Fréttir  • Valdimar Ármann, CEO
    Valdimar Ármann, CEO GAMMA Capital Management

Horft um öxl og litið til framtíðar

29.12.2017 Skoðun

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi, fer yfir árið og horfurnar framundan í grein í ViðskiptaMogganum. 

Árið 2017 hefur reynst áhugavert í marga staði. Umtalsverður þróttur hefur verið í hagkerfinu og efnahagslífið er að taka á sig nýja mynd með ferðaþjónustu sem einni af grundvallarstoðunum. Við svo mikla breytingu eins og hefur átt sér stað gætir áhrifanna víða og það tekur tíma að finna nýtt jafnvægi. Áhrifanna gætir að sjálfsögðu á fjármálamarkaðnum og finna þarf hvar jafnvægisraunvextir liggja, sem og hvert sé nýtt jafnvægisraungengi.

Grein-VA-i-VidskiptaMogga-28.12.17Lítum fyrst aðeins um öxl. Samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans á árinu hafa skuldabréf skilað bestu ávöxtun af skráðum fjármálagerningum en Skuldabréfavísitala GAMMA hefur hækkað um 10% á árinu. Vaxtalækkanir hafa skilað sér í lækkandi raunvaxtastigi og lækkandi ávöxtunarkröfu á stuttum og löngum óverðtryggðum sem og verðtryggðum ríkisskuldabréfum sem hækkar verðið á þeim. Ljóst er þó að vegna innflæðishafta hafa vaxtalækkanir ekki skilað sér að fullu til heimila og fyrirtækja og má sjá á útlánavöxtum á verðtryggðum útlánum bankanna til heimila sem og ávöxtunarkröfu á skráðum fyrirtækjaskuldabréfum fasteignafélaga í Kauphöllinni.

Það vekur hins vegar athygli, á sama tíma og fjármögnunarkostnaður er að lækka og umsvifin í hagkerfinu að aukast, að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hefur skilað sáralítilli ávöxtun þetta árið. En hvað veldur því? Ein skýring á ávöxtun hlutabréfamarkaðar er tengd flæði eða einfaldlega framboði og eftirspurn. Á árinu breyttist fjárfestingarstefna flestra lífeyrissjóða landsins á þann hátt að ákveðið var að auka hlutfall sjóðsfélagalána í eignasöfnum sem og hlutfall erlendra fjárfestinga. Einungis sjóðsfélagalánin tóku til sín nánast allt nettó innflæði í lífeyrissjóðina þannig að fjárfestingargeta þeirra í öðrum fjármálagerningum, svo sem skráðum hlutabréfum eða skuldabréfum, var mjög lítil eða jafnvel engin. Þrátt fyrir lága ávöxtun á hlutabréfamarkaði hefur Markaðsvísitala GAMMA hækkað um 8% á árinu en hún er samsett úr vísitölum GAMMA, þ.e. Hlutabréfavísitölunni, Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa og Skuldabréfavísitölunni. Það sannast því að eignadreifing er mikilvægt tæki fjárfesta þar sem óvissa ríkir ávallt um framtíðina.

Litið til framtíðar þá er líklegt að flæðið á markaðnum breytist aftur. Fjárfestingargeta lífeyrissjóðanna er að aukast umtalsvert vegna aukins innflæðis vegna hækkandi iðgjalda, fjölgunar launþega sem og vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru byrjaðir að takmarka veitingar sjóðsfélagalána. Einnig er nauðsynlegt að halda áfram þeirri vegferð að auka erlendar eignir í söfnum fjárfesta til að stuðla að enn frekari áhættudreifingu og nýta hið sterka gengi krónunnar og jákvæðan viðskiptaafgang. Mjög jákvætt er að sjá auknar fjárfestingar erlendra fjárfesta á íslenskum markaði og á þessu ári hafa þeir fjárfest fyrir um 50 milljarða íslenskra króna á hlutabréfamarkaðnum. Slíkar fjárhæðir hefðu oft getað valdið umtalsverðu umróti og hækkunum í kjölfarið en dugði ekki til þetta árið. En það væri jafnframt gott fyrir íslenskan markað að fá erlenda fjárfesta í íslensk skuldabréf og stuðla þannig að frekari fjárfestadreifingu. Líklegt er að erlendir fjárfestar haldi áfram að auka við fjárfestingar sínar á Íslandi.

Margt ánægjulegt hefur raungerst á árinu en annað veldur áhyggjum. Það þarf að halda vel á spilunum til að viðhalda hér hagvexti næstu árin og styðja við undirstöðurnar, meðal annars með fjárfestingum í innviðum og mannvirkjagerð.

- Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum þann 28. desember 2017.

Senda grein