Fréttir  • Gislihauksson-heimasida

Ísland sem fyrirmynd ferðaþjónustu á Norðurslóðum

30.12.2017 Skoðun

Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA, fór í áramótatímariti Viðskiptablaðsins yfir vöxt ferðaþjónustunnar og þau tækifæri sem eru til staðar til frekar uppbyggingar ferðaþjónustu á Norðurslóðum.

Árið 2010 birti Ferðamálastofa spá um fjölgun ferðamanna til ársins 2020 í ársriti sínu, Ferðaþjónusta í tölum. Hefði bjartsýnasta spá ferðamálayfirvalda frá þeim tíma gengið eftir hefði ferðamannafjöldinn náð einni milljón á lokaári spátímans, en verið nær 800-900 þúsund á árinu sem er að líða.

Grein-GH-i-aramotatimariti-VB-28.12.17Í ljósi hinnar ævintýralegu fjölgunar ferðamanna á undanförnum árum gætu spár greiningaraðila frá þessum tíma virst hjákátlegar, en eins og við vitum nú heimsótti milljónasti ferðamaðurinn Ísland árið 2015 – fimm árum á undan áætlun – og líklega verður ferðamannafjöldinn vel á þriðju milljón á árinu sem að líða. Spárnar eru þó öðru fremur gagnleg áminning um hversu mjög ferðamannasprengjan kom okkur að óvörum, en hún er afleiðing fjölda samverkandi þátta sem allir lögðust saman á ævintýralegan hátt.

Eldsumbrotin í Eyjafjallajökli marka upphafið á þessum mikla vexti. Þau eru fullkomið dæmi um hvernig Íslendingum tókst að snúa neikvæðri umfjöllun um landið í jákvæða markaðsherferð, sem lifað hefur áfram í samstilltu átaki ferðamálayfirvalda og ferðaþjónustufyrirtækja. Í kjölfarið tókst þeim það, sem skáldinu mistókst – að selja norðurljósin – en norðurljósaferðir eru nú einn helsti drifkraftur vetrarferðamennsku á Íslandi, sem dregið hefur verulega úr árstíðasveiflu í greininni.

Samhliða því hefur Ísland vakið athygli í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en íslenskt landslag hefur birst umheiminum í búningi fjarlægra pláneta og ævintýralanda. Þá hefur aukið sætaframboð og stækkun leiðarkerfis bæði innlendra og erlendra flugfélaga leikið lykilhlutverk. Á árinu sem er að líða flugu 26 flugfélög til yfir 90 áfangastaða þegar mest var, en það er auðvitað gjörbreyting frá því sem var fyrir rúmum áratug, þegar aðeins tvö flugfélög flugu til Íslands allt árið.

Þúsaldarferðamaðurinn

Þótt okkur hætti e.t.v. til að líta á sprengivöxtinn í ferðaþjónustu sem afleiðingu þessara séríslensku aðstæðna, þá er staðreyndin sú að alþjóðleg þróun hefur lagt hönd á plóg. Hér er þó ekki endilega um að ræða efnahagslega þróun, heldur fremur samfélagslega byltingu sem rekja má til neytenda af þúsaldarkynslóðinni. Hennar sér greinileg merki á komum ferðamanna til Íslands; meira en helmingur ferðamanna sem heimsótti Íslands síðasta sumar er undir 35 ára aldri.

Ferðaþjónusta á Íslandi virðist nefnilega höfða til ýmissa sérkenna þúsaldarkynslóðarinnar. Hún er oft sögð vilja fjárfesta í óvenjulegri reynslu frekar en áþreifanlegum munum, hún er ævintýragjörn og er umhugað um óspjallaða náttúru. Þá er þúsaldarkynslóðin meðal virkustu notenda samfélagsmiðla, sem hafa rutt sér til rúms á umliðnum árum og vafalaust átt sinn þátt í vexti íslenskrar ferðaþjónustu. Myllumerkið #Iceland hefur til dæmis verið notað tæplega sjö milljón sinnum á smáforritinu Instagram og þannig komið íslenskri náttúrufegurð fyrir sjónir tugmilljóna notenda. Erfitt er að gera sér í hugarlund betri auglýsingu fyrir áfangastaðinn Ísland.

Tækifærin á Norðurslóðum

Margt af því sem gerir Ísland að eftirsóknarverðum áfangastað í augum þessarar nýju kynslóðar ferðamanna gildir einnig um nágranna okkar á norðurslóðum, svo sem Grænland, Færeyjar og Noreg, en öll hafa ríkin séð öran vöxt í komum ferðamanna síðustu ár, þótt hann jafnist e.t.v. ekki á við Ísland.

Þótt hin mikla fjölgun ferðamanna á Íslandi hafi auðvitað haft margar áskoranir í för með sér, til dæmis hvað varðar aðgangsstýringu á fjölsóttustu ferðamannastöðunum, uppbyggingu innviða og opinbera stefnumörkun, þá hefur hún jafnframt gert íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að öðlast reynslu og stunda metnaðarfulla vöruþróun, sem reynst getur afar verðmæt haldi vöxtur Norðurslóðaferðamennsku áfram – bæði innan lands og utan.

Staðreyndin er sú að tækifæri innlendra ferðaþjónustufyrirtækja eru ekki bundin við Ísland. Auk þess sem lega Íslands og öflugt leiðakerfi flugfélaga gera landið að kjörinni samgöngumiðstöð til ferðalaga um norðurslóðir, þá felast mikil tækifæri í útflutningi á íslensku hugviti til annarra markaða við heimskautabaug. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa lyft grettistaki í nýsköpun og markaðssetningu á hinu sérhæfða sviði ævintýraog vetrarferðamennsku, og gætu vel orðið fyrirmyndir að frekari vexti ferðaþjónustu í nágrannalöndunum, nú þegar greinin virðist nálgast jafnvægi innanlands.

Greinin birtist upphaflega í Áramót, áramótatímariti Viðskiptablaðsins, þann 28. desember 2017.

Senda grein