir undir almenna innlánavexti fyrir stærri upphæðir, nú hefur það snúist við). Þetta er aðalástæðan fyrir því að það er líklega aukið aðhald framundan út af ráðstöfun seðlabankans!

En hvaða erlendu aðilar eru að fá vaxtagreiðslurnar? Oft á tíðum er það ekki sjálfur eigandi fjármagnsins (þ.e. þess sem á íslenskar krónur) sem fær vaxtagreiðslurnar heldur erlendur milliliður (oftast evrópskur banki). Þannig er líklegt að endaeigendur séu ekki að fá himinháa vexti fyrir að halda á íslenskum krónum heldur er vaxtamuni stungið í vasann af milliliðum. Það eru því oft á tíðum milliliðir sem geta tekið góðan vaxtamun vegna þessara himiniháu vexti. Vaxtalækkun mun því ekki endilega skila sér að fullu til endaeigenda heldur sem minni ,,arður“ fyrir milliliði. Þar af leiðir að eigendur íslenskra króna eru ekki að fá eins háa vexti og Seðlabankinn telur og er því verið að greiða þá til einskis og jafnvel frekar til vansa þar sem þessir háu vextir eru hvern einasta dag að auka framtíðarþrýsting á krónuna. Í ofanálag auka gjaldeyrishöftin þrýsting á krónuna með hverjum degi sem líður – hver vill ekki eiga það sem bannað er að eiga?  Má jafnvel leiða líkur að því að það séu ekki einungis erlendir aðilar með krónueignir (hinir svokölluðu jöklabréfaeigendur) sem þarf að hafa áhyggjur af heldur séu það Íslendingar sem bíði óþreyjufullir eftir að geta skipt krónum sínum í erlendan gjaldeyri.

Einnig er Seðlabankinn algjörleglega vanmáttugur í að koma í veg fyrir að spilað sé jafnmikið með höftin og raunin er. Þetta hefur nú verið gert samfleytt í 12 mánuði af inn- og útflytjendum, auk ,,braskara“ , sem hafa allir beitt aðferðum sem Seðlabankanum virðist fullkunnugt um en tekur ekki á. Ekki eitt einasta mál hefur komið upp þar sem sekt hefur verið beitt. Þetta er fyrsta og síðasta ástæðan fyrir veiku gengi krónunnar, ekki of lágir vextir, og það er enginn vafi að strangara eftirlit með höftum eða jafnvel engin höft ásamt mun lægri vöxtum, samfara mun lægra vaxtaútflæði til útlendinga, myndi veita íslensku hagkerfi og um leið krónunni meiri viðspyrnu en núverandi stefna.

Ef til vill er bjartasti punkturinn í yfirlýsingu Seðlabankans sá að þeir viðurkenna að: ,,Hætta sem efnahag einkageirans stafar af lágu gengi krónunnar kann einnig að vera einhverju minni en áður var talið...".  Það var þá von til þess að þeir hætti nú að beita vaxtastefnu sinni að því að halda uppi gengi krónunnar og fari að taka tillit til þess hvað þetta vaxtastig er að gera hagkerfi landsins.

Senda grein