FréttirMörk á lækkun vaxta

14.1.2010 Skoðun

Líklega verður tregða við að raunvaxtastig á Íslandi fari undir 3,5% á meðan lagaumhverfi lífeyrissjóða er óbreytt.

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í morgun birtist stutt viðtal við Valdimar Ármann byggt á óbirtri grein um hvernig reglugerð 391/1998 (um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða) geti mögulega sett tregðu við raunvaxtastig á Íslandi við 3,5% þar sem lífeyrissjóðum er gert að afvaxta skuldbindingar sínar á þeirri ávöxtunarkröfu.  Spurningin sé hvort það sé ekki rétt að athuga þann möguleika að afvaxta skuldbindingar lífeyrissjóða miðað við það raunvaxtastig sem er á markaði, til samræmis við ýmsa erlenda uppgjörsstaðla. Þá verði í raun bæði eignir og skuldbindingar gerðar upp miðað við markaðsverð. Áhugavert væri að skapa meiri umræðu í kringum þetta mál og ekki hika við að hafa samband við undirritaðan með athugasemdir.

Mörk á lækkun vaxta

LÍKLEGA verður tregða við að raunvaxtastig á Íslandi fari undir 3,5% á meðan lagaumhverfi lífeyrissjóða er óbreytt. Á meðan alþjóðlegir uppgjörsstaðlar taka í auknum mæli mið af því að eignir og skuldbindingar séu metnar á markaðsvirði kveður reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á um að þeir séu gerðir upp á 3,5% raunávöxtunarkröfu. Valdimar Ármann, sérfræðingur hjá GAM Management, telur að þetta fyrirkomulag sé vandkvæðum bundið, sérstaklega við núverandi aðstæður.

Tapið læst inni

Hann segir að reglugerðin geri að verkum að lífeyrissjóðir séu tregir til þess að kaupa verðtryggð bréf með ávöxtunarkröfu sem er undir 3,5% - í raun og veru horfa sjóðsstjórar líklega til hærra viðmiðs þar sem þeir þurfa að taka tillit til kostnaðar og óvæntrar þróunar - og í ljósi umsvifa þeirra sé þar með komin ákveðin takmörkun á því hversu lágt raunvaxtastigið getur orðið. »Ef ávöxtunarkrafan er lægri en 3,5% er lífeyrissjóðurinn í rauninni að læsa inni tap, það er að tryggingastaða sjóðsins mun versna þar sem eignin mun ekki gefa þá ávöxtun sem þarf til að duga fyrir skuldbindingunni. Þetta gæti því orðið til þess að lífeyrissjóðirnir minnki kaup sín á raunvaxtabréfum sem hafa lægri ávöxtunarkröfu en 3,5% og jafnvel að sjóðurinn þurfi að vera áhættusæknari í öðrum fjárfestingum sínum til að vinna upp tryggingastöðuna eða að þeir einfaldlega hætti að kaupa verðtryggð bréf sem eru með lægri kröfu en 3,5%. Á meðan gjaldeyrishöft eru til staðar er svo sem ekki hægt að leita í margar fjárfestingar en þar sem lífeyrissjóðirnir eru stærstu kaupendur ríkisskuldabréfa á Íslandi er líklegt að þeir minnki kaup sín á þeim bréfum sem læsa inni tap fyrir þá, sem mun leiða til þess að krafa þeirra leitar þangað sem lífeyrissjóðirnir telja hagstætt. Það má því leiða rök að því að reglugerð 391/1998 setji lágmarks-raunvaxtastig á Íslandi nálægt 3,5%,« segir Valdimar.

Sérfræðingar hafa lengi fengist við þá spurningu hvernig eigi að gera upp lífeyrissjóði. Samkvæmt Valdimar hefur þróunin í alþjóðlegum uppgjörsstöðlum, s.s. í Bandaríkjunum og Bretlandi, verið í þá átt að miða við markaðsverð. En það getur verið flókið: markaðsvirði eigna liggur fyrir í flestum tilfellum en meginspurningin er hvernig eigi bókfæra skuldbindingarnar á markaðsvirði. Svarið við þeirri spurningu hefur verið í flestum tilfellum að styðjast við ávöxtunarkröfu á markaði og »afvaxta« svo skuldbindingarnar á sömu kröfu. Að sögn Valdimars er breskum lífeyrissjóðum gert að meta skuldbindingar sínar miðað við kröfu á fyrirtækjaskuldabréfum með lánshæfismat AA og er notast við »vaxtakúrfu«, þ.e. að stuttar skuldbindingar eru ekki metnar á sömu ávöxtunarkröfu og þær lengri. Þetta hefur síðan skapað fordæmi og er t.a.m. að berast til Bandaríkjanna og í alþjóðlega uppgjörsstaðla.

Álitlegt miðað við aðstæður

Aðspurður hvort þessi leið sé raunhæf á Íslandi þar sem ekki er hægt að styðjast við virka ávöxtunarkúrfu fyrirtækjabréfa segir Valdimar að hægt væri að styðjast við markaðskröfu íbúðabréfa eða jafnvel spariskírteini ríkissjóðs, myndi útgáfa þeirra aukast aftur: »Það væri hægt að notast við kröfu á íbúðabréfum til að meta skuldbindingar og þá er einnig búið að »læsa« inni stöðu lífeyrissjóðsins og ætti að hvetja hann til að fjárfesta í eignum sem eru sem líkastar skuldbindingum sínum. Ef lífeyrissjóður er t.a.m. með 20 ára skuldbindingu og kaupir 20 ára raunvaxtabréf og ávöxtunarkrafan breytist um 1% upp eða niður þá hefur það engin áhrif á tryggingastöðu sjóðsins.« Þessari útfærslu fylgir sá kostur að raunvaxtastig myndi ekki takmarkast eins og nú er. Að sama skapi myndaðist frekari hvati til annarra fjárfestinga til að ná umframávöxtun til þess að ná yfir rekstrarkostnað og óvænt atvik sem tillit þarf að taka til. Að sögn Valdimars ætti útfærsla á borð við þessa að vera sérstaklega álitleg miðað við núverandi aðstæður í hagkerfinu enda er bráðnauðsynlegt að ná vaxtastiginu niður til þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný.

Senda grein