Fréttir



Haustið byrjar að hljóma með Sinfóníuhljómsveit Íslands

30.8.2017 Samfélagsmál

GAMMA hefur verið styrktaraðili sinfóníuhljómsveitarinnar frá árinu 2011 

Sinfóníuhljómsveit Íslands ýtir nú nýju starfsári úr vör. Að venju eru efnisskrárnar metnaðarfullar og spennandi, og mun hljómsveitin flytja nokkur af glæsilegustu hljómsveitarverkum 19. og 20. aldar. 

Þar á meðal eru Myndir á sýningu eftir Músorgskíj, Symphonie fantastique eftir Berlioz, Konsert fyrir hljómsveit eftir Lutoslawski og Sinfóníska dansa eftir Rachmanínov. Auk þess mun fjöldi frábærra listamanna stíga á svið með sinfóníuhljómsveitinni í vetur. Karita Mattila syngur Wesendonck-söngva Wagners, Osmo Vänskä stjórnar hinni stórfenglegu 2. sinfóníu Mahlers og Vladimir Ashkenazy stjórnar 2. sinfóníu Rachmanínovs. 

Einleikarar eru líka í fremstu röð. Janine Jansen, Behzod Abduraimov, Baiba Skride eru meðal erlendra listamanna sem koma til Íslands í vetur, en meðal heimamanna má nefna Víking Heiðar Ólafsson, Stefán Ragnar Höskuldsson og Einar Jóhannesson.

Sinfo2017

Samningur við Sinfóníuhljómsveit Íslands er hluti af stefnu GAMMA að styðja við fjölbreytt lista- og menningarstarf. Ásamt því að reka Gallery GAMMA hefur fyrirtækið styrkt Hið íslenska bókmentafélag, Listahátíð Reykjavíkur og Reykjavík Midsummer Music tónlistarhátíðina. Þá er GAMMA aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins og hefur unnið að því að efla áhuga ungs fólks á skáklistinni. 

Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA:

„ Samstarf GAMMA og sinfóníuhljómsveitarinnar hefur verið farsælt og ekki síður gefandi. Við höfum frá upphafi lagt mikinn metnað í stuðning við menningu og listir og það er ánægjulegt að taka þátt í því að efla starf Sinfóníuhljómsveitar Íslands enn frekar.“

 

Frekari upplýsingar um Sinfóníuhljómsveit Íslands má finna á heimasíðunni sinfonia.is og upplýsingar um GAMMA er að finna á www.gamma.is/sinfonian/

Senda grein