Fréttir



Hilmir Freyr meistari Skákskóla Íslands 2017

30.5.2017 Samfélagsmál

Hilmir Freyr Heimisson vann glæsilegan sigur á Meistaramóti Skákskóla Íslands. 

Hilmir  vann allar fimm skákir sínar og er fyrsti sigurvegari meistaramótsins sem vinnur það með fullu húsi. Hann tefldi af mikilli hörku, lenti aldrei í taphættu  og var sigur hans afar sannfærandi. Bárður Örn Birkisson varð í 2. sæti með 3½ vinning og síðan komu Aron Thor Mai, Alexander Oliver Mai og Jón Trausti Harðarson með 2½ vinning hver.

Meistaramót Skákskólans er sterkasta unglingamótið sem haldið er hér á landi ár hvert og voru keppendur að þessu sinni 27 talsins. Teflt var í flokki skákmanna sem eru með yfir 1600 alþjóðleg elo-stig og í flokki keppenda sem eru undir 1600 elo-stigum eða stigalausir.

Í flokki skákmanna undir 1600 elo-stigum hafði hinn ungi Gunnar Erik Guðmundsson sigur, en hann er einungis á tíunda aldursári. Þeir Gunnar Erik, Örn Alexandersson og Þorsteinn Magnússon urðu jafnir með 6 vinninga hver af átta mögulegum. Örn var með vinning í forskot fyrir lokaumferðina en tapaði þá fyrir Þorsteini. Stig voru látin úrskurða um sigurvegarann og við útreikning kom í ljós að Gunnar Erik hafði fengið hálfu stigum meira en Örn og Þorsteinn.

Við mótslit afhenti Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri hjá GAMMA, verðlaun en GAMMA Capital Management var aðalstyrktaraðili mótsins. Verðlaun samanstóðu af fjórum ferðaverðlaunum á skákmót erlendis auk bókavinninga. 

2017-05-28_18_38_51Sigurvegari mótsins, Hilmir Freyr Heimisson, tekur hér við verðlaunum úr hendi Agnars Tómasar Möller.

2017-05-28_18_35_26

Gunnar Erik Guðmundsson vann mót skákmanna með 1600 elo stig eða minna.

Meistaramot_-_1

Ungir skákmenn á uppleið – keppendur í flokki skákmanna með 1600 elo stig eða minna. 

 

Senda grein