Fréttir



Sama tegund lána ekki best fyrir alla

Viðtal Morgunblaðið

23.7.2009 Skoðun

Í viðtali við Morgunblaðið bendir Valdimar Ármann á að heppilegast sé á lánamarkaði að lántakar hafi val um verðtryggð eða óverðtryggð lán

 

Viðtal við Valdimar Ármann í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 23. júlí 2009

Sama tegund lána ekki best fyrir alla

*Íslendingar þurfa ekki evrunnar við til að afnema verðtryggingu *Sérfræðingur segir að heppilegast sé að bæði sé boðið upp á óverðtryggð og verðtryggð lán

 

Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is ÍSLENDINGUM er sjálfum í lófa lagið að afnema verðtryggingu á Íslandi, að sögn Valdimars Ármanns, sérfræðings hjá GAM Management.

ÍSLENDINGUM er sjálfum í lófa lagið að afnema verðtryggingu á Íslandi, að sögn Valdimars Ármanns, sérfræðings hjá GAM Management.

„Umræða um afnám verðtryggingar þarf hins vegar að vera skilgreindari og það þarf að vera á hreinu af hvaða hlutum er verið að ræða um að afnema verðtryggingu. Sjálfur vil ég t.a.m. sjá að boðið verði upp á óverðtryggð húsnæðislán samhliða verðtryggðum. Þegar því markmiði er náð væri hægt að segja að verðtrygging sé „afnumin“ af húsnæðislánum. Á móti á alls ekki að afnema verðtryggingarmarkmið lífeyrissjóðanna sem samkvæmt lögum hafa raunvaxtamarkmið.“

Tengist ekki evrunni

Segir hann að umræða um afnám verðtryggingar sé á villigötum, þegar rætt er um upptöku evru sem forsendu fyrir afnámi verðtryggingar.

„Við höfum sjálfstætt val í því hvaða vörur og þjónusta eru hér í boði og hvaða vörur og þjónusta eru keyptar. Þar af leiðandi má ekki bæta afnámi verðtryggingar við þá fáu kosti sem evran hefur. Form húsnæðislána á Íslandi og markmið sem við setjum lífeyrissjóðum okkar geta ekki á nokkurn hátt verið tengd því hvaða gjaldmiðill er notaður í landinu.“

Segir hann að verðtryggð og óverðtryggð lán eigi að geta lifað saman góðu lífi á markaði. „Það er ekki kostur að hafa annaðhvort verðtryggingu eða ekki verðtryggingu. Valið á að standa almenningi og fyrirtækjum til boða á markaðnum þar sem ólíkar skoðanir á verðlagningu og hagkvæmni munu leiða til þess að ekki munu allir velja það sama.“

Segir hann að kæmi til þess að Íbúðalánasjóður tæki að bjóða upp á óverðtryggð lán þyrfti hann á nánu samstarfi við Lánasýslu ríkisins að halda. „Ef margir byrja að taka óverðtryggð lán eða breyta sínum verðtryggðu lánum hjá Íbúðalánasjóði mun það leiða til minna framboðs á verðtryggðum skuldabréfum á skuldabréfamarkaði. Þá þarf Lánasýslan að koma inn og gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf til að halda jafnvægi á milli óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa.“

Senda grein