FréttirNota vextina til þess að milda höggið

Viðtal

3.6.2019

Valdimar Ármann fjallar meðal annarra um breytingu á íslenska hagkerfinu sem leiðir t.d. til þess að hægt sé að nýta stýritæki Seðlabankans á mun árangursríkari hátt en áður. Þá sé upplagt tækifæri núna fyrir ríkið að nýta efnahagssamdráttinn til innviðaframkvæmda sem og að endurskoða kröfur og gjöld á bankakerfið til að vaxtalækkanir skili sér sem best til heimila og fyrirtækja.

Valdimar Ármann forstjóri GAMMA var í viðtali hjá Markaðnum í Fréttablaðinu þann 29. maí 2019 og má sjá hér fyrir neðan.

Nota vextina til þess að milda höggiðValdimar Ármann, CEO

Sú gjörbreyting sem hefur orðið á íslensku hagkerfi á síðustu árum, sem endurspeglast í viðvarandi viðskiptaafgangi við útlönd og umskiptum á erlendri stöðu þjóðarbúsins, gerir Seðlabanka Íslands kleift að bregðast við samdrætti í þjóðarbúskapnum með því að lækka vexti og milda þannig yfirstandandi niðursveiflu hagkerfisins. Hingað til hafa hagsveiflur hérlendis endað með gengisfalli og verðbólgu, líkt og gerðist til að mynda árin 2001 og 2008, en nú bendir fátt til annars en að lendingin verði mjúk.

„Nú er hægt að nýta stýritæki Seðlabankans – vextina – á mun árangursríkari hátt en áður,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management.

Valdimar bendir aðspurður á að allar forsendur standi til þess að vextir fari lækkandi hér á landi. Sparnaður hafi aukist mikið og þá sé þjóðin hægt og bítandi að eldast. „Það má kannski orða það þannig að við þurfum ekki á eins miklum vaxtamun við útlönd að halda og áður til þess að laða hingað fjármagn,“ segir Valdimar.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans frá því í liðinni viku var sérstaklega tekið fram að svigrúm peningastefnunnar til þess að mæta samdrætti í þjóðarbúskapnum – en í stað 1,8 prósenta hagvaxtar á þessu ári eins og gert var ráð fyrir í febrúar spáir bankinn nú 0,4 prósenta samdrætti – væri töluvert. Það ætti sérstaklega við ef verðbólga og verðbólguvæntingar héldust við 2,5 prósenta markmið bankans.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri bætti um betur á kynningarfundi í tilefni af vaxtalækkuninni og sagði að í kjölfar þess að skrifað var undir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í apríl og verðbólguvæntingar lækkuðu hefði svigrúmið aukist til þess að nýta peningastefnuna til þess að mæta efnahagssamdrættinum. „Svo verður bara að koma í ljós hvað það er sem nákvæmlega kemur,“ nefndi hann.

Valdimar bendir á að umbreyting hagkerfisins á síðustu árum hafi stuðlað að því að Ísland sé að færast nær öðrum ríkjum þegar komi að vaxtastiginu, þó svo að landið verði ekki lágvaxtaland á einni nóttu.

„Það er þessi gjörbreyting á hagkerfinu, sem er nú með jákvæða erlenda stöðu, sem gerir okkur kleift að takast á við samdrátt í hag­kerfinu á allt annan hátt en við höfum áður gert,“ segir hann og vísar til þess að Seðlabankinn geti nú, ólíkt því sem áður var, notað peninga­stefnuna til að milda höggið.

„Bankinn þarf þannig ekki að hafa áhyggjur af því að hann sé að veikja krónuna með því að lækka vexti, eins og stundum hefur verið raunin. Hagstjórnin verður eðlilegri, ef svo má segja,“ bætir Valdimar við.

Aðspurður segir Valdimar að kjarasamningarnir hafi auðveldað Seðlabankanum að lækka vexti. Góð lending í viðræðunum hafi skipt töluverðu máli.

„Það hafði mikla þýðingu að samið var um hóflegar launahækkanir sem eru ekki umfram það sem hagkerfið þolir. Vissulega koma launahækkanirnar harkalega niður á sumum fyrirtækjum, sér í lagi þeim sem eru á sama tíma að takast á við fækkun ferðamanna, en niðurstaðan fyrir heildina virðist hafa verið innan marka þess svigrúms sem er fyrir hendi þannig að Seðlabankinn getur stutt á móti með lækkun vaxta,“ segir hann.

Valdimar nefnir að ef vaxtalækkanirnar eigi að skila sér almennilega til heimila og fyrirtækja þurfi Seðlabankinn og stjórnvöld að skoða leiðir til þess að draga úr kostnaði bankakerfisins. Stífar eiginfjárkröfur og há opinber gjöld leiði til þess að bankarnir þurfi að vera með mikinn vaxtamun á innlánum og útlánum.

Tækifæri sé fyrir stjórnvöld til að minnka vaxtamuninn og stuðla þannig að lægri vöxtum.

Kjöraðstæður fyrir innviðafjárfestingar

Valdimar segir tilvalið fyrir ríkið, nú þegar hagkerfið sé farið að kólna og samdráttur víða, t.d. hjá framkvæmdafyrirtækjum í einkageiranum, að ráðast í aðkallandi innviðaframkvæmdir víðsvegar um landið. Ríkissjóður sé vel í stakk búinn til þess. „Ríkissjóður hefur nýtt uppsveifluna til þess að greiða niður uppsafnaðar skuldir og hefur þess vegna innistæðu fyrir því að ráðast loks í þessar brýnu framkvæmdir. Hagstjórnin, bæði á peningalegu hliðinni og ríkisfjármálahliðinni, hefur verið góð á síðustu árum – þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt Seðlabankinn fyrir að halda vöxtum of háum – og nú eigum við nóg inni til þess að koma hagkerfinu aftur af stað. Það mætti líka líta á þessar framkvæmdir, til dæmis í vegakerfinu, að sumu leyti sem fjárfestingu í áframhaldandi stuðningi við ferðaþjónustuna,“ segir Valdimar.

Viðtalið birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 29. maí 2019.


Senda grein