FréttirKaldalón skráð á First North

Frétt

2.9.2019

Jónas Þorvaldsson framkvæmdastjóri Kaldalóns var í viðtali við Viðskiptablaðið vegna skráningar félagsins á First North. Kaldalón er fasteignaþróunarfélag sem sérhæfir sig í byggingu íbúðarhúsnæðis og verður með gegnum gangandi verkefnaflæði og 5-7 verkefni í gangi á hverjum tíma.

Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón var skráð á Nasdaq First North Iceland þann 30. ágúst 2019. GAMMA sér um stýringu og umsýslu á Kaldalóni en það sérhæfir sig í byggingu íbúðarhúsnæðis og hefur yfir að ráða einstöku safni lóða á mjög góðum staðsetningum á höfuðborgarsvæðinu. Skráningin veitir félaginu aukinn sýnileika og skapar fjárfestum seljanleika, sem kemur til með að styðja við markmið um að byggja hagkvæmar íbúðir sem henta almenningi.

Hér er greinin sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 29. ágúst 2019 ásamt mynd sem fylgdi fréttinni.

JonasGreint var frá því í gær [þ.e. 28. ágúst] að fasteignaþróunarfélagið Kaldalón yrði skráð á First North markað kauphallarinnar á morgun. Kaldalón verður þar með fimmta félagið sem skráð er á markaðinn en skráningin hefur legið í loftinu frá því í júní þegar tillaga þess efnis var samþykkt á aðalfundi. Félagið skilaði 388 milljóna króna hagnaði á síðasta ári en hlutafé félagins verður við skráningu rúmlega 3,6 milljarðar króna en verðmæti byggingalóða og verkefna í eigu félagsins er nú um 5,4 milljarðar króna.

Kaldalón er ungt félag, stofnað árið 2017, og felst sérhæfing félagsins í byggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis. Félagið hefur fjárfest í lóðum á sjö stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir um 900 íbúðum. Þessu til viðbótar á félagið helmingshlut í steypustöðinni Steinsteypan auk þess sem gerður hefur verið samstarfssamningur við ítalska verktakann Rizzani De Eccher en það fyrirtæki er með starfsemi í yfir 100 löndum. Félagið var stofnað innan Kviku banka en er að mestu í eigu einkafjárfesta. Kvika fer þó með tæplega 10% hlut í félaginu og hefur Kaldalón frá upphafi verið með eignastýringarsamning við Kviku en sá samningur heyrir nú undir GAMMA eftir skipulagsbreytingar í kjölfar kaupa Kviku á GAMMA.

Fyrsta sinnar tegundar á markaði

Jónas Þór Þorvaldsson var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í júní síðastliðnum. Hann segir að skráningunni sé ætlað að skapa markað fyrir hlutabréf félagsins auk þess sem upplýsingaskylda vegna skráningarinnar ætti auðvelda fjármögnun. „Þó við séum ekki að gefa út nýtt hlutafé þá viljum við fá markaðsgengi á hluti í félaginu. Skráningin felur líka í sér að félagið þarf að uppfylla upplýsingaskyldu sem mögulegir kaupendur á skuldabréfum gætu séð sér mikinn hag í að sé fyrir hendi og ætti að auðvelda fjármögnun á okkar verkefnum.

Þá ætti skráningin að gera það að verkum að litlir og meðalstórir aðilar sem eru í ýmsum þróunarverkefnum munu horfa á okkur öðrum augum sem samstarfsfélaga þar sem þeir sjá mögulega hag sinn í því að fá bréf í félaginu gegn því að vinna í uppbyggingarverkefnum með okkur.

Við horfum einnig til lífeyrissjóða og almennra fjárfesta, þá sérstaklega þeirra sem hafa haft áhuga á að fjárfesta í fasteignaþróunarverkefnum en hafa ekki getað fundið því farveg þar sem flest þeirra verkefna hafa verið í sjóðaformi. Þar er fjárfestirinn lokaður inni í dálítið langan tíma og er þá í millitíðinni að einhverju leyti háður innra verðmati heldur en sanngjarnari mynd af markaðsverðmæti. Ég held því að þetta muni því líta allt öðruvísi við sem fjárfestingakostur fyrir þá sem hafa áhuga á þessu sviði þar sem félagið verður fyrsta sinnar tegundar á markaði.“

Að sögn Jónasar er ákvörðunin um skráningu til marks um að Kaldalón sé komið til að vera. „Við ætlum að vera með gegnum gangandi verkefnaflæði og 5-7 verkefni í gangi á hverjum tíma. Það munu klárast tvö verkefni á fyrstu tveimur árunum en þá munu koma inn önnur tvö ný verkefni og svo koll af kolli. Félagið er komið til að vera og við sjáum fyrir okkur að komast í framleiðslu á um 150- 200 íbúðum á ári á næstu tveimur árum og halda þannig hlutunum áfram jafnt og þétt.“Senda grein