FréttirÁvöxtun á íslenskum fjármálamarkaði 2016

29.12.2016 Skoðun

Valdimar Ármann framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA í viðtali hjá Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem farið er yfir ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði yfir árið.

Þar kemur í ljós mikil sundurleitni í ávöxtun á hlutabréfamarkaði og skuldabréfamarkaði og mikill munur á ávöxtun mismunandi fjárfestingarkosta þ.e. góð ávöxtun hlutabréfa sem hafa tekjur og eignir á Íslandi og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa en lakari ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa og hlutabréfa með tekjur og eignir erlendis. Til samanburðar má geta þess að blandaði fjárfestingarsjóðurinn GAMMA: Total Return Fund hefur skilað um 13% ávöxtun á árinu og sýnir mikilvægi eignadreifingar og virkrar stýringar í eignasöfnum.

Innlent ávaxtaðist best í ár

Avoxtun-sprnadarforma

Hlutabréf skráðra félaga með tekjur og eignir hérlendis skiluðu 25% ávöxtun á árinu sem er að líða.

Sigurvegari í ávöxtun sparnaðarforma á árinu 2016 eru hlutabréf í skráðum íslenskum félögum sem hafa tekjur sínar og eiga eignir hérlendis. Þetta segir Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri hjá GAMMA.
Hann segir að næst á eftir, en með nokkru minni arðsemi, séu óverð- tryggð skuldabréf en ríkisskuldabréfavísitala fyrirtækisins mælir 9,97% ávöxtun á óverðtryggð skuldabréf á árinu.

„Óverðtryggð skuldabréf skila um það bil 10% ávöxtun á árinu. Þau stóðu sig óvænt betur en haldið var í upphafi en tíðindalítið var á markaði fram að óvæntri vaxtalækkun í ágúst.“ Hann bendir á að blandaðir sjóðir skuldabréfa og hlutabréfa hafi getað náð enn betri ávöxtun.

„Þróunin var ekki alveg eins og menn gerðu ráð fyrir í upphafi árs. Þetta reyndist erfiðara ár í fjárfestingum en búist var við.“ Hann segir að í upphafi ársins hafi verið reiknað með að ferðamönnum hingað myndi halda áfram að fjölga og gangurinn í hagkerfinu yrði góður.

„Það sem menn sáu ekki fyrir var hin mikla styrking krónunnar, sem hófst upp úr miðju sumri. Síðan voru væntingar manna um að höftum yrði aflétt hraðar en raunin varð. Þannig bjuggust menn fremur við að flæði úr íslenskum fjármálagerningum myndi eiga sér stað.“ Hann segir að erlendar fjárfestingar gætu orðið þema næsta árs, ef að líkum lætur.

„Þessi mikla styrking krónunnar olli því á hlutabréfamarkaði að félög með tekjur eða eignir í erlendri mynt fóru ekki vel út úr árinu. En félög með tekjur og eignir hérlendis skiluðu prýðisgóðri ávöxtun, eins og fyrr segir. Það er því óhætt að tala um sundurleitni á hlutabréfamarkaði, þar sem sum félögin skila töluverðum mínus og önnur töluverðum plús. Þar sem félög í erlendri starfsemi eru fremur stór í samanburði við hin koma hlutabréfavísitölur fremur illa út og gefa ekki rétta mynd af mögulegri ávöxtun á hlutabréfamarkaði.“

Hann segir styrkingu krónunnar ásamt lítilli útlánaþenslu líka hafa haft áhrif til að hemja verðbólgu og gefa Seðlabankanum færi á vaxtalækkun. „Þetta olli því að verðtryggð skuldabréf skiluðu töluvert lægri ávöxtun en óverðtryggð og ekki alveg fyrirséð hvernig það mun þróast næsta árið.“

Valdimar segir framboð skuldabréfa vera minna en vænst var.

„Framboð skuldabréfa heilt yfir er ekki mikið. Farið er að skorta löng verðtryggð skuldabréf og ríkissjóður er farinn að draga saman útgáfu sína á þessu sviði. Að sama skapi gera lægri vextir og lægri ávöxtunarkrafa skuldabréfin minna aðlaðandi en þau voru áður. Það gæti orðið til þess að heimili, sem lítið hafa látið til sín taka á hlutabréfamarkaði í samanburði við fyrri ár, freistist til að fara úr skuldabréfum og yfir í áhættusamari sparnaðarform eins og hlutabréf, til að sækja góða ávöxtun.“

- Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 29. desember 2016
www.mbl.is/vidskipti/frettir/innlent_avaxtadist_best_i_ar/ 

Senda grein