Fréttir  • Valdimar Ármann, CEO
    Valdimar Ármann, CEO GAMMA Capital Management

Góður gangur á fjármálamarkaði í fyrra

9.1.2018 Skoðun Vísitölur

Dagleg heildarvelta með verðbréf í Markaðsvísitölu GAMMA var að meðaltali 6,6 milljarðar króna í fyrra. Árleg ávöxtun nam 7,6%.

Heildarávöxtun verðbréfa sem mynda Markaðsvísitölu GAMMA var 7,6% árið 2017, en vísitalan endurspeglar ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði. Í upphafi árs 2017 var heildarmarkaðsvirði vísitölunnar 2.559 milljarðar en 2.744 um síðustu áramót. Jókst heildarvirði vísitölunnar því um 185 milljarða króna á nýliðnu ári.

Markaðsvísitala GAMMA er samsett úr Hlutabréfavísitölu GAMMA, Skuldabréfavísitölu GAMMA og Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa og endurspeglar þróun yfir tíma. Hver undirvísitala hlýtur vægi í markaðsvísitölunni í samræmi við heildarmarkaðsvirði.

Allir flokkar sem mynda Markaðsvísitölu GAMMA hækkuðu á árinu 2017. Verðtryggð ríkisskuldabréf báru hæstu ávöxtunin yfir árið eða 11,6%, vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 8,6% og óverðtryggð ríkisskuldabréf  um 5,2%. Hlutabréfin ráku lestina og hækkuðu um 3% á árinu. Sé tekið mið af þróun verðbólgu á árinu var jákvæð raunávöxtun í öllum flokkum.

Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2017 var 1.644 milljarðar, eða um 6,6 milljarðar á dag að meðaltali. Veltan er 12% minni en á fyrra ári, en ástæðu þess má einkum rekja til lægri veltu með ríkis- og ríkistryggð skuldabréf.

Markaðurinn nokkuð traustur

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi, segist í heildina ánægður með nýliðið ár. „Markaðurinn var nokkuð traustur. Ég hefði  þó haldið að ávöxtun hlutabréfa yrði meiri miðað við stöðu hagkerfisins og þann hagvöxt og uppgang sem er til staðar. Hlutabréfamarkaður veldur þar af leiðandi ákveðnum vonbrigðum, en heilt yfir er ávöxtun sæmileg.“ Þá segir Valdimar ekki útilokað í ljósi þróunar síðasta árs að hlutabréfamarkaður eigi inni hækkun á þessu. „En það er erfitt að spá fyrir um það.“

Nokkur munur er á 2016 og 2017 varðandi ávöxtun mismunandi fjárfestingarkosta. Árið 2016 var góð ávöxtun hlutabréfa sem hafa tekjur og eignir á Íslandi og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, en lakari ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa og hlutabréfa með tekjur og eignir erlendis. Þetta breyttist til muna árið 2017 og snerist algerlega við.

Ef miðað er við þær vigtir sem hvert og eitt félag hefur í hlutabréfavísitölunni hverju sinni er hægt að sýna fram á að félög í erlendri starfsemi lækkuðu um 14,0% á árinu 2016 en félög í innlendri starfsemi hækkuðu um 22,4%. Árið 2017 skilur talsvert minni munur þessa kosti að og hafa erlendu félögin hækkað meira en þau innlendu, eða um 5,0% gegn 0,75% hækkun félaga í innlendri starfsemi.

Áhrif af afnámi hafta

Valdimar segir síðasta ár hafa markast af breytingum sem urðu á flæðinu á markaðnum, en þar hafi ýmsir þættir haft áhrif, svo sem afnám hafta og áframhaldandi innflæðishöft á skuldabréfamarkaði.

„Aflétting hafta hafði náttúrlega minni áhrif hvað lífeyrissjóðina varðaði, því þeir voru byrjaðir að fjárfesta erlendis, en þetta hafði áhrif á einstaklinga og fjárfesta. Á sama tíma varð mikil aukning í sjóðsfélagalánum lífeyrissjóða og framboð á skuldabréfamarkaði var töluvert mikið. Sjóðirnir héldu líka áfram að fjárfesta erlendis um leið og aðrir fjárfestar tóku að auka við hlutföll í erlendum eignum.“  Afleiðingin hafi orðið ákveðið ójafnvægi í framboði og eftirspurn á markaðnum. „Að þessu marki má kannski segja að athygli fjárfesta hafi verið dreifðari á síðasta ári en árið áður. Um leið voru ekki einhverjir stórir áhrifavaldar að hafa áhrif, líkt og mikil styrking krónunnar gerði árið 2016.“

Súrefni vantar í skuldabréfamarkaðinn

Lækkun á stýrivöxtum Seðlabankans segir Valdimar að hafi einnig haft áhrif og skuldabréf skilað góðri ávöxtun áfram vegna lækkandi vaxtastigs á landinu. „Seðlabankinn náði að lækka raunvaxtastig töluvert mikið og raunvextir komnir nú komið niður í tæplega tvö prósent. Það verður áhugavert að fylgjast með því á þessu ári hvort sú þróun haldi áfram eða hvort aðrir þættir breyti myndinni.“

Innflæðishöft Seðlabankans hafi svo aftur haft áhrif í þá veru að erlendir aðilar sýndu skuldabréfum minni áhuga. „Að okkar mati vantar ákveðið súrefni inn á skuldabréfamarkaðinn. Þetta tvennt, að  lífeyrissjóðirnir hafi veitt mikið af sjóðsfélagalánum, og hvernig innflæðishöftin hamla erlendum fjárfestum aðgengi að skuldabréfamarkaðnum, hafði töluverð áhrif á skuldabréfamarkaðinn og þá sérstaklega á markað með fyrirtækjaskuldabréf.“

Erlendir aðilar umsvifamiklir

Að sögn Valdimars sýndu erlendir fjárfestar hlutabréfum í staðinn mun meiri áhuga og fjárfestu fyrir um fimmtíu milljarða á hlutabréfamarkaðnum. Slík innspýting segist hann telja að hefði, að öllu jöfnu, átt að skila sér í meiri verðhækkunum hlutabréfa en raunin varð, í það minnsta hjá mörgum fyrirtækjum. „En erlendir fjárfestar voru þó nokkuð umsvifamiklir á hlutabréfamarkaðnum.“

Af einstökum vísitölum í Markaðsvísitölu GAMMA var á nýliðnu ári mest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf [GAMMAxi] eða 736 milljarða (44% af heild), næst var Hlutabréfavísitala GAMMA með 604 milljarða (36%), þar á eftir Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa með 164 milljarða (10%) og loks vísitala verðtryggðra skuldabréfa [GAMMAi] með 153 milljarða (9%). Þrátt fyrir lágt hlutfall af heildarveltu er Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hástökkvari ársins með 47% veltuaukningu frá árinu 2016 og kemur það ofan á 88% aukningu milli áranna 2015 og 2016 og 100% aukningu á milli áranna 2014 og 2015.

Senda grein