FréttirGAMMA styrkir Reykjavík Midsummer Music

25.6.2017 Samfélagsmál

Reykjavík Midsummer Music er margverðlaunuð tónlistarhátíð Víkings Heiðars Ólafssonar sem haldin er í Hörpu í kringum sumarsólstöður í júní nú í sjötta sinn. 

GAMMA Capital Management hefur verið aðalstyrktaraðili hátíðarinnar undanfarin ár og gert nýjan samstarfssamning um að styrkja hátíðina til ársins 2019. Hátíðin hefur fest sig í sessi sem einn af hápunktum tónleikaársins hér á landi.

Þema hátíðarinnar í ár var frelsi og markmiðið að tefla saman sumum af bestu hljóðfæraleikurum heims í Hörpu og bjóða áheyrendum upp á tónlist frá ýmsum tímum á björtustu kvöldum ársins. Tónlistarmennirnir tóku þátt í fjölbreyttri tónleikadagskrá ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara sem einnig er listrænn stjórnandi. Heppnaðist hátíðin einstaklega vel í ár, skapandi gleðin skein í gegnum flutning listamannanna og óvæntar uppákomur skemmtu áhorfendum.    

Á hátíðinni var einn dáðasta víóluleikara heims, Maxim Rysanov, og tveir fremstu sellóleikarar sinnar kynslóðar, Nicolas Altstaedt og Istaván Várdai, auk norska víólumeistarans Lars Anders Tomters, margverðlaunaða hollenska fiðluleikarans Rosanne Philippens og hinum franska píanóleikara Juliens Quentins. Einnig meðal gesta í ár voru fiðluvirtúósarnir Vilde Fang og Sayka Shoji.    

„Ég trúi því að samhengi hafi mikið um það að segja hvernig við upplifum tónlist. Þess vegna vil ég helst velja saman verk frá ólíkum tímum þannig að þau eigi í samtali, varpi ljósi hvert á annað eða segi áður ósagða sögu. Fyrir mér er í raun öll tónlist sem enn er hlustað á samtímatónlist, hvort sem hún var samin á sautjándu öld eða er spunnin á staðnum. Þegar leiftrandi frumlegir tónlistamenn víðsvegar að úr heiminum koma saman til að spila verður alltaf til eitthvað nýtt og óvænt,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson, listrænn stjórnandi.

„Við erum stolt af því að styðja hina glæsilegu tónlistarhátíð Víkings Heiðars núna annað árið í röð. Það hefur ætíð verið skýr áhersla hjá GAMMA að styðja við menningu og listir í landinu. Víkingur Heiðar er einn af okkar hæfustu tónlistarmönnum og það hefur verið ánægjulegt að sjá hróður hans vaxa víða um heim,“ segir Valdimar Ármann forstjóri GAMMA. 

Rmm_undirskrift_harpaVíkingur Heiðar Ólafsson og Valdimar Ármann undirrituðu áframhaldandi samstarfssamning GAMMA Capital Management og Reykjavik Midsummer Music í Hörpu.

Senda grein