FréttirReykjavíkurskákmótið - minningarmót um Bobby Fischer

5.3.2018 Samfélagsmál

GAMMA Reykjavíkurskákmótið – minningarmót um Bobby Fischer fer fram í Hörpu dagana 6.-14. mars.

RO2018_GD_300x600

Reykjavíkurskákmótið hefst á morgun í Hörpu. Um 250 keppendur eru skráðir til leiks,  samtals um 160 erlendir keppendur frá 35 löndum.  Stigahæstur keppenda er ungverki ofurstórmeistarinn Richard Rapport. Keppendalistinn samanstendur af áhugaverðum undrabörnum, sterkum skákkonum og svo áhugamönnum og öflugu heimavarnarliði.

Mótið stendur yfir 6.-14. mars. Umferðir hefjast yfirleitt kl. 15 og verða skákskýringar á skákstað í boði fyrir gesti og gangandi. Mótið núna er minningarmót um Bobby Fischer, sem hefði fagnað 75 ára afmæli 9. mars nk. væri hann á lífi. Þann dag verður haldið Fischer-slembiskákarmót í Hörpu sem jafnframt verður fyrsta Evrópumótið í slíkri skák.

Ofurstórmeistararnir

Tveir keppendanna falla undir það að teljast ofurstórmeistarar. Annars er það ungverski stórmeistarinn Richard Rapport (2715 elo stig) sem er aðeins 21 árs og einn skemmtilegasti skákmaður heims. Hinn er Úkraínumaðurinn Pavel Eljanov (2713 elo stig) sem hefur margsinnis teflt hér og var meðal sigurvegara á mótinu 2013.  Tólf skákmenn hafa meira en 2600 skákstig og svo búast má við harðri baráttu. 

Undrabörnin

Mótshaldarar Reykjavíkurskákmótsins hafa ávallt lagt sig fram að fá svokölluð undrabörn í skák á meðal keppenda. Þar munu þrír skákmenn vekja meiri athygli en aðrir. Indverjarnir Nihal Sarin (13 ára) og Ramesh Praggnanandhaa (12 ára) eru líklega einna efnilegustu skákmenn í heimi í dag og sá síðarnefndi hefur möguleika á að verða yngsti stórmeistari skáksögunnar á Reykjavíkurskákmótinu.  Auk þess kemur Nodirbek Abdusattorov frá Úsbekistan (13 ára) – sem nú er yngsti stórmeistari heims og sá næstyngsti í skáksögunni.

Skákkonurnar

Sterkar skákkonur koma t.d. frá Bandaríkjunum og Slóvakíu og má nefna Lauru Unuk, sem er tvöfaldur heimsmeistari stúlkna og mun án efa láta ljós sig sitt skína. Bandarísku landsliðskonurnar Sabina-Francesca Foisor og Tatev Abrahamyan er meðal annarra keppenda.

Heimavarnarliðið

Ríflega 80 íslenskir skákmann taka þátt eða 1/3 af mótinu. Meðal þeirra sem þar tefla eru Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson, Þröstur Þórhallsson og Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson.

IMG_4981

Slembiskákarfjöltefli í GAMMA

Skákveislunni var hins vegar þjófstartað í dag þegar indverska undrabarnið Nihal Sarin, einn efnilegasti skákmaður heims, tefldi Fischer-slembiskákarfjöltefli við 12 keppendur í höfuðstöðvum GAMMA, Garðastræti 37. Fischer-slembiskák er skák sem Bobby Fischer fann upp þegar honum þótt hin hefðbunda skák vera of fyrirsjáanleg. Sami manngangur er og í venjulegri skák en uppröðun mannanna er tilviljunarkennd og alls eru mögulegar upphafsstöður 960 talsins.

Tveir keppendur náðu jafntefli við Sarin, þau Guðlaug Þorsteinsdóttir, landsliðskona í skák og margfaldur Íslandsmeistari, og Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins. Öðrum keppendum var ekki gefið grið, en það vakti mikla athygli áhorfenda að í seinustu skákinni við Gunnar, kom upp staða þar sem Sarin hafði 2 riddara á móti kantpeði Gunnars, og gerði Sarin heiðarlega tilraun til að máta Gunnar, en slíkt er ákaflega erfitt í þannig stöðu.

Senda grein