Fréttir



  • AR-170209065
    Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA

Höft stuðla að gengissveiflum

21.8.2017 Skoðun

Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA talar um höft og gengissveiflur í viðtali við ViðskiptaMoggann.

Gengi krónu hefur veikst um 16% gagnvart evru og 11% gagnvart dollar frá júní. Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, segir að höft á innflæði erlends fjármagns leiði til þess að krónan sveiflist meira en efni standa til. Fjármagn leiti úr landi eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin í mars á sama tíma og erlendir skuldabréfafjárfestar eigi ekki greiða leið inn.

„Vonandi bregst Seðlabankinn við með skynsamlegum hætti og afnemur innflæðishöftin. Ef af yrði gæti krónan fundið jafnvægi og dregið yrði úr gengissveiflum,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann. Á sama tíma og lífeyrissjóðir dragi sig í auknum mæli út af innlendum skuldabréfamarkaði, einkum í óverðtryggðum skuldabréfum, séu erlendir skuldabréfafjárfestar að mestu útilokaðir af skuldabréfamarkaðnum. Þar sem erlendir aðilar hafa nær eingöngu fjárfest í óverðtryggðum skuldabréfum hefur þessi þróun ásamt gengisveikingunni ýtt verulega upp verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði undanfarið. 

„Seðlabankinn mun hugsanlega rökstyðja óbreytta vexti á vaxtaákvörðunarfundi sínum í næstu viku, með hliðsjón af hækkandi verðbólguálagi en hann þarf að hafa í huga að innflæðishöftin spila nú stórt hlutverk í lækkun gengisins og hækkun verðbólguvæntinga,“ segir hann.

Agnar segir að gengislækkunina megi að miklum hluta rekja til þess að íslenskir fjárfestar séu að fjárfesta erlendis eftir að hafa verið innlyksa í gjaldeyrishöftum í níu ár. Til viðbótar virðist sem sumir viðskiptabankanna hafi verið umsvifamiklir kaupendur á erlendum gjaldeyri. „Möguleg skýring er að þeir vilji geta boðið erlendum fjárfestum í Arion banka að verja fjárfestinguna í erlendri mynt,“ segir Agnar Tómas. Fram hefur komið í fréttum að það standi til að skrá bankann á hlutabréfamarkað í haust.

Á sama tíma og ferðamannastraumur fór vaxandi til Íslands styrktist gengi krónu vegna þess að þeir komu með mikinn gjaldeyri til landsins. Agnar Tómas segir að á seinustu áratugum hafi hlutur fjármagnsflæðis í gjaldeyrisviðskiptum aukist mjög og það eigi líka við hér, ekki síst eftir afléttingu hafta. Fjármagnsflæðið getur því haft mun meiri áhrif á gengið til skamms tíma en viðskipti við útlönd, sem standa í blóma um þessar mundir,“ segir hann og bætir við að eftir að gjaldeyrishöftum var aflétt þurfi ekki lengur að standa skil á öllum gjaldeyri. Útflutningsfyrirtæki hafi því meira frelsi á hverjum tíma um hvort þau komi með gjaldeyri inn í hagkerfið, sem geti líka ýtt undir sveiflur á gengi krónunnar.

Screen-Shot-2017-08-21-at-16.22.22

- Greinin birtist í ViðskiptaMogganum þann 17. ágúst 2017. 

Senda grein