Fréttir  • Valdimar Ármann, CEO
    Valdimar Ármann, CEO GAMMA Capital Management

Markaðurinn: Hátt vægi innlendra eigna áhættusamt

25.1.2018 Skoðun

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi, segir að nú sé prýðilegur tími til að auka við erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna. 

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál, fjallaði í gær um erlendar eignir íslensku lífeyrissjóðanna. Í umfjöllun Markaðarins var vísað í greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem fram kom að heildareignir sjóðanna hafa á árunum 2006-2016 hækkað úr 126% í 145% af vergri landsframleiðslu en á sama tíma hafa innlendar eignir sjóðanna hækkað úr 89% af vergri landsframleiðslu í 114%. 

FBL---Umfjollun-um-lifeyrissjodi---kvot-i-ValdimarÍ umfjöllun blaðsins kom fram að ef lífeyrissjóðirnir auka ekki vægi erlendra eigna í eignasöfnum sínum munu þeir eiga rétt rúman helming allra eigna hér á landi árið 2060. Er þá miðað við að eignir sjóðanna ávaxtist um 3,5 prósent að raungildi á ári. Lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar um þriðjung allra eigna á landinu. 

Rætt var við Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, Sigurð Jóhannesson, forstöðumann Hagfræðistofnunar HÍ og Valdimar Ármann, forstjóra GAMMA Capital Management á Íslandi. 

Valdimar sagði í samtali við Markaðinn að nú sé prýðilegur tími til þess að auka við erlendar fjárfestingar. Gengi krónunnar hafi styrkst umtalsvert, raungengi sé hátt og kaupmáttur erlendis því umtalsverður. 

„Það er gott að nýta tækifærið til þess að auka fjárfestingar erlendis á þeim tíma þegar gjaldeyrisinnflæðið í landið er jákvætt og staðan er góð,“ sagði Valdimar.

„Það er ljóst að ábati af áhættudreifingu er umtalsverður og stór hluti af þeirri dreifingu er að fjárfesta í eignum utan heimalands.“ 

FBL---Umfjollun-um-lifeyrissjodi---kvot-i-Valdimar2Þá benti Valdimar á að ef Íslandi yrði fyrir áfalli, til dæmis í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu, væri mikilvægt að fyrir hendi séu eignir sem muni ekki verða fyrir áhrifum af þeim sökum. 

„Aukinheldur gefur það augaleið að íslenski markaðurinn býður alls ekki upp á aðgengi að nógu fjölbreyttum fjárfestingarkostum, til dæmis í ýmiss konar iðnaði og tæknifyrirtækjum sem og fyrirtækjaskuldabréfum. Erlendar fjárfestingar minnka því staðbundna áhættu í eignasöfnum,“ sagði Valdimar. 

Um það hversu hátt hlutfall erlendra eigna af heildareignum sjóðanna ætti að vera sagði Valdimar að stundum hefði því verið haldið á lofti að hlutfallið ætti að vera um 40% þar sem neyslukarfan okkar sé um 40 prósent innflutt, en það mætti þó rökstyðja jafnvel enn hærra hlutfall. 

„Ókosturinn við hærra hlutfall er að þá fara sveiflur í gengi krónunnar að hafa óæskileg áhrif á virði sjóðanna og mögulega tryggingafræðilega stöðu og því gæti verið skynsamlegt að verjast þeim sveiflum að einhverju leyti,“ sagði Valdimar.

Sjá má umfjöllun Markaðarins í heild sinni á Vísir.is

- Fréttin byggist á umfjöllun Markaðarins sem birt var þann 24. janúar 2018.

Senda grein