FréttirHægu en þó stöðugu vaxtalækkunarferli haldið áfram

27.1.2010 Skoðun

Seðlabanki Íslands hélt hinu hæga  en þó stöðuga vaxtalækkunarferli sínu áfram og lækkaði alla vexti sína um 0,5% í dag.

Seðlabanki Íslands hélt hinu hæga  en þó stöðuga vaxtalækkunarferli sínu áfram og lækkaði alla vexti sína um 0,5% í dag. Eru þá stýrivextir komnir í 9,5% og vextir á innlánsreikningum í 8,0%. Við erum sáttir við gagnsæi Seðlabankans – eftir verðbólgutölurnar í gær þá var ljóst að svigrúm til vaxtalækkana var til staðar og kom ákvörðunin því ekki á óvart.  Seðlabankinn er búinn að lýsa því yfir að skilyrði fyrir frekari vaxtalækkunum væru hjöðnun verðbólgu, stöðugleiki gengis ásamt því að efnahagsaðstoð AGS sé til staðar. Síðustu verðbólgutölur voru mun lægri en búist var við; ársverðbólgan er nú 6,57% eftir 0,31% verðhjöðnun í janúar og er þetta einungis í þriðja skiptið á síðustu þremur árum sem mánaðarverðbólga er neikvæð. Gengið hefur verið mjög stöðugt, svo vægt sé til orða tekið, og virðast gjaldeyrishöft halda vel núna. Tvö af skilyrðum til vaxtalækkunar voru því til staðar og Már staðfesti á fundinum að vaxtalækkunin hefði verið meiri ef Icesave deilan væri leyst og efnahagsaðstoð AGS og Norðurlandanna væri í föstum farvegi.

Það verður að segjast að verðbólgutölurnar í gær voru mjög óvæntar – loksins er húsnæðisliðurinn farinn að lækka og virðist vera að nálgast eðlilegt stig en makaskipti á fasteignamarkaði hafa búið til gervi-stöðugleika á markaðnum. Vísitala neysluverðs á fastskattagrunni lækkaði um 1,05% í janúar þannig að skattahækkanir og opinber gjöld vigtuðu þungt inn í vísitöluna. Eftirspurnin í hagkerfinu er greinilega mjög slök og hefur þurft háa afslætti á útsölum til að laða að kaupendur.

Ísland þarf lægri vexti - það er ljóst að í dag eru skammtímaraunvextir gífurlega háir á meðan atvinnuleysi er vaxandi, raunlaun halda áfram að lækka og mikill slaki er í eftirspurn. Lægra vaxtastig mun hjálpa heimilum og fyrirtækjum landsins að komast í gegnum kreppuna og á meðan gjaldeyrishöftin hamla erlendri fjárfestingu þá verður að koma innlendu fjármagni í fjárfestingar. Nú er ört verið að bjóða einstaklingum og jafnvel fyrirtækjum að skuldbreyta erlendum lánum í innlend óverðtryggð lán gegn því að höfuðstóllinn sé lækkaður.  Vextir Seðlabankans eru því farnir að hafa meiri áhrif í hagkerfinu en nokkurn tíma áður.

 

Senda grein