Fréttir



Indverskt strandhögg á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu

25.4.2017 Samfélagsmál

Leikar eru farnir að æsast á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu. Baráttan var mikil á efstu borðunum í sjöundu umferð í gær. 

Fimm skákmenn eru nú efstir og jafnir með 6 vinninga. Það eru Baadur Jobava frá Georgíu, sem teflir flestar sínar skákir með sólgleraugu. Tyrkinn Emre Can sem hefur komið á óvart með góðri frammistöðu, Svínn Nils Grandelius og Indverjarnir Gujrathi Vidit og Abhijeet Gupta, sigurvegari síðasta árs. 

Jóhann Hjartarson er efstur Íslendinga með 5½ vinning. Jóhann er ½ vinningi á eftir efstu mönnum. Næstur kemur Bragi Þorfinnsson með 5 vinninga. Þeir félagarnir fá báðir ögrandi verkefni í dag. Jóhann mætir hollenska stórmeistaranum Erwin L´Ami sigurvegara mótsins frá 2015 og Bragi mætir lettnesku goðsögninni Alexei Shirov. Shirov sigraði einmitt á Reykjavíkurskákmótinu árið 1992 ásamt Jóhanni.

Björn Þorfinnsson, Vignir Vatnar Stefánsson, Halldór Grétar Einarsson, Guðmundur Kjartansson og Þröstur Þórhallsson koma næstir íslensku keppendanna með 4½ vinning.

Indversku undrabörnin hafa stolið athyglinni á mótinu og reyndar Indverjar sem slíkir. Hinn 11 ára Praggnanandhaa gerði í gær jafntefli við goðsögnina og fyrrum Sovétmeistara í skák, Alexander Beliavsky. Aldursmunurinn var 52 ár!

Frett2

Beljavskíj bauð að lokum Praggnanandhaa jafntefli eftir að þeir höfðu höfðu þráleikið í nokkra stund, báðir keppendur áttu erfitt með að kyngja jafntefli að þessu sinni!

 

Systir hans Vaishali, sem hefur stundið fallið í skuggann af litla bróður, hefur einnig átt frábært mót. Hinn hefur meðal annars lagt að velli tvo stórmeistara og þar á meðal filippseysku goðsögnina Eugene Torre.  Indverjar, sem að mörgum eru taldir líklegir til að verða mesta skákstórveldi heims innan nokkura ára, eru að gera gott mót og margir í efstu sætum mótsins. Þriðja undrabarnið, Nihal Sarin, tapaði í gær.

Vaishali

Hin unga indverska skákprinsessa, Vaishali R, hefur verið að gera góða hluti á mótinu til þessa

 

Áttunda umferðin hefst klukkan 15:00 og má búast við mikilli baráttu. Kappar eins og Anish Giri, stigahæsti keppandi mótsins, sem er jafn Jóhanni, verður að vinna í dag til missa ekki efstu mennina of langt frá sér.

Skákskýringar Einars Hjalta Jenssonar hefjast kl. 19. Næstsíðasta umferðin fer fram á morgun kl. 17 og lokaumferðin á fimmtudaginn kl. 11:00. 

Áhorfendur eru velkomnir í Hörpu. Boðið er uppá ofurstórmeistara, undrabörn og skákdrottningar. Aðgangur er ókeypis.

 

 

Senda grein