Fréttir



  • AR-170209065
    Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA

Markaðurinn hafði að lokum rétt fyrir sér

28.2.2018 Skoðun

 

Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA Capital Management, segir í Markaðnum að engum blöðum um það að fletta að innflæðishöftin hafi gert það að verkum að erfitt reynist fyrir fyrirtæki að leita fjármögnunar á skuldabréfamarkaði.

 

Screen-Shot-2018-02-28-at-14.46.53

„Fjármagn til fyrirtækja á markaðinum er af mjög skornum skammti og vaxtaálög hafa rokið upp. Þrátt fyrir talsverða lækkun ríkistryggðra raunvaxta og nokkra lækkun stýrivaxta hafa fastir vextir til fyrirtækja á skuldabréfamarkaði og fastir verðtryggðir íbúðalánavextir í bankakerfinu staðið í stað. Sem dæmi hefur fjármögnunarkostnaður fasteignafélaga, sem eru langstærstu útgefendur fyrirtækjaskuldabréfa hérlendis, hlutfallslega hækkað verulega.“

Hann segir skortinn á fjármagni til fyrirtækja endurspeglast meðal annars í lítilli fjárfestingu í atvinnulífinu. Fjárfestingar hins opinbera og í íbúðarhúsnæði hafi tekið við sér en fyrirtæki haldi hins vegar að sér höndum.

Þá sé svigrúm innlendra fjárfesta, sér í lagi lífeyrissjóða, til þess að bæta við sig innlendum markaðsskuldabréfum afar takmarkað.

„Á sama tíma og erlendum skuldabréfafjárfestum og öðrum lánveitendum er haldið frá landinu hefur afnám útflæðishafta og stóraukin sjóðsfélagalán lífeyrissjóða dregið mjög úr getu innlendra fjárfesta til þess að fjármagna heimili og fyrirtæki hér á landi. Á sama tíma hafa bankarnir verið nokkuð íhaldssamir í lánveitingum svo að mörg fyrirtæki hreinlega fá enga fjármögnun.“

Agnar Tómas segir réttlætingu Seðlabankans fyrir höftunum, um að erlendir fjárfestar hafi verið að trufla miðlun peningastefnunnar, vera heimatilbúna skýringu sem standist ekki skoðun. „Áður en höftin voru sett var velta erlendra fjárfesta mjög lítil eða að meðaltali um 3,1 prósent af heildarveltu á ríkisskuldabréfamarkaði. Þá var Seðlabankinn einnig ósammála markaðinum um að verðbólguálagið myndi lækka og spáði kerfisbundið aukinni verðbólgu. Markaðurinn hafði að lokum rétt fyrir sér. Einnig má benda á að gjaldeyriskaup Seðlabankans voru margfalt umfangsmeiri en innflæði erlendra fjárfesta sem rekja mátti til vaxtamunarviðskipta og var slíkt innflæði erlendis frá því á engan hátt meginskýringin á því að krónan styrktist.“

Hann gagnrýnir að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að höftin voru sett hafi Seðlabankinn ekki séð ástæðu til þess að breyta útfærslu þeirra. „Það hefur engu verið breytt. Enn útiloka höftin að langmestu leyti fjárfestingar erlendra fjárfesta í skuldabréfum án tillits til tímalengdar, seljanleika eða eðlis fjárfestinganna. Af hverju er til dæmis ekki gerður greinarmunur á því hvort bréfin eru til langs eða skamms tíma eða hvort um sé að ræða bankavíxla, ríkisskuldabréf eða illseljanleg fyrirtækjaskuldabréf? Stíf útfærsla Seðlabankans gerir engan greinarmun á raunverulegum „vaxtamunarviðskiptum“, sem eru venjulega hugsuð til frekar skamms tíma í vel seljanlegum skuldabréfum, kaupendum langra markaðsskuldabréfa eða þolinmóðum fjárfestum sem vilja til dæmis fjármagna langtímaverkefni hér á landi. Á sama tíma geta erlendir fjárfestar fjárfest óbundið í skráðum sem óskráðum hlutabréfum og selt þau að vild.

Mér finnst þessi tregða embættismanna í Seðlabankanum til þess að breyta reglunum og laga útfærslu þeirra, sem er augljóslega illa ígrunduð, sýna fullkomið ábyrgðarleysi af þeirra hálfu. Þeir virðast ekki hafa neinn áhuga á því að laga reglurnar í kringum innflæðishöftin að þörfum efnahagslífsins.“

 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins þann 28. febrúar 2018 og hægt er að lesa fréttina í heild sinni hér

 

Senda grein