FréttirGAMMA styður Norrænar raddir

26.10.2016 Samfélagsmál

GAMMA Capital Management var nýlega aðalstyrktaraðili tónleika í Scandinavia House í New York borg þar sem dagskráin var innblásin af Íslandi.

Northernvoices1

Nýverið voru haldnir tónleikar í Scandinavia House í New York yfirskriftinni, „Northern Voices“. Á dagskránni var tónlist innblásin af Íslandi og var GAMMA aðalstyrktaraðili tónleikana. Á tónleikunum flutti Evan Fein, bandarískur píanóleikari, og Bragi Bergþórsson, tenórsöngvari, verk eftir íslensk og erlend tónskáld.

Fluttir voru valdir kaflar úr verkinu New Icelandic Folksongs eftir Fein sem Þorvaldur Davíð Kristjánsson, samdi texta við. Auk þess voru frumflutt þrjú ný lög eftir Fein við ljóð rithöfundarins Ragnars Jónassonar, sem jafnframt er yfirlögfræðingur GAMMA. Einnig voru flutt verk eftir Halldór Smárason, Jón Leifs, Jón Þórarinsson og Joseph Hallman.

„Þetta voru ótrúlega vel heppnaðir tónleikar. Það var gaman að sjá svo marga áhugasama leggja leið sína í Scandinavia House til að hlýða á tónlist sem tengist Íslandi. Það er erfitt að koma svona viðburðum á framfæri í New York þar sem framboð af alls konar uppákomum er óendanlegt. Ég fann fyrir mikilli tengingu milli stórborgarinnar og Íslands hjá gestunum í gegnum tónlistina,“ segir Bragi Bergþórsson tenórsöngvari. 

Tónleikarnir byggðu að sögn Braga í grunninn á öðrum tónleikum sem þeir Evan Fein héldu á þjóðlagahátíð á Siglufirði þar sem fluttur var söngflokkur Evans „Ný íslensk þjóðlög“. Á tónleikunum í New York hafi fleiri tónskáld bæst í hópinn, meðal annars Halldór Smárason sem var þar í skóla við tónsmíðar. Til viðbótar voru lög við texta eftir Ragnar Jónasson og Þorvald Davíð Kristjánsson. „Við erum glaðir með útkomuna; fengum ágætis dóma í erlendum fjölmiðlum og mjög góðar móttökur,“ segir Bragi.

Tónleikarnir voru haldnir á vegum Scandinavian House sem er helsta norræna menningarmiðstöðin í Bandaríkjunum. Miðstöðin var sett á laggirnar árið 2000 og hefur unnið að því að koma norrænni menningu og listum á framfæri í Bandaríkjunum. Árlega heimsækja um 1, 5 milljón gesta sýningar og viðburði í Scandinavia House á Park Avenue í New York.

Northernvoices2Northernvoices3

Senda grein