Nauðsynlegt að plana til framtíðar
Ísland er nú komið á þann stað að það þarf að fara að mynda sjálfbært jafnvægi og hugsa til framtíðar, segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi, í grein í sérriti Frjálsrar verslunar um 300 stærstu fyrirtæki landsins.
Staða Íslands er óumdeilt sterk og gjörólík fyrri efnahagsuppsveiflum enda byggist hún nú á styrkari grunni. Það þarf að hlúa að því sem byggt hefur verið upp undanfarin ár og fylgja áætlun til langs tíma.
Eðlilega spyr fólk sig hvort líkur á efnahagslegu áfalli aukist ekki þegar vel gengur og vísar til uppgangsáranna fyrir 2008. Þegar rýnt er stöðu hagkerfisins nú má sjá fátt líkt með árinu 2007 fyrir utan að hagvöxtur er kröftugur og atvinnuleysi lágt. Samanburðurinn sýnir að hagtölur eru mun heilbrigðari eins og lág verðbólga undir markmiði Seðlabankans, jákvæður viðskiptajöfnuður og erlend staða sem hefur sjaldan verið betri. Einnig má glöggt sjá að hagvöxturinn hefur ekki verið knúinn áfram af einkaneyslu og skuldsetningu þar sem skuldsetning bæði fyrirtækja og heimila er mun lægri og er rétt að byrja að aukast aftur.
Jafnframt er einkaneysla umtalsvert minni, en á móti á sér stað mun meiri þjóðhagslegur sparnaður í hagkerfinu. Hagvöxturinn nú er knúinn áfram af jákvæðum viðskiptakjörum og ótrúlegum vexti í ferðaþjónustu og til viðbótar hefur Seðlabankinn safnað um 600 milljörðum króna í óskuldsettan gjaldeyrisforða sem hægt er að útfæra sem varasjóð og nýta t.d. ef áfall yrði í einhverjum af útflutningsgreinum okkar svipað olíusjóði Norðmanna.
En þótt staðan sé sterk hefur ýmislegt setið á hakanum og ekki gefið að framhaldið verði viðlíka og verið hefur, þó að hagvöxtur verði hér áfram mjög kröftugur. Líklega þarf að fjárfesta umtalsvert í mannvirkjagerð, innviðum og íbúðahúsnæði, sem gætu verið leiðandi í hagvexti næstu árin.
Efnahagsþróunin á Íslandi hefur vakið mikla athygli á erlendum vettvangi en á sama tíma og höftum hefur verið aflétt af fjárfestingum Íslendinga erlendis þá eru enn höft og takmarkanir á fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Möguleiki á áhættudreifingu er mikilvægur og á við jafnt um fjárfestingar Íslendinga sem og fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi til að minnka staðbundna áhættu ef óvænt áföll eiga sér stað. Á sama tíma er spákaupmennska með krónuna óheimil þ.e. ekki er hægt að gera afleiðusamninga nema til áhættuvarna á kaupum og sölu á vörum, þjónustu og fjárfestingum. Það eru því umtalsvert meiri höft í kringum krónuna en áður.
Ísland er nú komið á þann stað að það þarf að fara að mynda sjálfbært jafnvægi og hugsa til framtíðar. Heilbrigð umgjörð efnahagslífsins, þar sem hvatt er til lengri tíma hugsunar, er besta tryggingin fyrir meiri stöðugleika og minni sveiflum. Það þarf að halda áfram að skipuleggja innviði og byggðina, takast á við breytingar sem fylgja aukinni ferðaþjónustu, stuðla að áhættudreifingu fjárfestinga samhliða því að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar gerir það að verkum að takast þarf á við enn fleiri áskoranir tímanlega. Það er komið að því að plana til framtíðar.
Greinin birtist upphaflega í sérriti Frjálsrar verslunar, 300 Stærstu, sem kom út í desember 2017.