Fréttir



Metsöluhöfundur og yfirlögfræðingur GAMMA Capital Management

30.12.2016 Skoðun

Ragnar Jónasson, yfirlögfræðingur GAMMA og metsöluhöfundur var í viðtali í nýjasta blaði Frjálsrar verslunar

Hann er mestöluhöfundur og yfirlögfræðingur GAMMA. Bækur Ragnars Jónassonar hafa nú verið seldar til fjórtán landa og ekkert lát er á vinsældum þeirra en á því rúma ári sem liðið er frá því að fyrsta bókin hans kom út í Bretlandi hafa til að mynda yfir fimmtíu þúsund eintök verið seld þar í landi, í kilju og rafbók. Ragnar nýtir frístundir í skriftirnar en hann er yfirlögfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA Capital Management sem hefur opnað skrifstofu í London og stefnt er að opnun skrifstofu í New York á næsta ári.


GO1011-2016-0012-2

Líklegra að ég taki mér hlé frá skriftunum en lögfræðinni."

Ragnar Jónsson er mestöluhöfundur og jafnframt yfirlögfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA Capital Management. Það er fróðleg tvenna. Þegar Tekjublaði Frjálsrar verslunar er flett sést að þar er hann settur í flokk listamanna en ekki lögfræðinga – og hann hefur trónað á toppnum á þeim lista á undanförnum árum. Ragnar skrifaði í haust undir samning hjá breska bókaforlaginu Penguin. Hann segir allar frístundir hans fari í skriftir og telur líklegt að komi að því að hann þurfi að velja á milli vegna anna sé líklegra að hann taki sér hlé frá skrifunum en lögfræðinni.

Ævintýrabækurnar og Fimm-bækurnar eftir Enid Blyton voru í uppáhaldi hjá Ragnari þegar hann var barn. Hann var aðeins ellefu ára þegar hann heillaðist af bókum eftir Agöthu Christie.

„Ég las allar bækurnar eftir hana sem ég komst yfir á bókasöfnum og sem til voru á íslensku. Ég fór stundum á Landsbókasafnið við Hverfisgötu um helgar og las þar gamlar þýðingar sem voru hvergi fáanlegar annars staðar. Ég byrjaði svo að lesa bækur eftir hana á ensku þegar ég var búinn að lesa allar þær bækur sem var búið að þýða yfir á íslensku.

Þetta leiddi til þess að ég fór að þýða bækur eftir Agöthu Christie. Mig vantaði sumarstarf sumarið sem ég varð sautján ára og fór til útgefanda Skjaldborgar, Björns Eiríkssonar, og á ég honum mikið að þakka. Hann gaf mér tækifæri. Ég var svo ungur þarna að ég var ekki einu sinni kominn með bílpróf þannig að mamma keyrði mig í Skjaldborg og ég spurði hvort þeir væru að leita að þýðanda fyrir næstu jól en ég hafði þýtt smásögur fyrir Vikuna. Björn hafði samband nokkrum dögum síðar sem kom mér mjög á óvart og bauð mér að velja bók til þýðingar. Ég valdi stystu bókina sem ég fann, hún hét Endless Nights og kom út undir nafninu Sígaunajörðin, en alls þýddi ég fjórtán bækur eftir Agöthu á næstu fimmtán árum eftir þetta.“

Ragnar stundaði nám við Verslunarskóla Íslands og hóf svo nám í lögfræði við Háskóla Íslands. Hann hélt svo áfram að þýða bækur eftir Agöthu eftir að hann hóf störf sem lögmaður.

„Það var áhugamál að þýða eina bók á ári. Þetta vannst jafnt og þétt yfir árið og var ágætis tilbreyting. Síðan leiddi þetta út í ritstörf.“

„Ég var svo ungur þarna að ég var ekki einu sinni kominn með bílpróf þannig að mamma keyrði mig í Skjaldborg og ég spurði hvort þeir væru að leita að þýðanda fyrir næstu jól en ég hafði þýtt smásögur fyrir Vikuna.“

Róleg byrjun

Ragnar segist hafa skrifað smásögur frá því hann man eftir sér.

„Ég skrifaði einhverjar glæpasögur þegar ég byrjaði að lesa bækur Agöthu. Þær gerðust í Bretlandi og voru í hennar stíl og voru nú hvergi birtar, bara skrifaðar í minnisbækur heima. Þegar smásögur eftir mig fóru síðar að birtast í tímaritum voru það ekki glæpasögur. Það var drama. Þær enduðu alltaf frekar illa.“

Bókaútgáfan Bjartur & Veröld auglýsti árið 2008 eftir handriti í samkeppni.
„Þeir voru að leita að hinum íslenska Dan Brown og þetta var um það leyti þegar bækur eftir hann voru mjög vinsælar. Þá var ég búinn að skrifa fyrstu kaflana í bók sem var ekki í stíl Dans Browns að neinu leyti. Konan mín hvatti mig þó til að klára þessa bók sem ég var byrjaður á og setja mér ákveðinn skilafrest sem var skilafrestur í þessari samkeppni. Ég kláraði bókina á einum vetri og sendi handritið inn þótt það hafi alls ekki verið í samræmi við reglur keppninnar því þetta var hefðbundin sakamálasaga en ekki þriller í anda Dans Browns.“
Enginn sigraði í keppninni. „Þeir fundu aldrei íslenskan Dan Brown.“

Ragnar og annar þátttakandi í keppninni fengu hins vegar útgáfusamning hjá Bjarti & Veröld og bók Ragnars, Fölsk nóta, var gefin út árið 2009 og seldist í nokkur hundruð eintökum.
„Þetta var mjög róleg byrjun.“

Ari og Hulda

Ragnar segir að Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld, hafi haft samband og spurt hvort hann vildi ekki skrifa framhald og gera úr bókinni seríu því það gæti verið sniðug hugmynd og þá sérstaklega þar sem áhugi var á bókinni erlendis þótt ekkert hafi orðið úr útgáfu erlendis á þeim tíma.

IMG_3919

Nýjasta bók Ragnars er Drungi. Hún segir frá vinahópi sem ákveður að verja helgi úti í Elliðaey árið 

„Þá ákvað ég að skrifa aðra bók og að tillögu Péturs nota sömu persónur til að búa til einhvers konar seríu. Ég hugsaði með mér að þetta þyrfti að vera trúverðugt; ef sami maður færi að lenda í einhverjum ævintýrum eða leysa einhver mál þyrfti hann að vinna fyrir lögregluna. Aðalpersónan í Falskri nótu var ungur og óviss strákur og í upphafi bókar númer tvö, Snjóblindu, útskrifast hann úr Lögregluskólanum og flytur til Siglufjarðar og það er hið raunverulega upphaf að seríunni.“

Snjóblinda seldist í um þúsund eintökum fyrstu jólin en hefur síðan selst í tugum þúsunda eintaka út um allan heim. Ragnar hefur skrifað sex bækur um Ara og þær fjórar síðari heita Myrknætti, Rof, Andköf og Náttblinda.

„Þegar bækurnar hafa verið að koma út erlendis höfum við aldrei selt þá fyrstu, Falska nótu, heldur Snjóblindu sem er hið eiginlega start og gerast þær bækur á Siglufirði og annars staðar á Norðurlandi og erlendis hefur syrpan fengið nafnið Dark Iceland, dimma Ísland.“ 

Faðir Ragnars er frá Siglufirði og dvaldi Ragnar þar mikið í fríum þannig að hann þekkir svæðið vel.

Nýjustu bækurnar eru Dimma og Drungi. Sú síðarnefnda er nýkomin út en hún segir frá vinahópi sem ákveður að verja helgi úti í Elliðaey árið 1997, að mestu sambandslaus við umheiminn, til að minnast þess að tíu ár eru liðin frá því að vinkona þeirra lést með voveiflegum hætti. Dimma var fyrsta bókin í nýrri seríu um lögreglukonuna Huldu.

„Sú sería gerist aftur á bak þannig að atburðirnir í Drunga gerðust áður en það sem fjallað er um í Dimmu.“

Salan á bókum Ragnars hefur aukist jafnt og þétt og segir hann að Dimma hafi verið prentuð í um sex þúsund eintökum og hafi selst vel en Dimma var meðal annars valin næstbesta skáldsaga ársins 2015 af bóksölum.

Raunverulegir staðir

Ragnar segir að við skriftirnar leggi hann áherslu á áhugaverðar persónur sem knýja söguna áfram.

„Sagan fjallar ekki aðeins um glæp heldur ekki síður um fólkið sem glæpurinn hefur áhrif á. Það eiga sér allir einhverja fortíð og umhverfið mótar menn og aðstæður og í sumum tilfellum er það einangrunin sem þar hefur mikil áhrif. Ég læt bækurnar oft gerast úti á landi á afskekktum stöðum en þá verður sögusviðið nánast að persónu í sögunni.

Svo er sögufléttan mikilvæg fyrir mig; Agatha Christie kenndi mér að fléttan þarf að ganga upp, hún verður að vera trúverðug en hún verður líka að vera óvænt. Maður verður að reyna að blekkja lesendur. Ég vil að ég loki hverri einustu bók með einhverju sem var ekki séð fyrir. Sagan þarf þó að vera trúverðug af því að við búum í samfélagi þar sem er ekki mikið um glæpi. Þetta þarf að vera eitthvað sem raunverulega gæti gerst en auðvitað þarf ég að krydda hlutina eitthvað.“

Ragnar nefnir næst sögusviðið og segir að fyrir sitt leyti finnist sér skemmtilegra að lesa bækur sem gerast á raunverulegum stöðum, helst stöðum með mikla sögu. Hann nefnir Siglufjörð, Kálfshamarsvík, Héðinsfjörð og Elliðaey, sem tengist nýjustu bókinni. „Elliðaey er afskekkt, ótrúlega falleg eyja með einu húsi. Ég vil líka gera einhvern karakter úr svæðinu.“

Erlendir lesendur hafa heimsótt staðina sem sögurnar gerast á og þess vegna er um ágæta Íslandskynningu að ræða."

„Við fengum t.d. hóp blaðamanna frá Frakklandi í vor sem fóru til Siglufjarðar og þeim þótti það vera frábært. Það snjóaði allan tímann sem mæltist mjög vel fyrir og þeir fengu þessa klassísku snjóblinduupplifun og ég veit af lesendum, t.d. frá Bretlandi, sem hafa gert sér ferð norður á Siglufjörð til að skoða sögusviðið.

GO3009-2016-0080

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er Ragnar í flokki listamanna en ekki lögfræðinga - og hefur trónað þar á toppnum í undanfarin ár.

Snjóblinda í Þýskalandi

Ísland var heiðursgestur á Bókamessunni í Frankfurt árið 2011 og þar var Snjóblinda kynnt en þótt einhverjir erlendis hefðu áður sýnt Falskri nótu áhuga varð ekkert úr þýðingu á henni.

„Það kviknaði áhugi hjá erlendum útgefendum að gefa út meira af íslenskum bókum vegna þess að Ísland var heiðursgestur á bókamessunni og sýndu nokkrir útgefendur áhuga á Snjóblindu. Hún þótti kannski vera heppileg til útflutnings – hún er mjög íslensk, mikill snjór í henni. Útgefandinn hjá Bjarti sá um að selja hana út og það var stórt forlag í Þýskalandi, Fischer, sem keypti hana og gaf bókina út og gekk salan vel en bókin seldist í um tíu þúsund eintökum. Fischer gaf síðan Myrknætti út tveimur árum síðar. Snjóblinda naut þess mjög að vera í deiglu Frankfurtar-hátíðarinnar og fékk mjög mikla umfjöllun og góða dóma. Umfjöllunin minnkaði þó árið eftir en nú er Ísland orðið afar vinsælt, komið í tísku, og maður nýtur þess.“

Boltinn fór að rúlla

Ragnar segir að ekkert hafi síðan gerst erlendis fyrr en árið 2014 en nú er hann með umboðsmenn í Danmörku og Bretlandi sem sjá um að koma bókunum á framfæri.

„Ég var búinn að sækja bókahátíðir í Bretlandi og Bandaríkjunum í nokkur ár til að kynna mig þótt bækurnar hafi bara verið til á íslensku og þýsku. Yrsa Sigurðardóttir, vinkona mín, hefur verið mjög hjálpsöm við að aðstoða mig við að komast áfram og kynna mig fyrir fólki og stöðum þar sem gagnlegt er að sjást. Ég fór að ráðum hennar og fór að mæta á hátíðir í Englandi, Skotlandi og Bandaríkjunum í tvö til þrjú ár. Það var alltaf áhugi á bókunum en það vantaði alltaf lokahnykk til að einhver keypti þær til útgáfu.“

Svo fór boltinn að rúlla þegar Ragnar var í fótbolta í Skotlandi árið 2014 með glæpasagnahöfundum frá Englandi gegn höfundum frá Skotlandi.

„Það var kona, Karen Sullivan, í liðinu okkar Englandsmegin sem ég hélt að væri rithöfundur. Við töpuðum mjög stórt en þetta var skemmtilegt. Við fórum að spjalla eftir leikinn og þá kom í ljós að hún er bókaútgefandi og hafði heyrt af bókunum mínum. Þarna kynntist hún mér persónulega sem skiptir öllu máli. Hún ákvað að kíkja aftur á bækurnar og hún gerði tilboð í tvær bækur viku síðar. Það vildi svo heppilega til að hún var að hætta hjá forlaginu og var að stofna sitt eigið, Orenda Books, og vildi byrja með mig sem einn af sínum fyrstu höfundum. Hún gaf síðan út Snjóblindu vorið 2015.“

Ragnar segir að salan hafi gengið lygilega vel en fyrstu tvær bækurnar í Bretlandi, Snjóblinda og Náttblinda, hafa selst í um fimmtíu þúsund eintökum þar í landi, í rafbók sem og kilju. „Snjóblinda fór í efsta sæti metsölulista Amazon yfir rafbækur fljótlega eftir að hún kom út, bæði í Bretlandi og Ástralíu, og salan gekk svo vel að Karen flýtti útgáfu á fleiri bókum í syrpunni til að halda áhuga lesenda og stemningunni fyrir bókunum þannig að næsta bók, Náttblinda, kom út um jólin 2015 og Myrknætti er nú nýkomin út; bækurnar eru gefnar út í annarri röð en hérna heima. Svo ætlar hún að gefa út Rof og Andköf á næsta ári.“

Ragnar segir að þetta hafi verið ótrúlegt ævintýri en stórblaðið Independent valdi Snjóblindu eina af bestu glæpasögum ársins 2015 fyrir jólin í fyrra og tvö ár í röð hefur Ragnari verið boðið að vera gestur á hinni virtu bókmenntahátíð í Edinborg auk þess sem hann hefur tekið þátt í fjölmörgum glæpasagnahátíðum á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum á þessu tímabili. „Við höfum fengið frábærar viðtökur og salan hefur verið góð.“ Gagnrýni um bækurnar hefur birst í stærstu blöðum á Englandi. „Ég hefði aldrei trúað að það yrði skrifað um bækurnar mínar í blöðum eins og Times, Sunday Express, Guardian og Independent.“

Sunday Express sagði um Náttblindu að bækur Ragnars hefðu „blásið nýju lífi í norrænu glæpasöguna“ og gagnrýnandi The Times sagði: „Breskir aðdáendur glæpasagna þekkja tvo frábæra íslenska rithöfunda, Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur. Hér kemur sá þriðji: Ragnar Jónasson.“
„Ég man hvað mér þótti það óraunverulegt þegar ég sá gagnrýnina í The Times, ég hefði seint trúað því fyrir nokkrum árum að bækur eftir mig ættu eftir að fá umfjöllun þar.“ 

Ég hefði aldrei trúað því að það yrði skrifað um bækurnar mínar í blöðum eins og Times, Sunday Express, Guardian og Independent."

Verðlaun og framhaldsþættir

Snjóblinda var þýdd á frönsku og kom út í Frakklandi í sumar og þar var notaður íslenskur titill, „Snjór“. „Þar seldust yfir tuttugu þúsund bækur og bókin náði fjórtánda sæti yfir mest seldu glæpasögur sumarsins í Frakklandi, og er svo væntanleg í kilju á næsta ári, og samhliða gefa þeir út Náttblindu á frönsku, næsta vor.“

Snjóblinda kemur út í Bandaríkjunum, Kanada og Japan í byrjun næsta árs, þýska útgáfan Fischer ætlar að hefja aftur útgáfu á bókum Ragnars í sumar og Snjóblinda verður einnig gefin út á Ítalíu á næsta ári. Bækur Ragnars hafa einnig komið út í Póllandi og Suður-Kóreu og eru væntanlegar frá forlögum í Tyrklandi, Armeníu og Marokkó. Í nóvember var einnig samið um útgáfu á tveimur bókum til viðbótar í Japan sem og útgáfu á tveimur bókum í Portúgal.

Hvað með söluna í þessum löndum? „Ég hef ekki töluna í kollinum. Þetta gerist svo hratt að ég hef ekki allar tölur alls staðar frá.“

Ragnar fékk í sumar verðlaun í Englandi fyrir Náttblindu. „Bókin var valin besta þýdda glæpasaga ársins á bókmenntahátíð í Harrogate og hreppti þar hin svokölluðu Dead Good Reader-verðlaun í flokki þýddra glæpasagna. Ég bjóst ekki við að við myndum hreppa þetta því sterkir keppinautar voru líka tilnefndir. Það var þvílíkur meðbyr að fá verðlaunin. Það var mjög ánægjulegt.“

Breska fyrirtækið On the Corner keypti kvikmyndaréttinn að Snjóblindu-syrpunni í vor. „Þeir framleiddu m.a. myndina Amy, um Amy Winehouse, sem fékk Óskarinn í vor sem besta heimildarmyndin. Þeir óskuðu eftir því að heyra í mér um hvort þeir mættu kaupa seríuna um Ara og er hugmynd þeirra að gera framhaldsþætti byggða á henni á ensku. Ég vona að þættirnir verði teknir upp á Íslandi. Hugmyndin er að ná kjarnanum í þessum sögum, smábæjarstemningunni og innilokuninni. Ég mun ekki skrifa handritið og ég myndi ekki vilja gera það því það er svo sérhæft. Þeir eru með atvinnumenn í því.“

Penguin

Ragnar skrifaði í haust undir samning hjá breska bókaforlaginu Penguin.
„Forlagið Michael Joseph, sem er undir Penguin-samsteypunni, keypti Huldu-seríuna og það er mjög spennandi skref. Þetta er mjög stórt forlag og þeir hafa mikla trú á þessum bókum og ætla að gefa út fyrstu bókina, Dimmu, árið 2018.“

Ragnar segist vera mjög stoltur yfir þessum samningi.
„Persónulega er þetta ótrúleg upplifun en faglega skiptir það máli að fá svona stórt forlag á bak við bækurnar í Englandi. Orenda Books, sem er tiltölulega lítið forlag, hefur gert afskaplega góða hluti með Siglufjarðarsyrpuna og það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig til tekst hjá svona stóru forlagi. Þetta snýst svo mikið um að koma bókunum á framfæri, markaðssetninguna og að ná til lesenda.“

GAMMA Capital Management

Ragnar skrifar bækurnar í frístundum en hann er í fullri vinnu sem yfirlögfræðingur hjá GAMMA Capital Management sem er fjármálafyrirtæki með starfsemi á Íslandi og London. Hér á landi er félagið með rúmlega hundrað milljarða króna í stýringu fyrir lífeyrissjóði, tryggingarfélög, innlendar og erlendar bankastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í gegnum verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði.

„GAMMA hefur jafnframt sinnt ráðgjöf fyrir innlenda sem erlenda aðila, meðal annars íslensk stjórnvöld, skráð fyrirtæki, Landsvirkjun og HS Orku. GAMMA hefur til dæmis gefið út skýrslur um auðlindagarðinn á Reykjanesi og sæstreng á milli Íslands og Bretlands. Nú á dögunum kom út ný skýrsla frá GAMMA um þörf á innviðafjárfestingum á Íslandi. Þar kemur fram að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum hér á landi nemi um tvö hundruð og þrjátíu milljörðum íslenskra króna. Mat GAMMA er að á næstu sjö til tíu árum þurfi að fjárfesta í innviðum hér á landi fyrir hátt í sex hundruð milljarða króna.“

Gisli-Hauksson-13

Skrifstofa GAMMA í London er við Upper Brook Street. GAMMA hóf starfsemi í London 2015, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. Nýlega tilkynnti félagið að hinn alþjóðlegi og sérhæfði fjárfestingarsjóður GAMMA Capital Management hefði fengið staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu og hafið starfsemi. GAMMA er í öðrum vexti og eignum í stýringu hefur fjölgað mikið

Alþjóðlegur fjárfestingarsjóður

GAMMA hóf starfsemi í London 2015, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja eftir tilkynningu um fyrirhugað afnám hafta, og í ágúst fékk GAMMA Capital Management Limited í London sjálfstætt starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu, FCA, og flutti samhliða starfsemi sína í nýtt húsnæði í Mayfair-hverfinu í London. Síðustu misseri hefur GAMMA skoðað og undirbúið fjárfestingartækifæri erlendis fyrir viðskiptavini sína, einkum í Bretlandi, og hefur að auki kynnt erlendum viðskiptavinum og fjárfestum tækifæri til fjárfestinga á Íslandi.

„GAMMA tilkynnti í nóvember stofnun á nýjum sérhæfðum alþjóðlegum fjárfestingarsjóði, GAMMA Global Invest, sem verður skráður í evrum og hefur heimild til fjárfestinga erlendis, í samræmi við nýsamþykkt lög um afnám gjaldeyrishafta, en íslenskir fjárfestar geta nýtt erlendar fjárfestingarheimildir sínar samkvæmt þeim lögum til fjárfestinga í sjóðnum. Sjóðurinn er opinn almennum fjárfestum og stofnanafjárfestum og fjárfestir í erlendum verðbréfasjóðum (UCITS) og sérhæfðum sjóðum (AIF) þar sem undirliggjandi eignir geta meðal annars verið hlutabréf, skuldabréf, fasteignir og sérhæfðar fjárfestingar. Auk þess hefur sjóðurinn heimild til beinna fjárfestinga, m.a. í erlendum hlutabréfum og skuldabréfum. Undirbúningur að starfsemi sjóðsins hefur staðið yfir í tvö ár og hefur GAMMA á því tímabili stofnað til samstarfs við fjölmarga öfluga erlenda banka og sjóðastýringarfyrirtæki, á borð við PIMCO og GAM, til þess að tryggja aðgang sjóðsfélaga í GAMMA Global Invest að fjölþættum fjárfestingartækifærum og eignadreifingu.“

Þá hefur GAMMA í London sett á fót tvo alþjóðlega sjóði, Iceland Macro Fund og Iceland Opportunity Fund, sem skráðir eru á Írlandi en fjárfesta á Íslandi og eru undir eftirliti írska seðlabankans. „Sjóðirnir eru hugsaðir fyrir erlenda aðila sem hafa áhuga á fjárfestingum á Íslandi og geta fjárfestar valið um hvort þeir fjárfesta í evrum eða Bandaríkjadölum.“

Síðustu misseri hefur GAMMA skoðað og undirbúið fjárfestingartækifæri erlendis fyrir viðskiptavini sína, einkum í Bretlandi, og hefur að auki kynnt erlendum viðskiptavinum og fjárfestum tækifæri til fjárfestinga á Íslandi."

Samfélagsleg ábyrgð

GAMMA hefur lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og skrifaði nýverið undir samning við Sinfóníuhljómsveit Íslands um að halda áfram sem aðalstyrktaraðili hljómsveitarinnar, til ársins 2020, en við lok þess tíma hefur GAMMA verið styrktaraðili Sinfóníuhljómsveitarinnar í tæpan áratug.

„Samningur við Sinfóníuhljómsveit Íslands er hluti af stefnu GAMMA að styðja verkefni sem efla skapandi hugsun og fjölbreytt menningarstarf. Ásamt því að reka Gallery GAMMA, sem opið er almenningi, styður fyrirtækið Hið íslenska bókmentafélag, Listahátíð í Reykjavík og Reykjavík Midsummer Music-tónlistarhátíðina. Þá er GAMMA aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins og hefur unnið að því að efla áhuga ungs fólks á skáklistinni.“

Í örum vexti

Ragnar segir að starf yfirlögfræðings hjá GAMMA sé afar fjölbreytt og óhætt að segja að engir tveir dagar séu eins.

„Félagið er í örum vexti og eignir í stýringu hafa aukist mikið á þessu ári. Á undanförnum mánuðum hefur mikill tími farið í uppbyggingu starfseminnar í Bretlandi og verkefnin unnin jöfnum höndum í London og í Reykjavík og nú hefur raunar verið ákveðið að opna jafnframt skrifstofu í New York á nýju ári.“

Ragnar segir að það henti ágætlega að GAMMA sé með skrifstofu í London þar sem hann þarf oft að fara þangað vegna bókanna og því geti hann slegið tvær flugur í einu höggi í ferðunum.

„Mér finnst frábært að vinna hjá GAMMA sem er draumavinnustaður. Það er mikið ævintýri að vinna hérna og það er aldrei dauð stund. Vinnufélagar eru frábærir og félagið hefur sterka framtíðarsýn.“

Ragnar segir að það væri gott ef hann gæti haldið áfram að vinna sem yfirlögfræðingur hjá GAMMA og skrifað í frístundum.

„Gallinn er auðvitað sá að það fer mikið af frídögunum í þessi skrif en þetta er mikið hjartans mál fyrir mér svo maður þarf að finna eitthvert jafnvægi og best er þegar hægt er að taka fjölskylduna með á bókmenntahátíðir til að vera ekki í fríi án hennar. Auðvitað er þetta mikil vinna og það kemur kannski að því að maður taki sér hlé frá skrifunum. Ég held að það væri líklegra en að ég tæki mér frí frá lögfræðinni.“

- Viðtalið birtist í 10unda tölublaði Frjálsrar verslunar 2016.
Texti: Svava Jónsdóttir 
Myndir: Geir Ólafsson og fleiri

Senda grein