Fréttir



Góð viðbrögð við skuldabréfaútboði Almenna leigufélagsins

16.1.2018 Starfsemi

Lækkun fjármagnskostnaðar og undirbúningur fyrir skráningu á markað gengur samkvæmt áætlun.

Almenna leigufélagið ehf. lauk í gær lokuðu útboði á nýjum flokki skuldabréfa. Boðin voru til sölu skuldabréf á ávöxtunarkröfunni 3,70%. Alls bárust 14 tilboð í skuldabréfaflokkinn að nafnverði 5.800 m.kr. og var öllum tilboðum tekið.

Skuldabréfaflokkurinn, sem er verðtryggður til 30 ára, er tryggður með veði í fasteignasafni félagsins, um tólfhundruð íbúðum sem að stærstum hluta eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Sótt verður um töku skuldabréfanna til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. að loknu uppgjöri og afhendingu bréfanna. Landsbankinn hf. hafði umsjón með útboði skuldabréfanna.

Almenna leigufélagið gerði nýverið fjögurra milljarða króna lánasamning við bandarískan fjárfestingarsjóð. Samningurinn og skuldabréfaútgáfan eru hvort um sig liður í endurfjármögnun skulda Almenna leigufélagsins, sem mun fela í sér umtalsverða lækkun á fjármagnskostnaði félagins. Stefnt er að skráningu félagsins á markað innan tveggja ára.

María B. Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins:

„Það er ánægjulegt að sjá góð viðbrögð fjárfesta við útboðinu, sem er jafnframt fyrsta útgáfa félagsins á skráðum skuldabréfum. Við erum sannfærð um að eftirspurn eftir öruggri langtímaleigu og háu þjónustustigi til leigjenda sé komin til að vera. Þessi niðurstaða sýnir að markaðurinn er á sama máli. Við réðumst í þessa heildarendurfjármögnun á skuldum félagsins til þess að lækka fjármagnskostnað, sem er mikilvægur liður í undirbúningi félagsins fyrir skráningu.“

Senda grein